fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Einn afkastamesti morðingi samtímans

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 8. september 2019 16:00

Minning um fallna félaga Minningarathöfn á Staten Island um þá sem hafa orðið ópíóðum að bráð. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árlega látast um 70.000 Bandaríkjamenn af völdum ofneyslu fíkniefna og löglegra lyfja, þar á meðal verkjalyfja. Nú eru þessi mál komin til kasta dómstóla víða um landið og þurfa lögmenn stóru lyfjafyrirtækjanna nú að mæta í dómsali til að verja fyrirtækin, en rúmlega 2.000 mál hafa nú þegar verið höfðuð gegn þeim. Stóra spurningin í þessu öllu saman er hvað sé sanngjarnt verð eða öllu heldur bætur fyrir 400.000 mannslíf á friðartímum.

Nýlega dæmdi dómstóll í Oklahoma lyfjarisann Johnson & Johnson, sem hefur meðal annars selt efni sem eru notuð í verkjalyf, til að greiða um 550 milljónir dollara í sekt vegna þessa. Saksóknarinn hafði krafist margfalt hærri upphæðar í sekt, en var samt sem áður sáttur þegar dómur hafði verið kveðinn upp.

„Þetta er stór sigur fyrir Oklahoma, fyrir þjóðina og fyrir alla sem hafa misst ástvin eða vin af völdum ofneyslu,“ sagði ríkissaksóknari Oklahoma. En þetta var aðeins fyrsta skrefið í ferli sem getur tekið mörg ár enda munu lyfjafyrirtækin verjast með kjafti og klóm því mikið er undir. Þessi mikli misnotkunarfaraldur á verkjalyfjum, þar á meðal ópíóíðum, hófst í lok tíunda áratugarins þegar lyfjafyrirtækin sannfærðu bandarísk yfirvöld um að aukaverkanir lyfja, sem eru gerð úr morfíni eða efnum sem líkjast morfíni og nefnast ópíóíðar, væru mjög litlar. Í kjölfarið hertu lyfjafyrirtækin markaðssetningu sína og á skömmum tíma leiddi það til mikillar misnotkunar og tugþúsunda dauðsfalla á ári hverju.

Dældu út ávanabindandi verkjalyfjum

Í umfjöllun Washington Post um málið í sumar var sýnt fram á hvernig lyfjafyrirtækin beinlínis drekktu litlum apótekum í austurhluta Bandaríkjanna með mjög ávanabindandi verkjalyfjum. Eitt versta dæmið er Norton í Virginíu, um 600 kílómetrum suðvestur af Washington. Þar seldu apótekin rúmlega 300 töflur á ári að meðaltali á hvern íbúa og afleiðingarnar voru ekki lengi að koma í ljós.

Fjöldi dauðsfalla vegna misnotkunarinnar er 18 sinnum hærri í Norton en landsmeðaltalið. Auk þess er heilbrigðis- og félagsmálakerfi bæjarins löngu komið að þolmörkum og jafnvel út fyrir þau. Það sama á við um marga aðra smábæi í Bandaríkjunum.

„Fangelsin eru yfirfull og hátt hlutfall barna er nú alið upp af öfum og ömmum og réttarkerfið og viðbragðsaðilar eru undir miklu álagi,“ sagði Joseph Fawbush, bæjarstjóri í Norton, í samtali við Washington Post.

Halda fram sakleysi Johnson & Johnson telur sig ekki hafa brotið nein lög. Mynd: Getty Images

Neyðarástand

Haustið 2017 lýsti Donald Trump Bandaríkjaforseti yfir neyðarástandi hvað varðar lýðheilsu vegna ópíóíðafaraldursins. Síðan þá hefur það gerst að þess merki eru farin að sjást faraldurinn hafi náð hæstu hæðum, að minnsta kosti í bili, en er enn á mjög háu stigi. Umræðan og mál lyfjafyrirtækjanna hafa vakið hörð viðbrögð stjórnmálamanna sem krefjast þungrar refsingar yfir þeim hlutum heilbrigðiskerfisins sem hafa komið að þessum málum. Það eru allt frá lyfjaverslunum til lækna og lyfjaframleiðenda.

„Í Bandaríkjunum notum við 80 prósent af heimsframleiðslunni af ópíóíðum og 2017, á einu ári, létust rúmlega 70.000 manns af völdum of stórra skammta,“ tísti Joe Manchin, þingmaður Demókrata frá Vestur-Virginíu, eitt sinn um faraldurinn, en heimaríki hans er meðal þeirra ríkja sem verst hafa orðið úti.

Af 70.000 dauðsföllum af völdum of stórra skammta er hægt að tengja tæplega 50.000 við ópíóíða. Þrátt fyrir að stigið hafi verið á bremsuna á undanförnum árum hvað varðar útskriftir lyfjaávísana upp á ópíóíða þá hafa neytendur haldið áfram að nota álíka efni, til dæmis hið margumrædda fentanýl sem er smyglað í miklu magni til Bandaríkjanna.

Langvarandi ferli fyrir dómstólum

Uppgjör þessara mála fyrir dómi er bara rétt hafið og öruggt að á næstu árum verður hart tekist á í dómsölum um hvort lyfjafyrirtækjum beri að greiða fórnarlömbum bætur. Niðurstaða fyrrnefnds dóms frá Oklahoma bendir til að langur og harður slagur sé framundan. Hlutabréf í Johnson & Johnson hækkuðu í verði eftir að dómsniðurstaðan lá fyrir því sektin var miklu lægri en margir höfðu átt von á og það sama á við um hlutabréfaverð í öðrum lyfjafyrirtækjum.

Johnson & Johnson, sem er kannski einna þekktast fyrir ýmsar barna- og snyrtivörur og lausasölulyf, telur sig ekki hafa brotið nein lög og áfrýjaði dómnum strax til æðra dómstigs. Rúmlega 2.000 önnur mál af svipuðum toga bíða nú fyrirtöku hjá dómstólum en það eru bæði ríki Bandaríkjanna og einstök sveitarfélög sem stefna lyfjaframleiðendum, dreifingaraðilum og sölumönnum. Mörg þekkt lyfjafyrirtæki eru nú í skotlínunni. Þvert á það sem Johnson & Johnson gerði ákváðu lyfjafyrirtækin Teva og Purdue Parma að gera dómsátt í Oklahoma en fyrirtækin framleiða samheitalyf. Þau greiddu samtals tæplega 300 milljónir dollara í sekt án þess þó að viðurkenna sekt sína. Þekktasta vara fyrirtækisins er Purdue Pharmas Oxycontin, betur þekkt sem oxycodon. Purdue Pharma er í eigu hinnar moldríku Sackler-fjölskyldu sem er orðin samnefnari ófyrirleitinnar markaðssetningar. Þrátt fyrir harða gagnrýni á aðferðir fyrirtækisins ver það sig enn með kjafti og klóm.

Staðreyndir um ópíóíða

Ópíóíði er heiti á lyfjum sem byggja á morfíni og morfínlíkum efnum og eru notuð sem verkjalyf. Talið er að fjórði hver sjúklingur misnoti þessa tegund lyfja og að tíundi hver verði háður þeim. Frá því á tíunda áratugnum hefur gríðarleg misnotkun á verkjalyfjum og skyldum lyfjum orðið um 400.000 manns að bana í Bandaríkjunum einum. Að minnsta kosti 1,7 milljónir Bandaríkjamanna misnota þessi ávanabindandi lyf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn
Pressan
Fyrir 3 dögum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“