fbpx
Laugardagur 19.september 2020
Pressan

Stjarnfræðilega framsæknar hugmyndir

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 19. janúar 2020 21:00

Sólin mun þenjast út og gleypa sumar pláneturnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar stjörnur springa einhvers staðar í alheiminum hefur það venjulega engin merkjanleg áhrif á okkur hér á jörðinni. Yfirleitt uppgötvar fólk, það er að segja þeir sem vinna ekki við rannsóknir á alheiminum, ekki að slíkir ógnaratburðir eigi sér stað. Við höldum bara okkar striki, förum í vinnu, verslum og vitum ekkert af þeirri hættulegu geislun sem slíkar sprengingar valda en hún gæti eytt öllu lífi hér á jörðinni. En auðvitað getur svo farið dag einn að stjarna, sem er ekki ófjarri sólkerfinu okkar, springi og sendi góðan skammt af banvænni geislun í átt að jörðinni. Það myndi hafa ógnvænlegar afleiðingar fyrir allt líf hér á plánetunni okkar. Geislunin myndi eyðileggja ósonlagið, sem verndar okkur fyrir geislum utan úr geimnum, og síðan myndi hún gera út af við allt líf.

Það eru því góð ráð dýr varðandi slíkar náttúruhamfarir en bandaríski stjörnufræðingurinn Matthew Caplan telur sig hafa fundið lausn á þessu. í geimferðatímaritinu Acta Astronautica var nýlega birt grein eftir hann þar sem hann kynnti hugmyndir sínar að tveimur risastórum vélum sem geta flutt sólina okkar og allt sólkerfið með í öruggt skjól frá slíkum ógnaratburðum. Til þess að gera þessa miklu flutninga mögulega þarf að nota orku sólarinnar.

Sérfræðingar telja sumir hverjir að í raun séu þessar hugmyndir hans góðar og gildar, fræðilega séð. Það sé hægt að færa sólina og sólkerfið úr stað en það fylgir þessu þó einnig stórt ef. Það er að þetta er ekki framkvæmanlegt í dag og ekki í náinni framtíð og raunar hugsanlega aldrei. Það þarf mun þróaðra menningarsamfélag en okkar til að geta ráðist í svona stóra framkvæmd.

Áhugaverðar hugmyndir

Við erum víðs fjarri því að búa yfir nauðsynlegri tækni til að geta gert þetta í dag og ekki er fyrirsjáanlegt að við munum ráða yfir slíkri tækni. Samt sem áður þykir sumum þetta ansi áhugavert hjá Caplan og telja þetta geta kennt okkur eitt og annað. Við lærum til dæmis meira um áhrif risastórra mannvirkja, sem þessara, á ljósið sem berst frá stjörnunum í alheiminum. Ef menningarsamfélög eru til annars staðar í Vetrarbrautinni og hafa byggt eitthvað álíka þá geta hugmyndir Caplan hjálpað okkur að átta okkur á því þar sem við vitum meira um áhrif slíkra bygginga á ljósstyrkinn og litrófið sem við sjáum berast frá stjörnunum. Þetta gæti því hugsanlega rutt veginn að uppgötvun háþróaðs vitmunalífs utan jarðarinnar.

En hvað varðar að veita jörðinni vernd gegn svo gríðarlega öflugum sprengingum, sem sprengingar stjarna eru, telja flestir að finna þurfi aðrar og kannski öllu raunhæfari leiðir. Betra sé að byggja upp kerfi sem verndi jörðina gegn geislum frá slíkum ofursprengingum. Hættulegasti hluti slíkra sprenginga vari ekki lengi, heldur aðeins í nokkra daga og í versta falli í nokkra mánuði og þá sé hættan yfirstaðin. Það sé því kannski í ansi mikið í lagt að færa allt sólkerfið úr stað. Hugmyndin er þó auðvitað nothæf í fjarlægri framtíð ef mannkynið ákveður að leggja önnur sólkerfi undir sig. Þá væri auðvitað gott að geta bara flutt allt sólkerfið okkar með.

Víðs fjarri Nútímatækni leyfir ekki framkvæmd á hugmyndum Caplans.

Risastórt sólarsegl

Fyrsta hugmynd Caplan um hvernig sé hægt að flytja sólkerfið gengur út á að byggja risastórt sólarsegl sem hægt og rólega flytur sólina og restina af sólkerfinu í öruggt skjól. Seglið á að hylja aðra hlið sólarinnar svo hér er ekki um neitt smá verkefni að ræða. Það þarf einnig að nota örþunnt efni við að búa seglið til. Það á að vera á þykkt við rautt blóðkorn segir Caplan. Seglið mun síðan virka sem risastór spegill sem endurvarpar geislum sólarinnar þannig að þeir skína bara í eina átt. Það mun valda því að sólin mun hægt og rólega færast úr stað.

Þetta virkar á sama hátt og vindar hér á jörðinni því geislar sólarinnar munu mynda knúningsafl í geimnum. Sem dæmi um þetta má nefna að ef geimfari, sem svífur um í þyngdarleysi geimsins, kveikir á vasaljósi og lýsir fram fyrir sig mun ljósið ýta honum hægt og rólega aftur á bak. Sólarseglið virkar á sama hátt. Það skiptir því máli á hvorri hlið sólarinnar seglið verður svo það sendi ekki mikið magn hættulegra geisla til jarðarinnar eða skyggi algjörlega á sólarljósið því við verðum jú að fá það til að líf geti þrifist hér á jörðinni.

Þegar, og ef, búið verður að koma svona segli fyrir á annarri hlið sólarinnar hefst ferlið síðan en það tekur ansi langan tíma. það tekur sólina 230 milljónir ára að fara einn hring um miðju Vetrarbrautarinnar. Á þeim tíma var hámarksflutningurinn á sólinni og sólkerfinu um 300 ljósár. Það er auðvitað alltof hægt ef við fáum viðvörun um að stjarna sé að springa og að við höfum nokkrar milljónir ára til að bjarga okkur. En Caplan telur sig hafa svar við þessu, hugmynd sem eykur hraðann. Það er þó sá galli á þeirri hugmynd að hún er miklu flóknari í framkvæmd en fyrrnefnd sólarseglshugmynd og er hún eiginlega nægilega flókin ein og sér.

Þessi hugmynd gengur út á að smíða svokallaðan „Caplan Thruster“ (hann nefndi hann eftir sjálfum sér) en það er risastór mótor sem vinnur vetni og helíum úr sólinni. Vetninu er síðan skilað aftur í sólina en helíuminu er dælt inn í risastóran samrunaofn sem framleiðir rosalega heitt súrefni sem er síðan skotið aftur úr mótornum og myndar þannig knúningsafl.

En eðlilegt streymi vetnis og helíums frá sólinni, með sólvindum, skilar þó ekki nægilega miklu eldsneyti til að geta knúið mótorinn og því þarf að fá sólina til að senda mun meira af þessum efnum frá sér svo hægt sé að safna þeim saman og nota í samrunaofninn. Caplan leggur til að það verði gert með því að koma stórum speglum fyrir kringum sólina svo þeir endurkasti hluta af sólarljósinu aftur til baka á einn blett á yfirborði sólarinnar. Þar mun sólin hitna gríðarlega mikið og byrja að senda aukaskammta ef efnunum frá sér.

Með svona mótor væri hægt að flytja sólina rúmlega 30 ljósár á einni milljón ára og þannig væri hægt að ferðast til annarra stjarna í Vetrarbrautinni. Mótorinn gæti meira að segja flutt sólkerfið út úr Vetrarbrautinni og yfir í næstu stóru vetrarbraut, Andrómedu, á innan við einum milljarði ára.

Framkvæmanlegt

Það þarf af skiljanlegum ástæðum gríðarlega mikið efni til að byggja svona mótor. Svo mikið að við verðum að taka plánetuna Merkúr algjörlega í sundur og nota alla þá málma sem eru í henni til að geta smíðað slíkan mótor. Það er hægara sagt en gert að taka heila plánetu og hluta niður og af þeim sökum er mjög líklegt að við munum aldrei geta smíðað svona mótor þótt það sé fræðilega séð mögulegt.

Svo þarf auðvitað að taka með í reikninginn hvort við, sem tegund, munum ekki einfaldlega vera búin að gera út af við okkur sjálf af yfirborði jarðarinnar áður en við komumst nærri því að leggja út í svo stórar framkvæmdir eins og lýst er hér að ofan.

Einnig er rétt að hafa í huga að ef okkur tekst ekki að komast á brott frá plánetunni okkar á einhverjum tímapunkti þá munum við sem tegund líða undir lok því okkur mun væntanlega takast að eyðileggja hana en ef ekki þá mun sólin þenjast út og gleypa jörðina með húð og hári en það gerist þó ekki fyrr en eftir mjög langan tíma.

En kannski mun okkar takast, í fjarlægri framtíð, að taka sólina okkar og pláneturnar í sólkerfinu með okkur og leggja í ferðalag um óravíddir hins óendanlega alheims.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Pressan
Fyrir 3 dögum

Orðrómur um að Íranar hyggist ráða bandarískan sendiherra af dögum – Trump hótar hefndum

Orðrómur um að Íranar hyggist ráða bandarískan sendiherra af dögum – Trump hótar hefndum
Fyrir 3 dögum

Elliðaárnar komnar í 530 laxa

Elliðaárnar komnar í 530 laxa
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óhugnanleg uppgötvun eftir bruna í New York í gær

Óhugnanleg uppgötvun eftir bruna í New York í gær
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hrottalegt morðmál skekur Bretland – Örsmár hluti úr líkinu varð morðingjanum að falli

Hrottalegt morðmál skekur Bretland – Örsmár hluti úr líkinu varð morðingjanum að falli