fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Pressan

Aðgerðarleysi yfirvalda breytti bænum í gróðrarstíu COVID-19 smita – Hunsuðu aðvaranir frá Íslandi

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 19. mars 2020 07:01

Frá Ischgl. Mynd:Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirvöld í Týról í Austurríki eru sökuð um að hafa sett gróðasjónarmið ofar velferð fólks þegar COVID-19 veiran lét á sér kræla í skíðabænum Ischgl. Þar virðist barinn Kitzloch hafa verið sannkölluð gróðrarstía veirunnar því þar smitaðist fjöldi ferðamanna. Þeir fóru síðan til síns heima, þar á meðal til Íslands, og báru veiruna með sér.

Gestir, sem voru á Kitzloch í lok febrúar og byrjun mars, segja frá barþjóninum sem notaði flautur til vekja athygli á sjálfum sér þegar hann þurfti að berjast í gegnum mannþröngina með bakka fulla af áfengi. Flauturnar gengu síða oft á milli gestanna en það þótti ákveðin stemning vera í því að blása í hana. En það sem gestirnir vissu ekki var að barþjóninn, 36 ára Þjóðverji, var smitaður af COVID-19. Veiran átti því greiða leið yfir í annað fólk í gegnum flauturnar sem hann notaði og fólk blés síðan í. Síðar hefur barþjóninn verið skilgreindur sem „sjúklingur 0“, það er að segja sá fyrsti sem fékk veiruna í Ischgl. Barþjóninn og skíðaferðalangarnir eru taldir vera einhverskonar miðpunktur útbreiðslu veirunnar víða í Evrópu.

Íslensk yfirvöld vara við

í lok febrúar greindist farþegi, sem kom með flugi Icelandair frá München í Þýskalandi, með COVID-19. Hann hafði verið í Ischgl. Það vakti fljótt athygli að fleiri, sem voru þar á sama tíma, greindust einnig með veiruna.

Þann 5. mars settu íslensk yfirvöld Ischgl á lista yfir mestu hættusvæðin varðandi COVID-19 ásamt Kína og Íran. Allir, sem komu frá Ischgl, voru hvattir til að fara beint í 14 daga einangrun og setja sig í samband við yfirvöld.

Bernhard Tilg, yfirmaður heilbrigðismála í Týról, var í viðtali á austurrísku sjónvarpsstöðinni ORF spurður af hverju ekki hafi verið haft samband við íslensk yfirvöld um leið og þau flokkuðu Ischgl sem hááhættusvæði?

„Um leið og við fengum nöfnin á 15 smituðum Íslendingum þann 6. mars  byrjuðu yfirvöld í Týról að vinna að lausn málsins.“

Sagði hann.

En þetta er ekki alveg rétt hjá honum. Daginn áður sendu yfirvöld í Týról frá sér fréttatilkynningu þar sem því var slegið föstu að „út frá læknisfræðilegum sjónarhóli sé ólíklegt að smit hafi átt sér stað í Týról“. Það fylgdi sögunni að Íslendingarnir hefðu smitast um borð í flugvélinni af manni sem hafði verið á Ítalíu. Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins um málið segir að svo hafi virst sem heilbrigðisyfirvöld í Týról hafi ekki verið sérstaklega áhugasöm um að leysa málið fljótt.

Þann 7. mars greindist fyrsta COVID-19 smitið í Týról, það var fyrrnefndur barþjónn sem greindist með veiruna. Daginn eftir sendu yfirvöld frá sér yfirlýsingu á nýjan leik þar sem aftur sagði að „út frá læknisfræðilegum sjónarhóli sé frekar ósennilegt“ að gestir á barnum hafi smitast.

Barinn Kitzloch. Mynd:Kitzloch

Í umfjöllun þýska blaðamannsins Lars Wienand um málið bendir hann á að fréttatilkynningin hafi meðal annars verið birt á Facebooksíðu yfirvalda. Þar skrifaði þýskur maður eftirfarandi:

„Ætti ekki að koma þessum upplýsingum á framfæri við önnur lönd? Eru vinnufélagar barþjónsins smitaðir? Það þarf væntalega að tilkynna gestum barsins þetta, jafnvel þótt smithættan sé lítil.“

En þessu var ekki svarað og lífið hélt áfram sinn vanagang á Kitzloch.

Breytt viðhorf

Þann 9. mars var tilkynnt að 15 manns, sem höfðu komist í snertingu við barþjóninn, hafi greinst með smit. Þá breyttist viðhorf yfirvalda í Týról sem vildu ekki lengur útiloka að tengsl gætu verið við smituðu Íslendingana. Það var þó ekki fyrr en daginn eftir sem yfirvöld lokuðu Kitzloch. 11. mars var öllum öðrum börum í Ischgl lokað. 14. mars var bænum síðan lokað fyrir komum skíðaferðalanga og settur í einangrun.

Á þessum tíma gætu mörg hundruð ef ekki þúsundir ferðamanna hafa smitast í Ischgl en bærinn er einangraður uppi í fjöllum og lítið rými er þar svo fólk er í mikilli nálægð við hvert annað nánast hvar sem það er.

Allir þessir ferðamenn fóru síðan til síns heima og smituðu hugsanlega fólk þar. Dönsk yfirvöld telja til dæmis að 139 Danir hafi borið COVID-19 veiruna með sér heim frá Ischgl.

Þrátt fyrir að yfirvöld segist hafa gripið til ráðstafana um leið og þau vissu af smitinu þá eru þær aðgerðir umdeildar að mörgu leyti. Þegar bærinn var settur í einangrun var heimafólki bannað að yfirgefa hann en ferðamenn voru reknir á brott og settir í rútur sem óku með þá til flugvalla þaðan sem þeir gátu flogið heim. Þeir gætu hafa smitað fólk, sem þeir komust í snertingu við á leiðinni, og þannig átt sinn þátt í að dreifa veirunni enn frekar og gera faraldurinn verri en ella. Að minnsta kosti 1.000 smitaðir í Evrópu höfðu farið til Týról í frí en líklegt má teljast að mun fleiri hafi smitast þar.

En af hverju var þessi tregða hjá yfirvöldum að bregðast við? Svarið er líklegast að þar hafi peningar ráðið för. Skíðafólk skiptir miklu fyrir austurrískan efnahag. Tugþúsundir starfa tengjast greininni og fimm mánaða skíðavertíðin sér fólki fyrir peningum allt árið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið
Pressan
Í gær

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Airbnb-húsið frá helvíti – Móðir og fjögur börn í stórhættu

Airbnb-húsið frá helvíti – Móðir og fjögur börn í stórhættu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig
FréttirPressan
Fyrir 3 dögum

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?