fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Tveggja landa þorp

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 11. janúar 2020 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugsanlega hafa ekki margir heyrt um þýska þorpið Büsingen am Hochrhein enda er þetta bara smáþorp þar sem um 1.450 manns búa. En þorpið og saga þess er stórmerkileg og vitnar um hvernig fólk af ólíkum þjóðernum getur náð saman og búið í návígi við hvert annað án mikilla vandkvæða. Þorpið hefur verið nefnt sem hugsanleg fyrirmynd að lausninni á landamæramálum Írlands og Norður-Írlands nú þegar Bretland yfirgefur Evrópusambandið en landamæramálið hefur verið þungt í vöfum.

Büsingen am Hochrhein – Mynd: Wikipedia

En víkjum aftur að Büsingen am Hochrhein sem hefur tekist að vera tveggja þjóða þorp öldum saman án mikilla vandræða. Í umfjöllun BBC um þorpið segir meðal annars að það hafi vakið athygli þann 1. ágúst, sem er þjóðhátíðardagur Sviss, að fólk flykktist út á götur þorpsins, götur og hús höfðu verið skreytt svissneska fánanum í tilefni dagsins og fjöldi fleka og kanóa hefði siglt eftir Rín. Ekki hafi verið annað að sjá en hér hafi verið um fallega sviðsmynd að ræða í svissnesku þorpi en þó hafi eitt atriði skorið sig úr. Það er að þorpið sem um ræðir, Büsingen am Hochrhein, er þýskt og þessi hátíðarhöld hafi því farið fram í Þýskalandi.

„Það er gott að fagna dögum sem þessum. Þetta er bara eitthvað sem við gerum. Sál okkar og hjarta er Sviss.“

Er haft eftir Roland Güntert, varabæjarstjóra Büsingen am Hochrhein. Hann segir fyrirkomulagið ósköp einfalt, í þorpinu gildi þýsk lög og þýsk stjórnvöld ráði þar ríkjum. Hvað varði efnahagsmálin þá sé þorpið svissneskt.

Þá vaknar spurningin; af hverju Sviss er hjarta og sál þýsks þorps? Ástæðan er sú að þetta litla þorp er algjörlega umlukið Sviss. Þorpið er alls ekki landfast við Þýskaland en 700 metrar eru til þýsku landamæranna. Þetta er mjög sérstakt fyrirkomulag, landfræðilega, stjórnmálalega og skipulagslega. Til eru lönd sem eru algjörlega umlukin öðru landi, til dæmis Lesótó sem er umlukið af Suður-Afríku. En ekki er mikið um að heilu þorpin eða bæirnir séu algjörlega aðskildir frá móðurlandinu en þó eru til önnur dæmi um það og má þar til dæmis nefna ítalska bæinn Campione d‘Italia sem er einnig í Sviss. Þar búa um 2.000 manns en 23 kílómetrar eru frá bænum til ítölsku landamæranna. Frá sjöunda áratug nítjándu aldar giltu svissnesk tolla- og skattalög í bænum en það breyttist nú á nýársdag. Þá færðist bærinn algjörlega undir ítalska stjórn þrátt fyrir að íbúar hans hafi ekki viljað það. Það er því komið að endalokum lágra skatta og svissneskrar þjónustu í bænum en fram til áramóta var 7,7% virðisaukaskattur gildandi í bænum eins og í Sviss en hann hækkaði í 22% um áramótin til jafns við það sem gildir annars staðar á Ítalíu. Bæjarbúar notuðu svissneska franka og bílar þeirra voru með svissnesk skráningarnúmer. Auk þess sáu svissnesk yfirvöld um sorphirðu í bænum sem og rekstur vatnsveitu.

Þýskt og svissneskt

Þýskt yfirráðasvæði, en umlukið svissnesku yfirráðasvæði.

Eins og áður sagði eru um 700 metrar til landamæra Sviss og Þýskalands frá Büsingen am Hochrhein en þorpið tilheyrir Þýskalandi stjórnskipulega séð og pólitískt. Hvað varðar efnahagsmálin þá má segja að þá sé þorpið svissneskt. Þorpið stendur utan Evrópusambandsins eins og Sviss, en Þýskaland er hins vegar aðili að sambandinu. Af þessum sökum hefur þorpið verið nefnt til sögunnar sem fyrirmynd að lausn landamæramáls Írlands og Norður-Írlands við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Fyrir þremur árum lagði Alasdair McDonnell, norðurírskur þingmaður, til að Norður-Írland fengi sérstaka stöðu á borð við þá sem Büsingen am Hochrhein nýtur. Samkvæmt þeirri sérstöðu myndi vera mjög takmörkuð tollgæsla og eftirlit með ferðum fólks yfir landamæri ríkjanna, en það er einmitt þannig sem staðan er á „landamærum“ Büsingen am Hochrhein og Sviss. Með slíku fyrirkomulagi gæti Norður-Írland sagt skilið við Evrópusambandið en samt haldið nánum tengslum við Írland.

En ekki eru allir ginnkeyptir fyrir þessari tillögu og telja erfitt að yfirfæra fyrirkomulagið í Büsingen am Hochrhein yfir á landamæri Írlands og Norður-Írlands þar sem mannfjöldinn sé miklu meiri en um 1,8 milljónir búa á Norður-Írlandi.

Á veitingahúsinu Restaurant Waldheim sést vel að þorpið tilheyrir eiginlega tveimur löndum. Á útisvæði veitingahússins liggur landamæralína sem gerir að verkum að það er hægt að sitja í Sviss og borða steik en teygja sig eftir bjór yfir til Þýskalands.

Ákveðnar andstæður í hinu daglega lífi

Hvorki né eða bæði og? Svissneskt eða þýskt þorp?

Það hefur auðvitað ákveðin áhrif á þorpsbúa að búa í tveimur löndum og þeir þurfa stundum að taka ákvarðanir því tengdar. Í Þýskalandi er evran gjaldmiðillinn en í þorpinu er yfirleitt notast við svissneska frankann. Flestir þorpsbúa vinna í nærliggjandi svissneskum bæjum en greiða skatta í Þýskalandi (sem eru hærri en í Sviss). Börnin ganga í þýskan grunnskóla í bænum en þegar kemur að því að fara í framhaldsskóla geta þau og foreldrar þeirra valið á milli landanna hvað það áhrærir. Þorpsbúar eru bæði með þýsk og svissnesk póstnúmer og það sama á við um símanúmer. Það er hægt að velja bæði +49 (þýska landsnúmerið) og +41 (svissneska landsnúmerið) þegar hringt er í þorpsbúa. Það er auðvitað knattspyrnulið í bænum og er það eina þýska liðið sem fær að spila í svissnesku deildarkeppninni. Íbúar í bænum eru sagðir tala þýsku eins og Svisslendingar, það er að segja þýskan þeirra er aðeins öðruvísi í framburði en annars staðar.

Sagan

Það er ákveðin saga á bak við þessa sérstöku stöðu þorpsins og má rekja hana allt aftur til 1693, löngu áður en Þýskaland varð til. Þá tilheyrði þorpið Austurríki. Þá blossuðu fjölskyldudeilur upp í tengslum við bandalög tengd trú. Þær enduðu með því að þorpshöfðingjanum, sem hallaðist að kaþólskri trú, var rænt. Frændur hans rændu honum og fluttu til bæjarins Schaffhausen í Sviss, sem var mótmælendatrúar, þar sem hann var dæmdur í ævilangt fangelsi. Hann var þó látinn laus eftir sex ár, eftir að Austurríkismenn hótuðu að ráðast á Schaffhausen.

Nokkrum áratugum síðar seldi Austurríki eigur sína og jarðir í Sviss til kantónunnar Zürich en hélt þó Büsingen am Hochrhein eftir. Íbúar bæjarins eru sagðir hafa þverskallast við að ganga Sviss á hönd og sagt að það myndu þeir aldrei gera. Þegar hluti af austurríska keisaradæminu lenti undir þýskri stjórn á nítjándu öld fylgdi Büsingen am Hochrhein með. Svisslendingar reyndu að koma skikki á þessi mál 1919 og blésu til atkvæðagreiðslu meðal þorpsbúa um hvort þeir vildu yfirgefa Þýskaland og ganga Sviss á hönd. Um 96% þeirra samþykktu að segja skilið við Þýskaland. En stjórnvöld í Berlín höfðu engan áhuga á að gefa þorpið upp á bátinn, kannski sérstaklega vegna þess að Sviss bauð ekkert í skiptum fyrir það.

Eins ótrúlegt og það virðist þá hélt staða Büsingen am Hochrhein sér óbreytt í gegnum síðari heimsstyrjöldina. Þýskir hermenn, sem voru frá þorpinu, urðu að sýna skotvopn sín og taka skotfæri úr þeim á landamærum Þýskalands og Sviss og hylja einkennisbúninginn áður en þeir gátu haldið áfram för sinni þessa 700 metra heim. Að stríði loknu var staða þorpsins öllu flóknari en áður og ferðir á milli þess og Þýskalands kröfðust þolinmæði og mikillar pappírsvinnu. En 1967 komust Þýskaland og Sviss að samkomulagi um að Büsingen am Hochrhein skyldi tilheyra svissnesku tollsvæði og þar með var hægt að leggja landamæraeftirlit og tolleftirlit við þorpið niður.

Stærsta vandamál samtímans

Mikaelskirkjan frá 11. öld er vinsæll viðkomustaður í þorpinu.

Í dag er stærsta vandamál íbúanna skattar, sem eru hærri í Þýskalandi en Sviss, og framfærslukostnaður, sem er hærri í Sviss en Þýskalandi. Íbúarnir eru flestir með hærri laun en samlandar þeirra því þeir starfa í Sviss en vegna þess að þeir greiða skatt til Þýskalands eru ráðstöfunartekjur þeirra minni en ráðstöfunartekjur Svisslendinga. En það eru líka kostir við að búa í þorpinu því þar er leiguverð mun lægra en í Sviss. Þorpið laðar einnig að sér svissneska eftirlaunaþega því samkvæmt þýskum lögum fá eftirlaunaþegar góðan skattafslátt. Þetta hefur þó þær neikvæðu afleiðingar að meðalaldur þorpsbúa fer hækkandi, því eldra fólk flytur í þorpið en ungt fólk flytur á brott.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug