fbpx
Þriðjudagur 28.september 2021
Pressan

Kvöldvaktin á skyndibitastaðnum breyttist í martröð – „Ég gerði svolítið hryllilegt“

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 10. júní 2021 06:00

Donna og Louise.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var síðdegis á föstudegi að síminn hringdi hjá Donna Summers vaktstjóra hjá McDonald‘s í Mount Washington í Kentucky í Bandaríkjunum. Dimm og valdsmannsleg rödd var á hinum endanum. Maðurinn sagðist vera lögreglumaður og héti Scott og væri að hringja út af starfsmanni á veitingastaðnum sem hafi stolið peningum frá viðskiptavini. Hann sagði að um grannvaxna unglingsstúlku væri að ræða og að hún væri brúnhærð. Donna var ekki í vafa við hverja hann átti.

Hún flýtti sér inn í aðstöðu starfsmanna þar sem Louise Ogborn, 18 ára, sat og borðaði. Hún hafði byrjað að vinna á veitingastaðnum fjórum mánuðum áður þegar móðir hennar veiktist og gat ekki haldið áfram að vinna þar. Hún fékk sem nemur um 500 íslenskum krónum á tímann og tók allar vaktir sem hún gat fengið til að útvega fjölskyldu sinni peninga. Þennan dag var hún á tvöfaldri vakt vegna veikinda annars starfsmanns. Það að hafa samþykkt að taka tvöfalda vakt þennan dag er eitthvað sem hún sér eftir enn þann dag í dag.

Eitt spurningamerki

Donna bað Louise um að koma með sér og sagði síðan í símann: „Hér er hún, stúlkan sem þú lýstir,“ á meðan þær gengu að bakherbergi. Louise var enn að borða og hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast. „Lokaðu dyrunum,“ sagði Donna.

Louise gerði það og horfði undrandi á hana. Þetta var upphafið að þriggja klukkustunda martröð sem átti eftir að breyta lífi Louise að eilífu.

„Þú átt að kalla mig herra!“

Scott, sem kallaði sig líka Scott lögreglumann, sagði Donna að hún yrði að sjá til þess að Louise myndi ekki stinga af. „Annað hvort bíðið þið þar til lögreglan kemur og handtekur hana eða þá getur þú leitað á henni núna,“ sagði hann við hana.

Donna rétti Louise símann og hún ræddi við æstan Scott. „Þú hefur ekki hugmynd um hverju þú stalst,“ sagði hann og krafðist þess að hún ávarpaði hann „herra“. Louise hafði enn ekki hugmynd um um hvað málið snerist, hikaði og sagði já.

Scott sagði það skipta gríðarlega miklu máli að peningarnir myndu finnast eins fljótt og hægt væri og Donna, sem var þess fullviss að hún væri að ræða við lögreglumann, gerði það sem hann bað um. Hún fékk Louise til að afklæðast alveg. „Þú ert alveg eins og alvöru lögreglumaður núna,“ sagði Scott hvetjandi við hana í símann. Donna þakkaði hrósið og hló en Louise sat nakin á skrifstofustól og grét.

Donna ræðir við Scott í símanum og Louise stendur hjá.

„Donna ég hef ekki gert neitt rangt. Ég hef aldrei stolið neinu. Ég gæti ekki gert það! Ég hef það ekki í mér,“ sagði hún við Donna og grátbað um að fá að fara heim.

Hana langaði að leggja á flótta en var hrædd um að missa vinnuna sem hún og fjölskylda hennar voru háð fjárhagslega. Hún fékk aðeins að hylja nekt sína með skítugri svuntu. „Þeir sögðu að það hefði verið lítil stelpa, sem líktist þér, sem var í McDonald‘s fötum, svo það hlýtur að vera þú,“ sagði Donna við hana.

Síðan gaf Scott Donna ný fyrirmæli: „Settu föt Louise, síma og bíllykla í ruslapoka. Settu pokann í bílinn þinn.“

Á meðan Donna fór með pokann út í bíl brotnaði Louise algjörlega saman.

Allt var þetta tekið upp á eftirlitsmyndavél veitingastaðarins. Þessi upptaka varð síðar mikilvægasta sönnunargagn Louise gegn McDonalds.

„Ég gerði svolítið hryllilegt“

Donna hafði mikið að gera og því bað Scott hana um að finna karlkyns starfsmann sem gæti gætt Louise þar til lögreglan kæmi.  Fyrst bað hún Kim Dockery, aðstoðarvaktstjóra, um að sitja yfir Louise en þegar hann leit inn í herbergið sagðist hann ekki vilja það. „Hún grét. Lítil ung stúlka sem stóð þarna nakin, það var ekki hugguleg sjón,“ sagði hann síðar fyrir rétti.

Donna þurfti því að finna einhvern annan til að sitja yfir henni því Scott lagði mikla áherslu á að hún gerði það. Hún bað því kokk um sitja yfir henni en það vildi hann ekki. „Einmitt þegar ég taldi að þessu væri að ljúka, versnaði það bara,“ sagði Louise síðar í 20/20 þætti ABC.

Að lokum fékk hún unnusta sinn, Walter Nix 42 ára meindýraeyði, til að koma til að sitja yfir Louise. Það sem hann gerði síðan kostaði hann fimm ára fangelsi.

Scott gaf Walter mörg undarleg fyrirmæli í gegnum símann. Hann sagði honum að láta Louise hoppa og dansa nakta til að sanna að hún væri ekki með fíkniefni falin í líkamsopum. Walter hlýddi þessu. „Ég óttaðist um líf mitt,“ sagði Louise síðar.

Louise fékk aðeins svuntu til að hylja nekt sína.

Donna kom öðru hvoru inn til að sækja eitthvað vegna vinnunnar en sá fátt af því sem fram fór. Í hvert sinn sem hún kom inn kastaði Walter svuntu til Louise og sagði henni að hylja sig. Henni hafði nú verið haldið í tvær klukkustundir.

„Láttu Louise sitja í fangi þínu og kyssa þig. Ef hún hefur notað fíkniefni eða drukkið áfengi finnur þú bragðið eða lyktina,“ sagði Scott við Walter. Louise fannst þetta viðbjóðslegt en gerði það sem henni var sagt að gera. Þegar henni var réttur síminn spurði hún Scott af hverju hún þyrfti að gera þetta allt. „Þú spyrð allt of margra spurninga,“ sagði Scott og sagði Walter að refsa henni. Hún var látin vera á fjórum fótum í tíu mínútur og á meðan sló Walter hana hvað eftir annað með flötum lófa. Höggin skildu eftir sig stór rauð merki á líkama hennar.

Næst krafðist Scott þess að hún veitti Walter munnmök og var hún neydd til að losa beltið á buxunum hans. „Ég hef ekki gert neitt rangt. Þetta er klikkun,“ snökti hún en Scott var orðinn enn kröfuharðari og það var Walter líka. „Ég lem þig ef þú gerir þetta ekki,“ sagði Walter og Louise neyddist til að láta undan.

Walter þurfti að fara að mæta í vinnu og var að renna út á tíma. Þegar Donna kom næst inn í herbergið krafðist Scott þess að hún fyndi annan mann til að gæta Louise. Hún fékk 51 árs gamlan vaktstjóra til að koma inn í herbergið. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hafði gengið á.

Á leiðinni í vinnuna hringdi Walter í vin sinn og sagði: „Ég gerði svolítið hryllilegt.“ Þá var runnið upp fyrir honum hvað hann hafði gert, hann skildi ekki af hverju hann hafði farið eftir fyrirmælum Scott.

Vaktstjórinn neitaði

Þegar vaktstjórinn tók upp símann sagði Scott honum að taka svuntuna af Louise og lýsa á líkama hennar. Vaktstjórinn neitaði því og kallaði á Donna og sagði henni hvað Scott hafði sagt og bað hana um að hringja í yfirmann sinn. Scott hafði allan tímann haldið því fram að hann væri í beinu sambandi við yfirmanninn, Lisa Siddons, og að hún hefði gefið samþykki fyrir að Louise yrði látin afklæðast.

Siddons svaraði í símann og sagðist vera heima og hafi verið sofandi og ekki hafa talað við lögregluna. Þá áttaði Donna sig á að hún hafði verið blekkt. Skömmu síðar fylltist herbergið af yfirmönnum hjá McDonalds sem urðu að bregðast við málinu. „Louise, klæddu þig endilega,“ sagði Donna móðursjúk.

„Ég tapaði mér alveg. Ég grátbað Louise um fyrirgefningu,“ sagði Donna síðar um dramatíkina í herberginu.

Lagði á

Scott áttaði sig á að það hafði komist upp um hann og lagði á en snarráður starfsmaður McDonalds sló inn *69 á símann en í Bandaríkjunum er hægt að hringja í það númer sem síðast hringdi með þessari aðferð. Þannig fékk hann símanúmer Scott upp á skjáinn og lét lögregluna vita af því.

Louise var beðin um að fara heim. „Þarf ég að vinna á morgun,“ spurði hún. Hún fékk þau svör að hún skyldi taka sér þann tíma sem hún teldi sig þurfa. Hún hefur ekki komið inn á veitingastað McDonalds síðan.

Lögreglan skoðaði upptökuna úr eftirlitsmyndavélinni og í kjölfarið var Walter handtekinn. Þegar Donna sá upptökurnar sparkaði hún Walter umsvifalaust. Hún var í áfalli og sagði lögreglunni að hún hefði talið Scott vera lögreglumann.

Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að á síðasta áratug höfðu álíka símtöl borist til tuga skyndibitastaða í ríkinu. Óþekktur maður hafði hringt og gefið sig út fyrir að vera lögreglumann og reynt að fá yfirmenn á um 30 veitingastöðum til að láta starfsfólk afklæðast og beita það kynferðislegu ofbeldi.

Louise var að vonum í miklu uppnámi.

 

 

 

 

 

 

Starfsmaður í höfuðstöðvum McDonalds hafði hringt í alla staði keðjunnar og talað inn skilaboð á símsvara þar sem hann varaði við þessu. í yfirheyrslu sagði Donna að hún hefði aldrei fengið þessi skilaboð. Hún var rekin úr starfi strax eftir að málið kom upp og ákvað í kjölfarið að fara í mál við McDonalds.

Scott

Vegna snarræðis starfsmannsins sem hringdi í *69 komst lögreglan á slóð Scott en hann reyndist vera David Stewart, 38 ára fimm barna faðir, sem bjó í Fountain í Flórída.

Hann þvertók fyrir að hafa hringt í skyndibitastaðinn og sagðist ekki einu sinni eiga símakort. Við leit heima hjá honum fannst símakort og í ljós kom að það hafði verið notað til að hringja í skyndibitastað í Idaho Falls en ekki tókst að sanna að það hefði verið notað til að hringja í símann á veitingastaðnum sem Louise starfaði á.

David var ákærður fyrir að hafa gefið fyrirmæli um kynferðisofbeldi og annað ofbeldi en fátt var til staðar sem sannaði það. Hann var sýknaður af ákærunni árið 2006 þar sem saksóknara tókst ekki að sýna fram á sekt hans. En hins vegar hættu símtöl af þessu tagi um leið og Stewart var handtekinn. Fæstum dylst að það var hann sem var að verki en saksóknara tókst ekki að sanna það.

Walter

Walter var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.

Hann sótti um reynslulausn eftir að hafa setið í fangelsi í fimm mánuði en dómari féllst ekki á það og sagði það ofar sínum skilningi hvernig fullorðnum manni hefði dottið í hug að taka þátt í því sem hann gerði.

Donna

Donna var dæmd í eins árs fangelsi fyrir sinn þátt í málinu. Hún stefndi McDonald‘s og krafðist bóta og sagðist aldrei hafa fengið að vita af viðvöruninni sem var send út frá höfuðstöðvunum. Henni voru dæmdir 500.000 dollarar í bætur.

Louise

Louise stefndi McDonald‘s og krafðist 200 milljóna dollara í bætur á þeim grunni að fyrirtækið hefði ekki gert nægilega mikið til að vernda hana.

McDonald‘s hélt því fram að Louise hefði átt að átta sig á að það væri ekki alvöru lögreglumaður í símanum og að sökin lægi hjá þeim sem hringdi og Walter Nix.

Fyrir dómi sagði Lisa Siddons, yfirmaður Donna, að hún hefði gleymt að láta starfsfólki vita af aðvöruninni frá höfuðstöðvunum. Hún sagðist hafa talið að þetta væri ekki mikilvægt.

Réttarhöldin stóðu yfir í fjórar vikur. Það tók kviðdóm 13 klukkustundir að komast að niðurstöðu en hann dæmdi McDonald‘s til að greiða Louise 4 milljónir dollara í bætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Tíu konur og stúlkur eru myrtar daglega í Mexíkó

Tíu konur og stúlkur eru myrtar daglega í Mexíkó
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fólk getur verið „feitt en í góðu formi“ – Á frekar að einblína á hreyfingu en megrunarkúra

Fólk getur verið „feitt en í góðu formi“ – Á frekar að einblína á hreyfingu en megrunarkúra
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ítalir hefja baráttu gegn fölskum ítölskum matvörum

Ítalir hefja baráttu gegn fölskum ítölskum matvörum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Danir, Norðmenn og Svíar efla varnarsamstarf sitt

Danir, Norðmenn og Svíar efla varnarsamstarf sitt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lést innan við mánuði eftir brúðkaupið – Heimilislæknirinn sagði að hún væri of ung til að fá brjóstakrabbamein

Lést innan við mánuði eftir brúðkaupið – Heimilislæknirinn sagði að hún væri of ung til að fá brjóstakrabbamein
Pressan
Fyrir 5 dögum

Reynt að ráða aðalráðgjafa Úkraínuforseta af dögum – Grunur beinist að Rússum

Reynt að ráða aðalráðgjafa Úkraínuforseta af dögum – Grunur beinist að Rússum