Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem er sú stærsta sem gerð hefur verið á þessu sviði. The Guardian segir að vísindamennirnir, sem gerðu rannsóknina, segi að með því að stunda bæði þolæfingar og styrktaræfingar reglulega virðist sem ávinningurinn af líkamsræktinni verði meiri.
Rannsóknin hefur verið birt í British Journal of Sports Medicine.
Fullorðnir eru hvattir til að hreyfa sig í að minnsta kosti 150 mínútur á viku með hóflegri ákefð í hreyfingunni eða í 75 mínútur ef ákefðin er mikil.
Þessu til viðbótar er fólk hvatt til að stunda „styrkjandi æfingar“, sem reyna á fætur, mjaðmir, bak, kvið, bringu, axlir og handleggi, að minnsta kosti tvisvar í viku.
Þolæfingar hafa verið tengdar við minni líkur á ótímabærum dauða en þar til núna var ekki vitað hvort það að lyfta lóðum hefði svipuð áhrif. Rannsóknin leiddi í ljós að svo er en hún byggðist á rannsókn á gögnum um tæplega 100.000 Bandaríkjamenn. Meðalaldur þátttakendanna var 71 ár og veittu þeir upplýsingar um styrktaræfingar sínar og aðrar æfingar sem þeir stunduðu.
Rannsóknin beindist að því hvort fólk lyfti lóðum en vísindamennirnir segja að aðrar tegundir styrktaræfinga komi einnig að gagni.