Emmy, sem býr í Ástralíu, lenti nýlega í því þegar hún var að aka bílnum sínum að risastór brún könguló birtist allt í einu í framrúðunni. Henni brá að vonum mikið en náði að komast heilu og höldnu í gegnum umferðina og út í kant. Þar lagði hún bílnum og flúði úr honum. Eflaust eru ekki margir sem lá henni það.
Vinkona hennar skýrði frá þessum hrakförum á Facebook. Þar sagði hún að þrír dagar hafi liðið þar til Emmy þorði að nálgast bílinn aftur en þá var staðan alls ekki betri.
Emmy hafði vonast til að köngulóin hefði pakkað saman föggum sínum og flutt en það hafði nú ekki gengið eftir. Í staðinn hafði bíllinn breyst í köngulóarbúgarð að segja má.
Bíllinn var fullur af köngulóarvef og köngulóarungum í tugatali. Köngulóin sem Emmy sá fyrst spinnur ekki vef og það þýddi auðvitað að önnur könguló, af annarri tegund, hafði líka verið í bílnum. Hún hafði greinilega ekki gefið sér tíma til að slaka á, heldur lagt hart að sér við að spinna vef og sinna afkvæmunum sínum.