fbpx
Miðvikudagur 15.júlí 2020
Pressan

Ráðgátan um kyrktu milljarðamæringana: „Hann var siðblindur í viðskiptum”

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 12. október 2019 22:00

Hjónin Barry og Honey.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um miðjan desember 2017 fundust hjónin Barry, 75 ára, og Honey Sherman, 70 ára, látin á heimili sínu í Toronto í Kanada. Þau voru milljarðamæringar á kanadíska vísu og vöktu morðin heimsathygli. Enn hefur enginn verið handtekinn vegna morðanna en lögreglan vinnur enn að rannsókn þeirra. Fjölskylda hjónanna hefur heitið 10 milljónum dollara fyrir upplýsingar sem geta leitt til þess að málið upplýsist. Í mars 2018 staðfesti kanadíska lögreglan að það hefði ekki verið tilviljun að hjónin voru myrt.

Málið er mjög dularfullt og greinilega mjög erfitt viðureignar fyrir lögregluna sem hefur ekki handtekið neinn vegna þess þrátt fyrir mikla og ítarlega rannsókn. Hjónin fundust við innisundlaugina á heimili sínu. Þau hengu þar í karlmannsbeltum. Í fyrstu var jafnvel talið að þau hefðu fyrirfarið sér en lögreglan útilokaði þann möguleika síðar. Ekki hefur verið skýrt frá hvað gæti legið að baki morðinu en í sumar sagði lögreglan að hún telji sig hafa nokkuð skýra mynd af því hvað gerðist á heimili hjónanna en sagði ekkert um hvort hún hafi einhvern ákveðinn eða einhverja ákveðna grunaða um morðin.

Rúmlega 10.000 manns, þar á meðal Justin Trudeau forsætisráðherra, voru viðstödd útför hjónanna. Það þurfti svo sem ekki að koma á óvart því þau voru þekkt og auðug en auður þeirra var metinn á þrjá milljarða dollara. Þau komu víða við sögu í Kanada, þau áttu lyfjafyrirtækið Apotex Inc., sem Barry hafði stofnað, og létu að sér kveða í mannúðarmálum en til þeirra gáfu þau milljónir dollara.

Fjölmenni var í minningarathöfn um hjónin eftir andlát þeirra.

Hver voru þau?

Í óbirtum endurminningum sínum frá 1996 skrifaði Barry að „hann hafi alltaf verið mjög meðvitaður um eigin dauðleika“. Þessar endurminningar virðist hann ekki hafa ætlað að gefa út en þær voru opinberaðar í tengslum við málaferli. Úr þeim má lesa að Barry hafi verið maður með sterkar skoðanir. Hann taldi guð ekki til, frjálsan vilja aðeins vera tálsýn og að „lífið hefði enga meiningu eða tilgang“. Hann skrifaði einnig að hann teldi þessar hugsanir sínar kannski til þess fallnar að vekja áhuga annarra síðar, „kannski hrokafull trú mín“ skrifaði hann. Endurminningarnar veita smá innsýn í líf hjónanna. Við útförina sagði sonur þeirra, Jonathon, að þau hefðu verið „yin og yang“.

„Þau fullkomnuðu hring sem inniheldur allt það mikilvæga sem skiptir máli til að vera manneskja. Hvorugt þeirra var fullkomið en saman voru þau í algjöru jafnvægi og einstök.“

Barry lýsti sjálfum sér sem vinnualka, manni sem tók vinnuna með sér þegar hann fór í frí. Hann var grjótharður trúleysingi, harður í horn að taka í viðskiptum og ástríkur en oft fjarverandi faðir. Honey var hlý í viðmóti og sögð vera „segullinn og límið“ sem hélt fjölskyldunni saman. Hún var mikið partíljón sem lét krabbamein í hálsi og kvalafulla liðagigt ekki halda aftur af sér í samkvæmislífinu eða við góðgerðarstörf. Foreldrar hennar voru Pólverjar sem lifðu helförina af og fluttu síðar til Kanada.

Barry fæddist í Toronto 1942. Hann var enginn afburðanámsmaður í skóla en fljótt var samt ljóst að hann var vel greindur. Hann fékk inngöngu í verkfræðideild Toronto-háskólans þegar hann var 16 ára, yngsti nemandi deildarinnar nokkru sinni, og lærði síðan loftsiglingafræði við Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum.

Barry og Honey kynntust í ágúst 1970 og gengu í hjónaband ári síðar. Honey var félagslynd en Barry þótti meiri einfari og skorti stundum á félagslega færni hans. Við útförina sagði Mary, systir Honey, að þegar hún hitti Barry fyrst hafi henni ekki fundið mikið til hans koma.

„Hann stóð inni í eldhúsi. Þar var hann að lesa dagblað, hunsaði alla, var bara Barry. Það eina sem ég gat hugsað var: „Er systir mín með þessu? Hvað er málið?“ En þegar á leið sá ég að hann var snjall, frábær og ljúfur maður.“

Hjónin áttu fjögur börn. Þrjú þeirra gengu staðgöngumæður með eftir að Honey hafði misst nokkur fóstur. Hjónin stóluðu hvort á annað og voru mjög háð hvort öðru. Honey sá til þess að Barry væri klæddur á viðeigandi hátt fyrir viðburði sem hann og þau sóttu, valdi fötin á hann, allt frá bindi niður í sokka.

Mjög gjafmild

Hjónin létu mikið að sér kveða varðandi mannúðarmál og voru mjög gjafmild. Þar skildu þau eftir sig eftirmæli sem ekki munu gleymast. Þau gáfu milljónir dollara til sjúkrahúsa, samtaka gyðinga, háskóla og ýmissa mannúðarsamtaka. Hátæknirannsóknarstofa við háskólann í Toronto ber nafn þeirra hjóna og það sama á við um miðstöð gyðinga í háskólanum.

Hjónin gáfu um 40 milljónir Bandaríkjadala til góðgerðarmála um allan heim. Þar á meðal nýttu þau fyrirtæki sitt, Apotex, til að senda lyf til barna í Kenía. Þau flögguðu þó ekki auði sínum þrátt fyrir að vera meðal ríkustu Kanadamannanna. Í samtali við Toronto Life magazine árið 2008 sagði Honey að þau hjónin „lifðu góðu lífi, ekki stóru lífi“ og að þau hefðu áhyggjur af áhrifum auðs síns á börnin þeirra. Hún sagði að þau reyndu að temja þeim „raunveruleikaskyn“. Barry var þekktur fyrir að nota bíla sína þar til þeir voru ekki til neins nýtir nema að fara í brotajárn. Eins og vinur hans, Murray Rubin, lýsti honum: „Barry var sama um hluti, að græða peninga var hans aðferð til að sanna sig.“ Hann segir að Barry hafi verið greindasti maður sem hann hafi nokkru sinni hitt.

Barry og Honey áttu lyfjafyrirtækið Apotex Inc og voru viðskiptaaðferðir þeirra gagnrýndar.

Umdeildur kaupsýslumaður

Barry lærði inn á lyfjaiðnaðinn þegar hann vann í lyfjaverksmiðju frænda síns. Hann stofnaði síðan Apotex 1974. Á fyrstu árunum kom hann að öllum þáttum rekstrarins, skúraði gólfin og skrifaði ávísanir. Það orð fór af honum að hann væri óhræddur við að nota dómstóla til að byggja fyrirtækið upp og verja hagsmuni fyrirtækisins. Apotex hefur átt aðild að rúmlega 1.000 dómsmálum í Kanada en fyrirtækið hefur verið óhrætt við að láta reyna á einkaleyfi annarra á lyfjum.

BBC hefur eftir Amir Attaran, lagaprófessor við Ottawa-háskóla, að Apotex sé örugglega það kanadíska fyrirtæki sem hafi rekið flest mál fyrir kanadískum dómstólum.

„Það er hægt að segja að út frá því hvernig hann rak fyrirtæki sitt hafi hann átt marga óvini.“

Lyfjaverð er mjög hátt í Kanada og segir Attara að viðskiptaaðferðir Barry eigi þar hlut að máli.

„Hann var siðblindur í viðskiptum. Lyfin hans voru seld á yfirverði og féfléttu Kanadamenn,“ skrifaði hann á Twitter. Apotex hefur ekki viljað svara þessum ummælum. Það styður kannski orð Attara að fyrrnefndur Rubin segir Barry hafa „verið góða persónu en sem kaupsýslumaður hafi hann verið harður í horn að taka“.

Barry stóð einnig í löngum og mjög áberandi deilum. Á tíunda áratugnum blandaðist Apotex og þar með hann inn í harðar deilur við Nancy Olivieri, lækni á barnasjúkrahúsinu í Toronto. Deilurnar tengdust tilraunum með nýtt lyf frá Apotex. Olivieri vildi upplýsa þátttakendur í rannsókninni um hugsanlega hættu samhliða þátttöku þeirra. Apotex vildi ekki fallast á það, hætti tilrauninni og hótaði að stefna Olivieri fyrir dóm ef hún skýrði frá þessum hugsanlegu hættum. Hún lét það ekki stöðva sig. Barry sagði hana „klikkaða“ þegar hann ræddi um málið í fréttaskýringaþættinum 60 mínútum á CBS-sjónvarpsstöðinni.

Í september 2017 hafði hann sigur fyrir dómi gegn ættingjum sínum sem sökuðu hann um að hafa rofið samkomulag sem átti að færa þeim 20 prósenta hlut í Apotex. Þetta voru langvinnar deilur sem stóðu yfir í rúman áratug með málsóknum og gagnmálsóknum.

Fólk hefur velt því fyrir sér í tengslum við morðin hvort einhver af öllum þessum málum geti verið ástæðan fyrir morðunum en engin svör hafa fengist við því enn. Rubin segir að þrátt fyrir að Barry hafi verið harður í horn að taka geti hann ekki ímyndað sér hver hafi myrt hann og Honey með svo miklu „hatri“.

„Ég trúi ekki að Barry vinur minn … hafi dáið á þennan hátt. Ráðgátan er – hver gerði þetta og af hverju?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Krufningar á COVID-19 sjúklingum afhjúpa hryllilega staðreynd

Krufningar á COVID-19 sjúklingum afhjúpa hryllilega staðreynd
Pressan
Í gær

Giftu sig í miðjum kórónuveirufaraldri – Nú er brúðguminn dáinn og 100 gestir smitaðir

Giftu sig í miðjum kórónuveirufaraldri – Nú er brúðguminn dáinn og 100 gestir smitaðir
Pressan
Fyrir 2 dögum

Leituðu að mannabeinum í Tiger King-garðinum

Leituðu að mannabeinum í Tiger King-garðinum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Lagt hald á kókaín, skartgripi og 13 milljónir punda í „feluboxum“ flutningabíla.

Lagt hald á kókaín, skartgripi og 13 milljónir punda í „feluboxum“ flutningabíla.
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sögulegur samningur – Fær 503 milljónir dollara fyrir 10 ára samning

Sögulegur samningur – Fær 503 milljónir dollara fyrir 10 ára samning
Fyrir 4 dögum

Mest af laxi í Leirvogsá fyrir neðan brú

Mest af laxi í Leirvogsá fyrir neðan brú
Pressan
Fyrir 5 dögum

Neil Young er ósáttur við tónlistarval Donald Trump

Neil Young er ósáttur við tónlistarval Donald Trump
Pressan
Fyrir 5 dögum

Áratugagömul ummæli urðu yfirmanni hjá Boeing að falli

Áratugagömul ummæli urðu yfirmanni hjá Boeing að falli