Meðal annars var rætt við hina 45 ára Lady Victoria Hervey, sem er fyrrum fyrirsæta, en hún er sögð hafa átt í skammvinnu ástarsambandi við prinsinn um hríð. Þá hitti hún Epstein og Maxwell og telur að þau hafi notað hana sem agn til að finna ungar stúlkur fyrir Epstein sem var síðar dæmdur fyrir barnaníð.
„Ég held að hann (Epstein, innsk. blaðamanns) hafi slakað á og beðið eftir að hún (Maxwell, innsk. blaðamanns) myndi fara á veiðar og finna stúlkur sem þurfti til að hafa ofan af fyrir vinum hans. Ég held að hún hafi notað mig sem agn,“ segir Lady Hervey í myndinni. Hún segist jafnframt telja að Epstein hafi verið höfuðpaurinn en hafi samt sem áður ekki getað gert þetta án aðstoðar frá Maxwell.
Eftir því sem Paul Page, sem var öryggisvörður í Buckinghamhöll frá 1998 til 2004, segir í myndinni þá lá meira en bara vinátta að baki sambands Maxwell og Andrew. Hann hitti Maxell í fyrsta sinn 2001 en hefur aldrei áður tjáð sig um hana og samband hennar við bresku konungsfjölskylduna. „Út frá því hvernig hún fékk að ganga inn og út úr höllinni að vild áttuðum við okkur … grunaði okkur að hún ætti í ástarsambandi við Andrew,“ segir hann og bætir við að einn vinnufélagi hans hafi tekið eftir því að dag einn kom hún fjórum sinnum til hallarinnar á einum degi, frá morgni til kvölds.