fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Danmörk – Dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir morð á útvarpsmanni

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 7. október 2021 18:00

Bókin um Nedim Yasar. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur Danmerkur dæmdi í gær Alexander Findanis, 27 ára, í ævilangt fangelsi fyrir morðið á útvarpsmanninum Nedim Yasar fyrir tæpum þremur árum. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm undirréttar og Landsréttar.

Findanis fékk leyfi til að áfrýja málinu til hæstaréttar sem tók aðeins afstöðu til refsingarinnar, ekki til niðurstöðunnar um sekt Findanis. Þetta hafði vakið vonir hjá Findanis og verjanda hans um að refsingin yrði milduð en það varð ekki raunin.

Verjandi hans færði þau rök fram að ævilangt fangelsi væri sjaldan refsingin fyrir eitt morð og að sérstakt ákvæði í hegningarlögunum um skotárásir á almannafæri hafi aldrei komið til kasta hæstaréttar. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að hækka refsingu um helming ef skotárás er gerð á almannafæri. Fimm dómarar hæstaréttar segja í dómsniðurstöðu að þetta ákvæði þýði að ekki sé hægt annað en að dæma Findanis í ævilangt fangelsi. Ástæðan er að venjulega er fólk dæmt í 12 ára fangelsi fyrir morð. Hæstiréttur taldi að miðað við málsatvik skyldi refsingin fyrir morðið og vörslu skotvopns vera 15 ára fangelsi hið minnsta. Þar sem skotvopn hafi verið notað á opinberum stað við morðið varð því að dæma Findanis til helmingi þyngri refsingar en þar sem refsingin var þá orðin þyngri en nemur ákvæðum um tímalengd refsinga sé ekki hægt að dæma hann í neitt annað en ævilangt fangelsi.

Yasar var skotinn til bana um klukkan 19.30 þann 19. nóvember 2018. Hann var þá nýsestur inn í bíl sinn eftir að hafa sótt útgáfuteiti bókarinnar „Rødder – en gangsters udvej“ sem fjallar um tíma hans í skipulögðum glæpasamtökum og viðskilnað hans við heim skipulagðra glæpasamtaka í Danmörku.

Skömmu eftir að hann settist inn í bílinn gekk Findanis upp að honum og skaut tveimur skotum sem hæfðu Yasar í höfuðið. Hann lést daginn eftir af völdum áverka sinna.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að um vel skipulagða aftöku hefði verið að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt