fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Gera óbólusettu fólki erfitt fyrir – Fleiri sýnatökur og enginn aðgangur að veitingastöðum

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 11. nóvember 2021 06:59

mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sífellt fleiri Evrópuríki taka nú upp reglur sem gera lífið erfiðara fyrir þá sem hafa ekki látið bólusetja sig gegn kórónuveirunni sem nú herjar á heimsbyggðina. Það getur því reynst erfitt fyrir óbólusett fólk að sækja vinnu, fara á veitingastaði eða bara fara í bankann.

Í Grikklandi þurfa bankar, veitingahús, kaffihús, hárgreiðslustofur og opinberar skrifstofur nú að krefja viðskiptavini um kórónupassa eða staðfestingu á viðkomandi hafi smitast og náð sér af veirunni. Að öðrum kosti má ekki hleypa fólki inn. Óbólusett fólk verður nú að fara í sýnatöku tvisvar í viku, í stað einu sinni í viku áður, til að mega mæta til vinnu. Óbólusett fólk fær aðeins óhindraðan aðgang að stórmörkuðum, apótekum og kirkjum.

Þessar nýju og hertu reglur sköpuðu langar raðir við verslanir og fyrirtæki í Aþenu um helgina en yfirvöld eru heldur ekki að reyna að gera þeim óbólusettu lífið auðveldara og ganga hart fram í að reglunum sé fylgt. Embættismenn fóru á 90.000 staði um helgina til að fylgjast með framkvæmdinni. Margir fengu sekt en sektin hefur verið hækkuð frá því sem áður var og nú er lágmarkssektin fyrir brot á reglunum 1.000 evrur. Áður hafði starfsfólki í heilbrigðisgeiranum og umönnunarstörfum verið gert skylt að láta bólusetja sig.

Í Austurríki er ekki lengur hægt að fara á veitingastaði nema hafa lokið bólusetningu eða jafnað sig af smiti. Það sama á við um aðgang að börum og afþreyingarstöðum. Neikvæð niðurstaða úr sýnatöku veitir ekki aðgang sem þýðir einfaldlega að óbólusettir fá ekki aðgang. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að fólk teljist hafa lokið bólusetningu í 9 mánuði eftir að það fær skammt númer tvö, áður voru þetta 12 mánuðir. Það þarf því að fara og fá þriðja skammtinn eftir þessa 9 mánuði til að teljast hafa lokið bólusetningu.

Í Ísrael hefur svipuð leið verið farin en þar telst fólk fullbólusett í sex mánuði eftir skammt númer tvö.

Í Lettlandi hafa lög verið samþykkt sem heimila atvinnurekendum að senda óbólusetta starfsmenn heim án launa. Ef þeir vilja ekki láta bólusetja sig innan þriggja mánaða má segja þeim upp. Þessi regla tekur gildi á mánudaginn.

Í Englandi hefur ríkisstjórn Boris Johnson hert tökin og í dag er síðasti dagurinn fyrir starfsfólk á dvalarheimilum aldraðra til að láta bólusetja sig. Ef ekki þá missir það einfaldlega vinnuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt