fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Pressan

Stakk unnustann til bana – Það sem hún gerði síðan skelfdi alla

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 15. ágúst 2020 22:30

Í þessu húsi gerðust þessir hræðilegu atburðir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 24. október 1955 fæddist Katherine Mary Knight í Tenterfield í Ástralíu. Móðir hennar, Barbara Roughan, átti fjóra syni úr fyrra hjónabandi. Hún eignaðist Katherine og tvíburasystur hennar og tvö börn að auki með nýja manninu, Ken Knight. Óhætt er að segja að lífið hafi verið Katherine erfitt allt frá fæðingu. Faðir hennar var áfengissjúklingur og þegar verst lét beitti hann móður hennar kynferðislegu ofbeldi tíu sinnum á dag. Barbara þróaði með sér mikið hatur á karlmönnum og kynlífi af þessum sökum. Hún ræddi við dætur sínar um viðkvæm og persónuleg mál er vörðuðu meðal annars kynlíf, mál sem börn eiga ekki að fá að vita.

Katherine varð einnig fyrir kynferðisofbeldi en margir úr fjölskyldunni beittu hana því allt þar til hún varð 11 ára. Eini ættinginn, sem hún átti í góðu sambandi við auk tvíburasystur sinnar, var Oscar frændi hennar. Hann tók eigið líf 1969. Katherine, sem var þá 14 ára, hélt þá áfram að tala við það sem hún sagði vera afturgöngu Oscar. Þetta sama ár flutti fjölskyldan svo í smábæinn Aberdeen.

Varð slátrari

Í unglingaskóla var hegðun Katherine upp og niður, hún gat verið allt frá því að vera fyrirmyndarnemandi, sem fékk hæstu einkunnir, yfir í að vera ofbeldisfullur eineltisseggur. Hún hætti í skóla 15 ára gömul og fékk sér vinnu í fataverksmiðju. En það var ekki draumur hennar að starfa í fataverksmiðju því ári síðar byrjaði hún að vinna í sláturhúsi bæjarins. Á nóttunni hengdi hún slátrarahnífana upp á vegginn fyrir ofan rúmið sitt.

Hún naut sín í starfinu og þótti lipur með hnífinn. Þegar hún var 18 ára byrjaði David Kellett að vinna með henni og féll hún kylliflöt fyrir honum. Þau gengu í hjónaband 1974. Þau áttu vel saman að flestu leyti, bæði gefin fyrir áfengi og á brúðkaupsdaginn mættu þau áberandi ölvuð í kirkjuna.

Katherine Knight

Móðir Katherine vildi tengdasyni sínum vel og gaf honum eftirfarandi ráð:

„Þú skalt gæta þín, því annars drepur hún þig. Ef þú pirrar hana eða gerir mistök ertu í slæmum málum. Láttu þig ekki dreyma um að halda framhjá henni, þá drepur hún þig. Hún er með lausa skrúfu.“

Það liðu ekki margar klukkustundir frá brúðkaupinu þar til David komst að því að Katherine var ekki alveg heil. Þegar þau höfðu stundað kynlíf þrisvar á brúðkaupsnóttinni reyndi hún að kyrkja hann því hún var fúl yfir að hann hafði sofnað og hafði ekki úthald í fjórðu umferðina.

Ofbeldi og hótanir einkenndu hjónabandið. Má þar nefna að þegar David kom heim kvöld eitt eftir að hafa keppt í pílukasti var Katherine búin að brenna öll fötin hans og skó. Hún sló hann með steikarpönnu í höfuðið. Hann náði að skríða út og fá aðstoð. Á sjúkrahúsinu kom í ljós að hann var höfuðkúpubrotinn. Katherine tókst að telja hann af því að kæra hana. Nokkrum mánuðum síðar vaknaði hann um miðja nótt við að hún sat klofvega á bringu hans og var með slátrarahnífinn. Hún sakaði hann um að vera henni ótrúr.

Eignuðust barn

Hjónin eignuðust síðan litla stúlku en David var búinn að fá sig fullsaddan af misþyrmingum eiginkonunnar og skömmu eftir fæðinguna stakk hann af til Queensland með annarri konu. Tengdamóðir hans varaði hann við þessu á sínum tíma og þetta reyndist örlagaríkt.

Daginn eftir að hann fór sást Katherine á gangi með barnavagn og var göngulag hennar mjög óstöðugt. Hún var einnig ofbeldisfull og skelfileg í framkomu. Hún var lögð inn á sjúkrahús og greind með fæðingarþunglyndi. Hún var á sjúkrahúsinu í margar vikur en um leið og hún var útskrifuð hélt martröðin áfram. Hún fór með dóttur sína á lestarstöðina og lagði hana á brautarteinana. Sem betur fer sá eldri maður hvað hún gerði og náði að bjarga stúlkunni frá lestinni nokkrum sekúndum áður en hún kom. Katherine komst í enn meira uppnám við þetta og stal öxi og fór í miðbæinn þar sem hún hótaði að drepa vegfarendur. Hún var handtekin og aftur lögð inn á sjúkrahús.

Katherine Knight

Skömmu síðar ákvað hún að hafa uppi á David sem enn var í Queensland með nýju kærustunni. Hún stöðvaði unga konu í Aberdeen og ógnaði henni með hníf og sagði henni að aka sér til Queensland. Hún ætlaði að hafa uppi á David og ekkert gæti stöðvað hana. Unga konan náði að komast úr bílnum þegar þær neyddust til að stöðva á bensínstöð. Katherine náði þó að slengja hnífnum í andlit stúlkunnar sem hlaut mikið ör af. Hún tók ungan pilt sem gísl að þessu loknu og hélt hnífnum upp að hálsi hans þegar lögreglan kom á vettvang. Lögreglumönnum tókst að ná hnífnum af henni og frelsa piltinn. Að þessu sinni var Katherine lögð inn á geðdeild.

Eignaðist annað barn

Lögreglan tilkynnti David og hvort sem fólk trúir því eður ei, þá yfirgaf hann kærustuna í Queensland og flutti aftur til Katherine í Aberdeen. Móðir hans var með honum í för. Þegar Katherine slapp út af geðdeild 1976 var hún orðin 21 árs. David og tengdamóðir hennar önnuðust hana og saman fluttu þau til Brisbane. Katherine fékk vinnu í stóru sláturhúsi. Fjórum árum síðar eignuðust hjónin sitt annað barn.

1984 var ekkert eftir af ást Katherine í garð David og hún yfirgaf hann og flutti aftur til Aberdeen. Tveimur árum síðar hitti hún nýjan mann, David Saunders, sem var 38 ára. Hann flutti inn til hennar og dætra hennar en hún hafði forræði yfir þeim.

En nýi maðurinn sleppti ekki íbúðinni sem hann hafði búið í áður og að því komst Katherine og ekki leið á löngu þar til hún krafði hann svara um hvað hann væri að gera þegar hann væri ekki með henni. Hún kastaði hún honum út úr íbúð sinni og hún misþyrmdi honum oft. Til dæmis lamdi hún hann í höfuðið með straujárni og stakk hann með skærum eitt sinn þegar hann kom seint heim.

Fyrsta drápið

Í maí 1987 skar hún átta vikna hvolp unnustans á háls. Með þessu vildi hún sýna honum hvað biði hans ef hann héldi framhjá henni.

Síðan eignaðist hún þriðja barnið, nú með David Saunders. Fljótlega eftir fæðinguna flúði hann frá henni. En Katherine var góð í að tala og sannfærði lögregluna um að hann væri að ljúga, það hafi verið hún sem hafi verið beitt ofbeldi. Nálgunarbann var sett á David og hún fékk forræði yfir barni þeirra.

En hún átti erfitt með að vera ein og ekki leið á löngu þar til hún náði í John Chillingworth, 43 ára, fyrrum samstarfsmann í sláturhúsinu. Þau eignuðust barn saman og átti Katherine, sem var augljóslega óhæf til að annast börn, nú fjögur börn. Sambandið við Chillingworht entist aðeins í þrjú ár því Katherine hafði krækt sér í nýjan mann, John Prince, sem var jafnaldri hennar.

Katherine og John.

