fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Pressan

Fljúgandi furðuhlutir yfir Washington

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 5. apríl 2020 12:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1952 er árið sem fljúgandi furðuhlutir komust af alvöru í hámæli í Bandaríkjunum og vöktu athygli allrar þjóðarinnar. Áður höfðu komið upp mál þar sem fljúgandi furðuhlutir voru taldir koma við sögu, frægasta málið er líklega frá Roswell í Nýju-Mexíkó en þar hrapaði veðurloftbelgur bandaríska flughersins til jarðar 1947. Margir telja að herinn hafi ekki sagt satt til um þetta og að hér hafi verið um fljúgandi furðuhlut (UFO) að ræða. Fleiri atburðir áttu sér stað árið 1947 sem tengdust meintum heimsóknum fljúgandi furðuhluta og vitsmunavera frá öðrum plánetum. Tíu dögum eftir hið meinta hrap í Roswell skýrði flugmaðurinn Kenneth Arnold frá því að hann hefði séð níu „hluti, sem líktust skálum . . . fljúga í hóp eins og gæsir“ á rúmlega 1.600 kílómetra hraða á klukkustund nærri Mount Rainier í Washington-ríki. Nokkrum vikum síðar höfðu tilkynningar um „fljúgandi furðuhluti“ borist frá 40 öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Í nafni þjóðaröryggis setti flugherinn á laggirnar sérstakt verkefni árið 1948, Project SIGN (sem hét upphaflega Project SAUCER), til að safna upplýsingum um þessa meintu fljúgandi furðuhluti. Rannsakendurnir komust að þeirri niðurstöðu að flestar tilkynninganna sem höfðu borist ættu ekki við rök að styðjast og væri annaðhvort um gabb að ræða eða að fólk hefði einfaldlega ekki borið kennsl á þekktar flugvélategundir eða náttúrufyrirbæri. En í nokkrum málum gátu þeir ekki komið með skýringar og voru þau flokkuð sem „óútskýrð“. En þessar sögur verða ekki raktar frekar hér því sjónunum verður beint að þeim atburðum sem áttu sér stað 1952.

Merkilegt fyrirbæri Fljúgandi hlutir við Hvíta húsið.

Washington D.C. 1952

Sumarið 1952 var tilkynnt um fjölda undarlegra hluta á flugi yfir Washington D.C. Þetta vakti mikla athygli og fjölmiðlar og almenningur krafðist svara. Voru þessi óútskýrðu fyrirbæri, sem birtust á ratsjám, eitthvað sem gat flogið hraðar en þotur þess tíma, hugsanlega innrásarfloti Sovétríkjanna vopnaður kjarnorkuvopnum eða var um eitthvað allt annað og miklu hættulegra að ræða?

Atburðirnir í Washington D.C. í júlí 1952, sem eru þekktir undir nafninu „the Big Flap“, eiga sérstakan sess í sögu óþekktra fljúgandi furðuhluta sem á ensku nefnast UFO. Stórir bandarískir fjölmiðlar fjölluðu um málið og skýrðu frá vitnisburði fjölda hermanna og óbreyttra borgara, sem störfuðu við ratsjár, og flugmanna. Þessar frásagnir þóttu mjög trúverðugar og því sendi flugherinn sérfræðingahóp til Washington D.C. til að rannsaka málið. Það sem þeir komust að eða komust ekki að, ásamt opinberum skýringum flughersins á atburðunum, kynnti undir einum fyrstu samsæriskenningunum um tilraunir yfirvalda til að hylma yfir sannanir fyrir lífi á öðrum plánetum.

Sérfræðingahópur flughersins nefndist Project Blue Book og stýrði Edward Ruppelt höfuðsmaður honum. Hópurinn var með bækistöð í Wright-Patterson herstöðinni í Dayton í Ohio. Hópurinn hefði væntanlega rannsakað atburðina í Washington D.C. ef ekki hefði komið til umfjöllun í aprílhefti LIFE Magazine. Þá birtist grein, sem var unnin í samvinnu við Ruppelt, þar sem fjallað var um áhuga flughersins á fljúgandi furðuhlutum. Greinin þótti mjög góð og sannfærandi enda var hún skreytt með litríkum frásögnum af tíu óútskýrðum „atvikum“ þar sem fljúgandi furðuhlutir komu við sögu. Allir voru þessi fljúgandi furðuhlutir taldir vera frá öðrum plánetum. Í umfjölluninni var haft eftir eldflaugasérfræðingi, sem vann að leynilegu verkefni fyrir bandarísk stjórnvöld, að hann „væri algjörlega sannfærður um að þeir væru ekki frá jörðinni“ og átti hann þar við þá fljúgandi furðuhluti sem höfðu sést til þessa. Þessi umfjöllun LIFE Magazine virðist hafa orðið til þess að Ruppelt og teymi hans var ekki treyst til að rannsaka atburðina í Washington D.C.

Bera saman bækur sínar Flugherinn spjallar um furðuhlutina.

Frá mars 1952 þar til í júní sama ár sexfaldaðist fjöldi tilkynninga um fljúgandi furðuhluti sem bárust flughernum. Í júlí voru aðstæður nær fullkomnar fyrir algjört brjálæði í kringum fljúgandi furðuhluti, kalda stríðið var í hámarki og margir mjög áhyggjufullir yfir ástandinu, mikil umfjöllun fjölmiðla um fljúgandi furðuhluti og töluverður skammtur af „miðsumars brjálæði“ var til staðar. Það þurfti aðeins neista til að sprengja þessa púðurtunnu.

Undarlegir hlutir yfir Hvíta húsinu

Skömmu fyrir miðnætti þann 19. júlí tók Edward Nugent, flugumferðarstjóri á alþjóðaflugvellinum í Washington, eftir sjö hægfara hlutum á ratsjá sinni. Þessir hlutir voru víðs fjarri þekktum flugleiðum almennra flugvéla og herflugvéla. Hann kallaði yfirmann sinn til sín og grínaðist með að hér væri „floti fljúgandi furðuhluta“. Á sama tíma sáu tveir aðrir flugumferðarstjórar undarlegt, bjart ljós sem hélt kyrru fyrir í loftinu en skyndilega skaust það á brott á ótrúlegum hraða. Flugumferðarstjórar í Andrews Air Force herstöðinni sáu þetta einnig á ratsjám sínum, hægfara í fyrstu en síðan juku hlutirnir hraðann upp í rúmlega 11.000 kílómetra á klukkustund. Einn flugumferðarstjóranna leit út um gluggann á flugturninum og sá það sem hann lýsti sem „appelsínugulum brennandi bolta með hala“. Flugmaður farþegaflugvélar, sem var á flugi yfir Virginíu og Washington D.C., tilkynnti um sex skær ljós sem hann líkti við „stjörnuhröp án hala“.

Þegar flugumferðarstjórarnir sáu hlutina þjóta yfir Hvíta húsið og þinghúsið hættu þeir að grínast með fljúgandi furðuhluti og tvær F-94 orrustuþotur voru sendar á loft til að kanna málið. Í hvert sinn sem vélarnar nálguðust staðina þar sem ratsjár sýndu að þessir dularfullu hlutir væru hurfu þeir. Við dögun þann 20. júlí voru hlutirnir horfnir.

Tilkynning frá flugvellinum Hér sést alþjóðaflugvöllurinn í Washington.

Enginn sagði sérfræðingunum frá

Enginn tilkynnti Ruppelt og Project Blue Book teymi hans um þetta. Hann komst að þessu nokkrum dögum síðar þegar hann flaug til Washington D.C. og sá umfjöllum í dagblöðum um þetta. Hann reyndi þegar í stað að fá að ræða við flugumferðarstjóra í borginni og í Andrews herstöðinni en var ekki heimilað að gera það. Hann sneri því ósáttur aftur til Ohio.

Næsta laugardag birtust þessir dularfullu hlutir aftur yfir höfuðborginni. Nú hringdi blaðamaður í Ruppelt sem sendi strax tvo rannsakendur á alþjóðaflugvöllinn í Washington. Þeir sáu að sömu merkin voru nú aftur sýnileg á ratsjám. Flugumferðarstjórar veltu fyrir sér hvort hlutirnir á ratsjám þeirra gætu verið afleiðing hitalaga í loftinu, en slíkt er algengt í borginni á sumrin. Þegar heitt loft myndast neðarlega í andrúmsloftinu lokar það kaldara loft fyrir neðan og hitalög myndast. Þetta getur haft áhrif á ratsjár þannig að ratsjármerki endurkastast af þessu lagi lofts og sýna ranglega hluti sem eru á jörðinni, uppi í loftinu. En liðsmenn Ruppelt voru sannfærðir um að hér væri ekki um neitt slíkt að ræða, hér væri um fljúgandi hluti að ræða.

Til að gæta fyllsta öryggis voru tvær F-94 orrustuþotur sendar á loft til að elta þessa dularfullu hluti sem birtust á ratsjám á alþjóðaflugvellinum og í Andrews herstöðinni. Flugmennirnir flugu á milli staða þar sem ratsjár sýndu að eitthvað væri, til þess eins að grípa í tómt. Annar flugmaðurinn sá síðan loksins skært ljós í fjarska og gaf allt í botn til að elta það.
„Ég reyndi að komast nærri þessum hlutum undir 1.000 fetum. Ég sá nokkur skær ljós. Ég flaug á hámarkshraða en jafnvel þá dró ég ekki á þá. Ég hætti að elta þá því ég sá að ég átti ekki möguleika á að fljúga fram úr þeim.“

Blaðamatur Atburðurinn leitaði í alla, helstu fréttamiðla.

Umdeild kenning sett fram

Næsta dag fjölluðu fjölmiðlar um öll Bandaríkin um málið og dagblöðin voru með stríðsletur á forsíðum.

„Fljúgandi furðuhlutir sveima yfir höfuðborginni“ og „Orrustuþotur elta drauga yfir Washington D.C.“ voru meðal fyrirsagna dagsins. Umfjöllunin og áhugi og ótti almennings var svo mikill að Harry Truman forseti bað aðstoðarmenn sína um að afla svara við þessari ráðgátu. Þegar þeir hringdu í Ruppelt sagði hann þeim að hitalög gætu hafa valdið þessu, en frekari rannsókna væri þörf til að skýra það sem sést hefði á ratsjám og það sem sjónarvottar höfðu séð. En áður en hægt var að hrinda slíkri rannsókn í framkvæmd boðaði flugherinn til fréttamannafundar sem varð sá lengsti sem herinn hafði haldið síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Yfirmenn flughersins höfðu ákveðið, án þess að hafa samráð við Ruppelt og teymi hans, að bestu viðbrögðin við þessu væri að koma með útskýringu sem bæði fjölmiðlar og almenningur ættu auðvelt með að kyngja.

John Samford hershöfðingi sat fyrir svörum á fréttamannafundinum og vék sér undan að svara spurningum um hvað flugmenn og flugumferðarstjórar hefðu séð yfir höfuðborginni. Hann ræddi aftur og aftur um hitaskilin og að þau hefðu truflað ratsjár. Hann lét þess ekki getið að Ruppelt og teymi hans væru annarrar skoðunar.

Merkileg bók The Report on Unidentified Flying Objects.

Það voru Ruppelt mikil vonbrigði að fréttamannafundurinn fór nákvæmlega eins og ætlað var. Fjölmiðlar fluttu fregnir af hitaskilakenningunni og almenningur virtist gleypa hana. Í bók sinni „The Report on Unidentified Flying Objects“, sem var gefin út 1956, segir Ruppelt að eftir fréttamannafundinn hefði tilkynningum um fljúgandi furðuhluti fækkað úr 50 á dag í 10.

Efasemdamenn voru ekki sáttir við þá stefnu sem málið tók með skýringum hersins. Margir sökuðu flugherinn og Ruppelt og teymi hans um undarlega hegðun og leyndarhyggju. Það var ekki fyrr en skjöl og önnur gögn Project Blue Book voru gerð opinber 1985 sem áhugamenn um fljúgandi furðuhluti sáu að það sem þeir töldu vera samsæri stjórnvalda um að hylma yfir að fljúgandi furðuhlutir hefðu sést yfir Washington D.C. var ekkert annað en samsæri um fáfræði. Stjórnvöld voru ekki að reyna að hylma yfir einhvern hræðilegan sannleika um fljúgandi furðuhluti heldur voru þau frekar að reyna að hylma yfir að þau höfðu lítil sem engin svör um hvað hefði átt sér stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð
Pressan
Í gær

Taldi sig vera að hitta 7 og 11 ára stelpur á hóteli – Skotinn til bana af lögreglu

Taldi sig vera að hitta 7 og 11 ára stelpur á hóteli – Skotinn til bana af lögreglu
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vaxandi áhyggjur af ofureldfjalli – Er það að vakna til lífsins?

Vaxandi áhyggjur af ofureldfjalli – Er það að vakna til lífsins?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump