fbpx
Föstudagur 10.apríl 2020
Pressan

Flugstjóri til 50 ára segist vita nákvæmlega hvar MH370 er niður komin

Ritstjórn Pressunnar
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Byron Bailey, fyrrverandi flugstjóri með yfir 50 ára flugreynslu, segist vita nákvæmlega hvar flak flugvélar Malaysian Airlines, MH370, er að finna.

Um er að ræða eitt dularfyllsta hvarf flugsögunnar en vélin hvarf þann 8. mars árið 2014. Þann dag var hún á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína.

Byron heldur því fram að leitað hafi verið að vélinni á röngum stað. Leitin stóð yfir svo mánuðum skiptir og náði yfir ógnarstórt svæði, en þrátt fyrir það fannst flakið ekki.

Heimildarmynd varpar frekara ljósi á málið

Í nýrri heimildarmynd Sky News, MH370: The Untold Story, nefnir Byron það sem hann telur vera nákvæma staðsetningu vélarinnar: 39’10 S,88’18E. Það er nokkuð sunnar en það svæði sem leitin á sínum tíma beindist að.

Áströlsk yfirvöld stýrðu leitinni og var unnið út frá þeirri kenningu að vélin hafi flogið stjórnlaust uns hún varð eldsneytislaus. Flugstjórinn – og allir um borð – hafi verið látnir þegar vélin brotlenti loks í sjónum.

Byron telur hins vegar útilokað að flugstjórinn, Zaharie Shah, hafi verið látinn. Hann hafi reynt að fljúga vélinni eins langt suður og hann gat uns hún varð eldsneytislaus. Hvers vegna hann á að hafa gert þetta liggur ekki fyrir, ekki frekar en margt annað varðandi málið.

Fátt um svör í skýrslu um hvarfið

Í skýrslu rannsakenda sem gefin var út árið 2018 var fátt um svör. Þó var þeirri kenningu varpað fram að vélinni hafi að líkindum vísvitandi verið beint af réttri leið. Nokkur brot úr vélinni hafa fundist en þau hafa rekið á strendur í vestanverðu Indlandshafi. Þá er talið ljóst að slökkt var á sendum vélarinnar með þeim afleiðingum að engar upplýsingar bárust frá henni.

Byron segist telja að leitarhópar hafi verið um 30 kílómetrum frá þeirri staðsetningu sem hann nefnir. „Ef ég hef rangt fyrir mér þýðir það að vélin hefur verið numin á brott af geimverum eða þá að hún situr í einhverju flugskýli í Kasakstan. Ég er svo viss að ég er tilbúinn að veðja húsinu mínu á þetta. Við vitum hvar flakið er og höfum alltaf vitað það.“

Segir mistök hafa verið gerð

Í frétt ástralska vefmiðilsins News.co.au kemur fram að fyrrverandi sérfræðingar rannsóknarnefndar flugslysa í Ástralíu, ATSB, séu jafnvel á sama máli og Byron í dag. Upphaflega hafi sérfræðingar talið að þau brot úr vélinni sem þó fundust hafi gefið til kynna að vélin hafi lent í sjónum á miklum hraða.

„Ég held að þau sönnunargögn séu ekki jafn augljós og talið var,“ segir Martin Dolan, fyrrverandi yfirmaður ATSB, og bætir við að ýmislegt bendi til þess að einhver hafi verið við stjórn vélarinnar þegar hún lenti í sjónum. Þá útilokar hann ekki að Byron hafi rétt fyrir sér. „Ég er ekki ósammála því sem Byron hefur fram að færa,“ segir hann.

Byron segir að áströlsk flugmálayfirvöld verði að horfast í augu við að mistök voru gerð við leitina á sínum tíma. Óvíst er á þessari stundu hvort flugmálayfirvöld muni freista þess að leita á því svæði sem Byron nefnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 3 dögum

Undarlegar nafngiftir á tímum COVID-19 – Tvíburar fengu nöfnin Corona og Covid

Undarlegar nafngiftir á tímum COVID-19 – Tvíburar fengu nöfnin Corona og Covid
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hræðileg pöntun bandaríska varnarmálaráðuneytisins

Hræðileg pöntun bandaríska varnarmálaráðuneytisins
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telja að heilsu Boris Johnson hafi hrakað

Telja að heilsu Boris Johnson hafi hrakað
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rúmlega 1.100 dauðsföll af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum í gær – Staðan í nokkrum öðrum löndum

Rúmlega 1.100 dauðsföll af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum í gær – Staðan í nokkrum öðrum löndum