fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Pressan

Yfirvöld reyndu að hylma yfir COVID-19 smit á skíðastaðnum í Ischgl – „Ekki skýra fjölmiðlum frá þessu“

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 30. mars 2020 07:01

Frá Ischgl. Mynd:Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýjar afhjúpanir benda til að austurrísk yfirvöld hafi reynt að hylma yfir þau mörgu COVID-19 smit sem áttu sér stað á hinum vinsæla skíðastað Ischgl. Margir Íslendingar sneru einmitt smitaðir heim úr fríi þar.

Yfir háannatímann á veturna sækja mörg þúsund manns, alls staðar að úr heiminum, þennan vinsæla skíðastað heim. Þar er lítið pláss og fólk því mjög þétt saman mörgum stundum og því má kannski segja að veira á borð við COVID-19 geti hoppað óáreitt manna á milli í þéttskipuðum skíðalyftum, fjallakofum, veitingastöðu og skemmtistöðum. Ekki síst á börunum, sem margir sækja eftir góðan dag á skíðum, þar sem fólk stendur nánast eins og síld í tunnu og öskrar framan í hvert annað til að yfirgnæfa tónlistina.

Þannig var það einmitt á barnum Kitzloch sem hefur komist í heimsfréttirnar að undanförnu fyrir að vera líklega ein aðaluppspretta COVID-19 faraldursins á Norðurlöndunum og Þýskalandi og jafnvel víðar. Hér er hægt að lesa nýlega umfjöllun DV um málið.

En nú hefur enn meira komið í ljós um málið, það er að yfirvöld í Týról hafi reynt að fela sannleikann um smithættuna sem var í Ischgl. Samkvæmt fréttum þýskra og austurrískra fjölmiðla virðast embættismenn og hóteleigendur hafa gert allt það sem í þeirra valdi stóð til að framlengja ábatasamt skíðatímabilið sem var víðsfjarri því að vera lokið þegar veiran stakk sér niður meðal ferðamannanna.

Þann 5. mars vísuðu heilbrigðisyfirvöld í Týról því á bug að smitaðir Íslendingar, sem voru komnir heim frá Ischgl, gætu hafa smitast þar. 7. mars sendu yfirvöld samt sem áður lækna til bæjarins til að taka sýni og rannsaka hvort COVID-19 hefði stungið sér niður í bænum.

„Við máttum bara taka sýni úr fólki sem yfirvöld höfðu valið fyrirfram. Ég og starfsfélagar mínir höfðum þá þegar þá trú að veiran hefði dreift sér víða. Við vorum sammála um að það ætti að taka sýni úr fleirum en nokkrum ítölskum ferðamönnum og konunni sem þreif herbergi Íslendinganna.“

Sagði einn læknanna í samtali við Kronen Zeitung.

Tóku málin í eigin hendur

Samkvæmt frétt Kronen Zeitung tóku læknarnir málin í eigin hendur. Það var að sögn eitt af sýnunum, sem þeir ákváðu upp á eigin spýtur að taka, sem leiddi í ljós að barþjónninn á Kitzloch var hinn svokallaði „sjúklingur núll“ og því smitaður. Niðurstaðan lá fyrir daginn eftir. Á þeim tímapunkti hefði átt að loka bænum fyrir allri umferð ferðamanna, það voru læknarnir sammála um sagði fyrrgreindur læknir í samtali við Kronen Zeitung. Hann sagði að læknarnir hafi talið að alvarleiki málsins væri vanmetinn og of seint brugðist við.

Barinn Kitzloch. Mynd:Kitzloch

Þann 8. mars sendu heilbrigðisyfirvöld í Týról frá sér tilkynningu þar sem kom fram að „út frá læknisfræðilegum sjónarhóli sé mjög ólíklegt“ að gestir Kitzloch hafi smitast af veirunni. Það var ekki fyrr en 10. mars sem yfirvöld lokuðu barnum og það var síðan fyrst degi síðar sem öðrum börum í bænum var lokað. Tveir dagar til viðbótar liðu þar til skíðatímabilinu var aflýst og bæirnir Ischgl og St. Anton settir í einangrun.

„Ekki skýra fjölmiðlum frá þessu“

Þessi seinagangur á sér líklega rætur í að hótel-, bar og skíðasvæðaeigendurnir í Ischgl og ferðamannaiðnaðurinn í Týról almennt eru miklir áhrifavaldar í austurrískum stjórnmálum. Miklar tekjur verða til á skíðavertíðinni og mikill fjöldi starfa tengist skíðasvæðunum. Ferðamannaiðnaðurinn á svæðinu hefur því mikið að segja um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar.

Þetta sést vel í tveimur smáskilaboðum sem Franz Hörl, formaður samtaka atvinnurekenda í Týról, sendi Peter Zangerl, eiganda Kitzloch þann 9. mars.

„Kæri Peter, hringdu í mig eða lokaðu Kitz barnum þínum – annars munt þú eiga sök á að tímabilinu í Ischgl og jafnvel öllu Týról lýkur. Allt landið fylgist með barnum þínum. Ef það næst ljósmynd af því sem gerist þar munum við íbúarnir í Týról líta út eins og hottintottaríki og strax fara á lista Þjóðverja (yfir svæði þar sem hætta er á COVID-19 smiti, innsk. blaðamanns). Orðspor Ischgl og Týról mun verða fyrir óbætanlega miklu tjóni. Sýndu nú skynsemi. Eftir viku eða 10 daga verður þetta allt gleymt.“

En þetta gleymdist alls ekki. COVID-19 breiddist út eins og æxli frá Ischgl.

Þann 13. mars klukkan 14 fyrirskipaði Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, að Ischgl og St. Anton yrðu settir í einangrun. En klukkustund áður en hann tilkynnti þetta opinberlega var tölvupóstur sendur frá samtökum ferðaþjónustuaðila á svæðinu, TVB Paznaun-Ischgl, til hóteleigenda í bænum.

„Við viljum upplýsa ykkur um að yfirvöld í Týról tilkynntu okkur klukkan 12.30 að frá klukkan 14 verði settir upp vegartálmar.“

Þá var skyndilega mikið að gera hjá hóteleigendum í bænum. Þeir báðu gesti sína að taka saman föggur sínar og yfirgefa bæinn. Þeir tilkynntu einnig starfsmönnum, sem voru ráðnir til starfa yfir skíðavertíðina, að tímabilinu væri nú lokið og að þeir skyldu taka föggur sínar og halda strax á brott. Margir voru neyddir til að skrifa undir breytta ráðningarsamninga þar sem brottrekstur án fyrirvara var gerður löglegur. Ferðamenn og starfsfólk yfirgaf Ischgl án þess að sýni væru tekin til að greina hvort fólkið væri smitað af COVID-19.

COVID-19 veiran virðist hafa leikið lausum hala lengi í Ischgl. Mynd:U.S. Army

TVB Paznaun-Ischgl, hefur ekki viljað upplýsa hver lak upplýsingum um fyrirhugaða lokun til samtakanna.  En spurningar fjölmiðla varðandi atburðarásina í Ischgl fóru fljótlega illa í samtökin og þann 24. mars sendu þau fyrirtækjum og einstaklingum í bænum tölvupóst þar sem hvatt til þess að spurningum fjölmiðla verði ekki svarað.

„Vinsamlegast ekki fara í viðtöl, ekki veita neinar upplýsingar og ekki senda ljósmyndir og myndbandsupptökur.“

Þennan sama dag tilkynntu yfirvöld í Týról að þau ætli að setja óháða rannsóknarnefnd á laggirnar til að rannsaka viðbrögðin við ástandinu í Ischgl og öðrum skíðastöðum. Nokkrum klukkustundum síðar var tilkynnt að ekkert yrði af þessu. Nú verði kröftunum frekar eytt í að leysa þann vanda sem upp var kominn.

En málið er samt sem áður á hreyfingu þessa dagana. Ríkissaksóknarinn í Týról hefur hafið rannsókn á hugsanlegu smiti starfsmanns á ónafngreindum skíðabar í Ischgl. Samstarfsfólk mannsins hefur sagt þýskum fréttamönnum að viðkomandi hafi verið sendur heim með einkenni COVID-19 án þess að yfirvöldum væri tilkynnt um málið. Veiran gæti því hafa leikið lausum hala mun lengur í Ischgl en áður var talið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Pressan
Í gær

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf
Pressan
Fyrir 2 dögum

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump

Óhugnalegt atvik í New York: Kveikti í sér fyrir framan dómshúsið þar sem réttað var yfir Trump
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Tannlæknir deilir ofureinföldu „tannbjörgunarráði“ fyrir kaffidrykkjufólk

Tannlæknir deilir ofureinföldu „tannbjörgunarráði“ fyrir kaffidrykkjufólk