Hann bjó með tveimur elstu börnum sínum en yngsta dóttir hans bjó hjá fyrrum eiginkonu hans. 1995 flutti Katherine inn til hans með börnin sín fjögur. Allt virtist leika í lyndi og sátt og samlyndi virtist ríkja á heimilinu. John vann í námu og þénaði vel. En sambandið var ekki frábrugðið fyrri samböndum Katherine. Hún vildi giftast en það vildi John ekki. Hún hefndi sín á honum með því að leka í vinnuveitanda hans að hann hefði stolið mörgum skyndihjálparkössum af vinnustaðnum þar sem hann hafði starfað í 17 ár. John brást við þessu með að sparka Katherine út af heimilinu.

Nokkrum mánuðum síðar fórust skötuhjúin að sjást saman aftur, vinum John til mikillar armæðu. En samband þeirra versnaði og eitt sinn stakk Katherine hann í bringuna á meðan börnin fjögur voru skelfingu lostin inni í herbergi. Skömmu síðar, í febrúar 2000, hringdi Katherine í föður sinn og sagði:

„Ég mun drepa Pricey.“

Hin örlagaríka nótt

Þann 29. febrúar fékk John nálgunarbann á Katherine. Hann óttaðist um líf sitt og barna sinna. Um kvöldið kom hann heim í tómt hús. Katherine hafði sent börnin í gistingu og John fór til nágrannans og drakk bjór með honum. Hann sagðist vera hræddur og óttaðist að eitthvað hræðilegt myndi gerast. Hann bað nágrannann því að hringja í lögregluna ef bíllinn hans væri enn í innkeyrslunni næsta morgun.

Hann fór að sofa um ellefu. Eftir það laumaðist Katherine inn í húsið. Hún horfði aðeins á sjónvarpið og fór í sturtu. Síðan vakti hún John sem var tilbúinn til að stunda kynlíf með henni þrátt fyrir nálgunarbannið. Að kynmökunum loknum stakk Katherine hann með slátrarhníf. Hann reyndi að komast undan og náði að skreiðast fram eftir ganginum að útidyrunum. Hann náði að opna dyrnar og var á leið út þegar Katherine náði taki á honum og dró hann inn aftur. Hún stakk hann ítrekað í mikilvæg líffæri og lést hann eftir að hafa hlotið 37 stungur. En Katherine hafði ekki lokið sér af.

Hún skar höfuðið, handleggi og fætur af honum. Hún fláði efri hluta líkamans og hengdi húðina upp í krók við útidyrnar. Höfuðið setti hún í pott ásamt öðrum líkamshlutum. Hún lagði síðan á borð fyrir þrjá og setti síðan soðið grænmeti, kartöflur og sósu á borðið ásamt líkamshlutunum. Á nafnspjöld við diskana skrifaði hún nöfn barna John.

Næsta morgun sá nágranninn að bíll John var enn í innkeyrslunni og hringdi hann því í lögregluna.

Aðkoman á vettvangi var svo hræðilegt að lögreglumennirnir sem voru sendir þangað gátu ekki borðað kjöt svo mánuðum skiptir. Í svefnherberginu fundu þeir Katherine sem hafði tekið mikið magn lyfja og lagst upp í rúm, henni varð þó ekki meint af lyfjaneyslunni.

Morðvettvangurinn.

Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hún væri sakhæf og í október 2001 var hún fyrst ástralska kvenna dæmd í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn. Hún er nú 65 ára og situr í kvennafangelsinu Silverwater í New South Wales. Þar mun hún verða þar til yfir lýkur.

Byggt á umfjöllun ABC, Daily Mail, New York Daily News og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Pressan
Í gær

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna
Pressan
Í gær

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hluti af San Andreas misgenginu gæti verið að setja sig í stellingar fyrir jarðskjálfta

Hluti af San Andreas misgenginu gæti verið að setja sig í stellingar fyrir jarðskjálfta
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Pressan
Fyrir 3 dögum

Mörg þúsund loftsteinar gætu glatast að eilífu þar sem þeir sökkva niður í ísinn á Suðurskautinu

Mörg þúsund loftsteinar gætu glatast að eilífu þar sem þeir sökkva niður í ísinn á Suðurskautinu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telja sig hafa fundið skýringuna á dularfullum snúningi Betelgás

Telja sig hafa fundið skýringuna á dularfullum snúningi Betelgás