fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Pressan

Hægláta konan bjó með systur sinni og móður – Fáir vissu leyndarmál hennar

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 16. október 2020 05:49

Oleg og Valerie þegar þau hittust í Finnlandi. Andlit leyniþjónustumanna eru skyggð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúunum í West Clandon, sem er um 1.300 manna bær í Sussex á Englandi, fannst Valerie Pettit ekkert öðruvísi en hinir bæjarbúarnir og hún stakk alls ekki í augu og engan grunaði hvert leyndarmál hennar var.

Í bænum eru tvær kirkjur, pöbb og þröngir vegir umlyktir limgerði. Valerie fór til kirkju á hverjum sunnudegi, barðist fyrir varðveislu grænna svæða í bænum og eyddi miklum tíma í að líta eftir móður sinni og systur en hún bjó með þeim. Hún var komin á eftirlaun en hún hafði starfað í bresku utanríkisþjónustunni sem ritari, eða það héldu allir þar til fyrr á árinu þegar hún lést.

Þá afhjúpaði The Times leyndarmál þessarar gráhærðu og friðsömu konu sem hafði árum saman starfað fyrir leyniþjónustuna MI6 og gegnt einni æðstu stöðunni varðandi njósnir gagnvart Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins. Hún var einnig heilinn á bak við eina djörfustu áætlun MI6 á tímum kalda stríðsins, flótta Oleg Gordivesky frá Moskvu til Lundúna 1985. Hann var svo mikilvægur að mati Breta að þeir voru reiðubúnir til að gera næstum hvað sem var til að koma honum frá Moskvu ef líkur væru til að upp um hann kæmist í Moskvu en hann njósnaði fyrir Breta.

Því var aðgerð „Operation Pimlico, sett á laggirnar og var það Valerie sem bar ábyrgð á henni.

Starfaði í utanríkisþjónustunni

Valerie hafði starfað í utanríkisþjónustunni en var síðan flutt yfir til MI6 og starfaði á skrifstofum leyniþjónustunnar í Varsjá, Bagdad, Amman, Mexíkóborg og Prag áður en hún sneri til starfa í Lundúnum. Hún stóð sig svo vel að 1978 var hún gerð að næstæðsta yfirmanni þeirrar deildar sem sá um njósnir í Sovétríkjunum. Hún var einn reynslumesti starfsmaður leyniþjónustunnar þegar hér var komið.

Oleg var ráðinn til starfa hjá bresku leyniþjónustunni þegar hann var starfsmaður sovésku leyniþjónustunnar KGB í sovéska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann veitingastöðum, tónleikum, velmegun og frjálsræði. Allt þetta sannfærði hann um að kommúnisminn í heimalandinu væri mistök. Ekki var það til að styrkja trú hans á kommúnismann að hann var kallaður til starfa í Moskvu frá 1972 til 1974 eftir að hafa verið í Kaupmannahöfn síðan 1966. Síðan var hann sendur aftur til Kaupmannahafnar.

Frederick Forsyth, t.v., og Oleg Gordievsky, Mynd: PA Images via Getty Images

Bæði MI6 og danska leyniþjónustan, PET, höfðu komið auga á Oleg og töldu hann vera þreyttan á sovéska kerfinu. Það tókst að tala hann á að starfa fyrir bresku leyniþjónustuna á leynilegum fundi í nóvember 1974. Hann reyndist einn mikilvægasti njósnari Vesturlanda á dögum kalda stríðsins. Hann var kallaður heim til Moskvu 1978 og MI6 heyrði ekki frá honum í mörg ár. Talið var að afskrifa yrði hann.

Ótrúleg heppni

MI6 trúði varla eigin heppni þegar Oleg var sendur til starfa í sendiráðinu í Lundúnum 1982. Það var ekki nóg með að nú væri hægt að komast aftur í samband við hann heldur hafði hann hækkað í tign og hafði aðgang að enn meira magni upplýsinga, enn mikilvægari upplýsinga, en áður. Hann leyfði Bretum að afrita stóran hluta þeirra.

Talið er að upplýsingar frá Oleg hafi gert vestrænum leyniþjónustustofnunum kleift að bera kennsl á rúmlega 400 KGB-menn. Einnig fékk MI6 ómetanlega innsýn í starfsemi KGB.

Allt gekk vel þar til í maí 1985 þegar Oleg fékk skilaboð frá Moskvu. Hann átti að vera kominn til Moskvu innan 48 klukkustunda. Hafði komist upp um hann?

Síðar kom í ljós að það var Bandaríkjamaðurinn Aldrich Ames, sem starfaði fyrir CIA, sem hafði veitt KGB upplýsingar um Oleg.

Valerie og Oleg ásamt MI6 mönnum í Finnlandi. Skjáskot af minningargrein í The Times.

Nú var komið að Valerie. Það þurfti að virkja flóttaáætlun Oleg frá Moskvu. Samkvæmt því sem kemur fram í minningargrein The Times um hana þá gaf hún Oleg nokkrar „pillur sem áttu að halda honum frískum“ og úða sem átti að rugla sporhunda í ríminu. Þetta var hann látinn taka með sér til Moskvu.

Nokkur tími leið þar til hann var kallaður til yfirheyrslu hjá KGB sem gat ekki lagt nægar sannanir fram til að fella Oleg en hann vissi að það væri líklega bara spurning um tíma og hann hafði miklar áhyggjur. Refsingin við landráðum var dauði.

Tveimur mánuðum eftir heimkomuna var kominn tími til að setja „Operation Pimlico“ í gang. Þann 16. júlí 1985 ók starfsmaður MI6 heim úr vinnu í breska sendiráðinu í Moskvu. Eins og alltaf gaf hann horninu við íbúð sína auga. Stundin var runnin upp – Oleg stóð á horninu með gráa derhúfu og poka frá Safeway verslunarkeðjunni í höndinni. Þetta var merki til Breta um hann þyrfti að komast strax til Lundúna. Til að láta hann vita að hann hefði sést gekk MI6-maðurinn fram hjá honum með poka frá Harrods undir handleggnum og borðaði Mars-súkkulaði. Flóttaáætlunin var komin í gang.

Oleg Gordievsky var sæmdur heiðursorðu af Elísabetu II. Mynd: FIONA HANSON / POOL / AFP

Undir því yfirskini að eiginkona breska njósnarans þyrfti að fara til sérfræðings í bakmeiðslum í Helsinki í Finnlandi óku hann og eiginkonan af stað. Með þeim í för voru hjón sem störfuðu hjá MI6. Þau sögðust vilja eyða einni helgi í Helsinki.  Á leiðinni tóku þau Oleg með og var hann falinn í skottinu. Þar lá hann kyrr þar til hann heyrði lagið „Finlandia“ leikið í kasettutæki bílsins en það var merkið um að þau væru komin yfir finnsku landamærin.

Þar beið Valerie eftir þeim og ók hún sjálf með Oleg norður eftir Finnlandi, yfir til Noregs og þaðan flugu þau til Bretlands.

„Operation Pimlico“ gekk fullkomlega upp og Valerie hafði fullkomnað meistaraverk sitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Skelfilegt ástand á Indlandi – Starfsfólk í líkbrennslum og grafreitum trúir ekki dánartölum yfirvalda

Skelfilegt ástand á Indlandi – Starfsfólk í líkbrennslum og grafreitum trúir ekki dánartölum yfirvalda
Pressan
Fyrir 2 dögum

Samband Bill og Melinda Gates – „Hún átti aðra kærasta“

Samband Bill og Melinda Gates – „Hún átti aðra kærasta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ný rannsókn – Amazonskógurinn losar meira koltvíildi en hann tekur í sig

Ný rannsókn – Amazonskógurinn losar meira koltvíildi en hann tekur í sig
Pressan
Fyrir 3 dögum

Proud Boys leggja upp laupana í Kanada

Proud Boys leggja upp laupana í Kanada
Pressan
Fyrir 3 dögum

Dýrkeypt aðstoð við Bandaríkjamenn – Hefur setið í einangrun í tíu ár

Dýrkeypt aðstoð við Bandaríkjamenn – Hefur setið í einangrun í tíu ár
Pressan
Fyrir 4 dögum

Borgaryfirvöld í Amsterdam vilja breyta ímynd borgarinnar – Ætla að reisa risastórt vændishús

Borgaryfirvöld í Amsterdam vilja breyta ímynd borgarinnar – Ætla að reisa risastórt vændishús