Nýlega gekk Lisa Deacon, móðir í Bretlandi, inn í svefnherbergi 7 ára dóttur sinnar, Emily. Lisa bjóst við að sjá dóttur sína sofandi en þess í stað sá hún hana með augun límd á iPad spjaldtölvunni sinni. DailyMail fjallar um málið.

Emily hafði tekið spjaldtölvuna inn til sín án leyfis og tók Lisa tölvuna því af henni og fór með hana inn í sitt svefnherbergi. Þar sá hún hvað hafði verið í gangi á skjánum og hætti fljótt að vera pirruð en þess í stað varð hún skelkuð. Á skjánum voru tvær naktar teiknimyndakarakterar, báðir með kynfæri sem sáust vel. Karakterarnir á skjánum sveifluðust fram og til baka á hvorn annan og var það ljóst fyrir Lisu að þarna væri verið að leika einhvers konar kynlíf.

„Mér líður hræðilega eftir að hafa komist að því að dóttir mín sá þetta,“ sagði Lisa, sem er 33 ára gömul. „Ég hef gert allt til þess að vernda hana frá svona hlutum á netinu en samt komst hún í þetta.“

Tölvuleikurinn sem um ræðir er afar vinsæll hjá ungu kynslóðinni en hann heitir Roblox. Í Bretlandi eru um ein og hálf milljón barna sem spila leikinn sem er þó að mörgu leyti ágætur þegar kemur að uppeldi. Til að mynda er hægt að spila leik í Roblox þar sem börn geta séð um dýr eins og einhyrninga. Þá geta þau líka farið í skóla í leiknum.

Ekki eru þó allir sammála um ágæti leiksins, sérstaklega eftir það sem Lisa sá. James Bore, sérfræðingur í netöryggi, telur til að mynda að barnaníðingar noti leikinn til að ná til ungra barna.

„Svona efni getur haft skaðleg áhrif á börn,“ segir Bore. „Ef einhver er bannaður fyrir ósæmilega hegðun í leiknum þá getur sá hinn sami bara búið til nýjan aðgang. Það er ekki búið að vinna nógu hart að því að leysa þetta vandamál með Roblox.“