Þetta kemur fram í ákæru á hendur foreldrunum en málið verður tekið fyrir hjá rétti í Næstved í vikunni. Þau eru einnig ákærð fyrir að hafa tekið allan sparnað piltsins, 35.000 danskar krónur, út úr banka og nýtt þá í eigin þágu. Foreldrarnir neita sök.
Upp komst um ofbeldið eftir að faðirinn hafði slegið piltinn með krepptum hnefa í andlitið og síðan skallað hann. Pilturinn fékk blóðnasir og bólgnaði í andliti. Því næst var honum ógnað með 20 cm löngum hníf og síðan hent ofan í skottið á fjölskyldubílnum. Því næst óku foreldrarnir með hann á veitingastað McDonald‘s í Slagelse og síðan heim aftur.
En það var þessi ferð á McDonald‘s sem kom upp um ofbeldið því pilturinn reyndi að flýja. Kona ein sá hann á hlaupum og eldri mann á eftir honum, hann greip síðan í piltinn. Hún skráði bílnúmerið hjá sér og hringdi í lögregluna.
Þegar lögreglumenn komu heim til fjölskyldunnar sat pilturinn í stofunni og það blæddi úr nefi hans. Hann sagði lögreglumönnunum síðan frá því sem hann hafði þurft að þola síðasta eina og hálfa árið.
Ekstra Bladet segir að samkvæmt ákærunni hafi hann sætt niðurlægjandi og illri meðferð. Honum var meinað að hitta móður sína eða tala við hana.
Faðir hans og stjúpmóðir lokuðu á að hann gæti hringt í móður sína og fóru daglega yfir síma hans og skipuðu honum að koma beint heim úr skóla.