fbpx
Mánudagur 01.júní 2020
Pressan

Leið Gretu Thunberg á toppinn: „Við borgum engum og við segjum nei við alla sem vilja græða á þessu“

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 30. nóvember 2019 21:00

Greta Thunberg. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verkfræðingur, prins frá Mónakó og almannatenglar hafa ásamt foreldrum hinnar 16 ára sænsku Gretu Thunberg leikið stórt hlutverk í því ferli sem hefur gert hana að heimsþekktum aðgerðasinna í loftslagsmálum. Allt hófst þetta, þannig séð, með því að tölvuverkfræðingurinn Bo Thorén, sem býr nærri hinu risastóra vatni Vänern, sem er um 400 kílómetra vestur af Stokkhólmi, hellti sér út í loftslagsmálin fyrir sex árum. Hann hætti að vinna og helgaði sig baráttunni gegn olíu, gasi og kolum í þeirri von að hægt væri að bjarga loftslaginu.

Á fyrri hluta síðasta árs kom hann litlum hópi á laggirnar. Þetta voru námsmenn og kennarar, 10 til 15 talsins. Hópurinn fundaði á netinu. Greta Thunberg kom inn strax á öðrum fundi hópsins en hópurinn hafði komið auga á hana eftir að hún varð í öðru sæti í samkeppni í greinarskrifum um loftslagsmál. Í kjölfar skotárásar í skóla í Parkland í Flórída var hvatt til skólaverkfalla í Bandaríkjunum þar til skólarnir væru orðnir öruggir. Þaðan fékk Thorén hugmyndina að loftslagsverkfalli sem átti að vara frá byrjun sumarfrísins 2018 og fram að þingkosningunum í Svíþjóð þann 9. september. En það var einn hængur á, enginn vildi taka þátt nema Greta.

Greta og faðir hennar, Svante. Mynd: Getty Images

Í ágúst ræddi Thorén við föður Gretu, Svante Thunberg, um þetta. Foreldrar hennar voru full efasemda um hvort þeir ættu að leyfa henni að fara í verkfall eða krefjast þess að hún mætti í skólann. Á endanum sögðu þau já og verkfall hennar hófst þann 20. ágúst. Í samtali við Jótlandspóstinn sagði Thorén að hann hefði fengið hugmyndina, hún hefði búið yfir staðfestunni. Hann sagðist ekki hafa getað ímyndað sér hversu mikla athygli þetta myndi vekja og hversu stórt þetta yrði allt saman, allt sé þetta Gretu að þakka.
„Eðlilegu fólki hefði ekki tekist að fara jafn langt með þetta eins og henni hefur tekist,“ sagði hann og vísaði þar til þess að hún er með Aspergers-heilkenni en það er eitt form einhverfu. Hann sagði að aðrir hefðu ekki setið aleinir fyrir framan sænska þingið með skilti.

„Henni er alveg sama um félagslegu hliðina sem aðrir leggja mikið upp úr. Það eru aðeins vísindi, rannsóknir og staðreyndir sem gilda.“

Fólkið á bak við Gretu

Margar sögur eru á kreiki um hver standi á bak við Gretu. Bæði foreldrar hennar og Thorén segja að engar fjárhagslegar hvatir eða nokkur samtök standi við bak hennar. Það má kannski frekar segja að tilviljun hafi ráðið því að hún varð táknmynd baráttunnar í loftslagsmálunum og hafi fengið stuðning fólks og samtaka sem aðhyllast sömu stefnu og hún. Í umfjöllun Expressen um Gretu er Janine O‘Keefe sögð hafa gegnt lykilhlutverki í að breiða Fridays for Future-verkföllin út um allan heim. Hún sendi viðtöl á ensku til vinar síns í Ástralíu sem stjórnar útvarpsþætti þar í landi. Ástralía er einmitt það land utan Evrópu þar sem loftslagsverkföllin hafa notið mesta stuðnings ungmenna.

Hvað varðar almannatengsl þá vinnur Iles PR, almannatengslaskrifstofan, fyrir Gretu en skrifstofan segist ekki starfa fyrir þá sem valda tjóni á umhverfinu. Fleiri koma einnig við sögu í almannatengslamálum hennar. Faðir hennar hefur vísað því á bug að nokkur hagnist fjárhagslega á henni.

„Við borgum engum og við segjum nei við alla sem vilja græða á þessu,“ sagði hann í samtali við Svenska Dagbladet.

Hann ferðast alltaf með henni en eins og mikið var fjallað um í fréttum í haust þá fóru þau til dæmis með seglbátnum Malizia II, sem er í eigu Pierre Casiraghi, frá Evrópu til Norður-Ameríku til að Greta gæti tekið þátt í loftslagsbaráttunni í heimsálfunni. Lokapunktur ferðarinnar átti að vera þátttaka á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Chile í desember. Ráðstefnan var síðan flutt til Spánar vegna óeirða og óstöðugs ástands í Chile. Casiraghi, sem er prins í Mónakó og áttundi í erfðaröðinni að krúnunni, sagði í samtali við The Times að hann hefði ekki lánað bát sinn til að vekja athygli á loftslagsmálum heldur aðeins til að koma Gretu heimsálfa á milli. Hann á hlut í flugfélaginu Monacair en flugfélög hafa einmitt verið mikið í umræðunni vegna mikillar losunar á gróðurhúsalofttegundum. Greta ferðast einmitt ekki með flugvélum vegna þess hversu mikið þær menga.

Skólaverkföll eru nú nær daglegt brauð um allan heim en það eru samtökin Fridays for Future sem standa á bak við þau. Þar á bæ er erindum fjölmiðla um Gretu svarað. Talsmaður samtakanna segir að þar sé enginn á launaskrá til að sjá um það sem Greta gerir, en þar sé fjöldi sjálfboðaliða að störfum. Samtökin eru ekki með sína eigin rannsóknardeild en segjast vera í sambandi við vísindamenn. Fjölskylda Gretu bendir sjálf á loftslagssérfræðinginn Kevin Anderson sem fyrirmynd. Hann starfar meðal annars við háskólann í Uppsölum. Hann er sjálfur hættu að fljúga og telur að loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna gangi ekki nógu langt. Hann er talsmaður róttækra breytinga og skoðanir hans eru samhljóða skoðunum Gretu. Eins og fjölskylda hennar er hann fullur efasemda um tæknilegar lausnir á loftslagsvandanum. Í samtali við Neue Zürcher Zeitung vísaði hann því á bug að Greta væri málpípa hans.

„Ég er ekki fyrirmynd hennar. Þegar ég ræði við hana er það næstum eins og að ræða við samstarfsmann á sviðinu.“

Gjörbreytt líf

Líf Thunberg-fjölskyldunnar hefur gjörbreyst á skömmum tíma. Fyrir nokkrum árum tóku þau þátt í lífsgæðakapphlaupinu eins og svo margir aðrir. Móðir Gretu er óperusöngkona og fylgdi fjölskyldan henni á ferðum hennar um heiminn þegar hún söng í hinum ýmsu óperuhúsum.

„Við flugum, við borðuðum kjöt, ókum um á stórum bíl,“ hefur faðir Gretu látið hafa eftir sér.

Í bók, sem móðir Gretu, Malene Ernman, skrifaði um ferðalag fjölskyldunnar frá því að vera þátttakendur í lífsgæðakapphlaupinu yfir í að vera meðvitað baráttufólk í umhverfismálum, kemur fram að vendipunkturinn hjá fjölskyldunni hafi verið þegar Greta var 11 ára. Hún var þá á góðri leið með að svelta sig í hel. Farið var með hana á milli lækna sem gekk illa að sjúkdómsgreina hana en að lokum tókst það.

Hún hafði orðið fyrir svo miklum áhrifum af mynd sem hún sá í skólanum. Mynd sem hafði mikil áhrif á þá viðkvæmu manneskju sem hún er. Myndin fjallaði um rusl í heimshöfunum og stóru plasteyjuna sem flýtur um Kyrrahafið. Greta grét á meðan myndin var sýnd og hélt áfram að gráta í mötuneytinu þegar „dauð dýr“ voru snædd á meðan rætt var um merkjafatnað og farsíma. Eftir þetta hefur líf fjölskyldunnar ekki orðið samt.

Þau hættu að fljúga, rafmagnsbíll var keyptur, kjöt er ekki lengur á boðstólum á heimilinu og er öll fjölskyldan nú grænkerar. Greta las allt sem hún komst yfir um loftslagsbreytingarnar. Foreldrar hennar sögðu störfum sínum upp, að hluta til, til að þurfa ekki að fljúga meira og að hluta til til að geta verið meira með börnunum, sem eru tvö. Þau eru bæði með greiningar.
Malene segir í bók sinni að einhverfan færi Gretu hæfileika sem aðrir hafa ekki:

„Greta er með greiningu en það útilokar ekki að það sé hún sem hefur rétt fyrir sér og við hin höfum rangt fyrir okkur. Hún sá það sem við hin vildum ekki sjá. Greta tilheyrir fámennum minnihluta sem sá koltvísýring með berum augum. Hún sá gróðurhúsalofttegundir stíga upp úr skorsteinum, aðskilja sig frá vindinum og breyta gufuhvolfinu í risastóran ruslahaug.“

HLIÐAREFNI

Greta hefur farið í ófá skólaverkföllin fyrir jörðina. Mynd: Getty Images

Leiðin á toppinn

September 2018 – Greta fór í skólaverkfall og settist fyrir framan sænska þingið og mótmælti aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Arnold Schwarzenegger bauð henni á loftslagsráðstefnu í Austurríki.
Nóvember 2018 – Skólaverkföll Gretu breiddust út um heiminn.
Desember 2018 – Hún hitti Antonio Gueterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og ávarpaði þjóðarleiðtoga á loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi. Time Magazine sagði hana meðal áhrifamesta fólks heims.
Janúar 2019 – Hún ávarpaði World Economic Forum í Davos.
Febrúar 2019 – Ávarpaði félags- og efnahagsmálaráð ESB og hitti Jean-Claude Juncker, formann framkvæmdastjórnar ESB.
Mars 2019 – Tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels af norskum þingmönnum. Útnefnd kona ársins af Swea International.
Apríl 2019 – Fékk norsk tjáningarfrelsisverðlaun. Heiner Koch, erkibiskup í Berlín, hyllti hana og líkti henni við Jesú. Hitti Frans I páfa á Péturstorginu í Róm. Var á lista Time yfir áhrifamesta fólk heims. Barack Obama hrósaði henni og sagði hana ungan, hugrakkan og einbeittan leiðtoga.
Maí 2019 – Ræður hennar voru gefnar út í bók. Var á forsíðu Time Magazine. Útnefnd heiðursdoktor við háskólann í Mons í Belgíu.
Júní 2019 – Dalai Lama sendi henni þakkarbréf. Fékk verðlaun frá Amnesty International. Var meðal aðalræðumanna á ráðstefnunni Brilliant Minds. Meðal annarra aðalræðumanna má nefna Barack Obama.
Júlí 2019 – Angela Merkel, kannslari Þýskalands, þakkaði henni fyrir framlag hennar og sagði það eiga þátt í að ríkisstjórn hennar vinni hraðar að umhverfis- og loftslagsmálum. Ávarpaði franska þjóðþingið. Var á forsíðu Vogue sem ein af 15 áhrifamestu konum heims.
Ágúst 2019 – Hyllt af Hillary og Chelsea Clinton í bók um frægar konur.
September 2019 – Breska tímaritið Prospect segir hana meðal mestu hugsuða heimsins. Hitti Barack Obama. Ávarpaði bandaríska þingið. Ávarpaði loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 4 dögum

Sá allt – Jordan hafði í hótunum við hann

Sá allt – Jordan hafði í hótunum við hann
Pressan
Fyrir 4 dögum

Einn frægasti krókódíll heims er dauður

Einn frægasti krókódíll heims er dauður
Pressan
Fyrir 4 dögum

Dregur Bill Clinton inn í mál Jeffrey Epstein

Dregur Bill Clinton inn í mál Jeffrey Epstein
Pressan
Fyrir 4 dögum

Leðurblökukonan segir að COVID-19 sé bara toppurinn á ísjakanum

Leðurblökukonan segir að COVID-19 sé bara toppurinn á ísjakanum
Fyrir 5 dögum

Gaman að veiða á Vatnasvæði Lýsu

Gaman að veiða á Vatnasvæði Lýsu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lufthansa fær 9 milljarða evra frá þýska ríkinu

Lufthansa fær 9 milljarða evra frá þýska ríkinu