fbpx
Mánudagur 16.september 2019  |
Pressan

Ferðir sem snúast um líf og dauða – 21 árs maður hafði ekki efni á lyfjum og dó

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 21. ágúst 2019 23:00

Ung baráttukona Þessi stúlka heldur á skilti þar sem stendur Insúlín bjargar lífi mínu er forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders talar á fjöldafundi um verð á insúlíni í Bandaríkjunum. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnmálamanna heldur verð á lyfjum áfram að hækka í Bandaríkjunum. Örvæntingarfullir Bandaríkjamenn eru því farnir að leggja leið sína til Kanada til að kaupa insúlín og önnur lyf. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur oft skammast út í lestir innflytjenda sem streyma í gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna. En það eru líka til bandarískar lestir, lestir sem samanstanda af rútum og stórum fólksbílum. Þær fara yfir landamærin til Kanada og heim aftur. Þeir sem þr eru á ferð hafa þó alls ekki í hyggju að sækja um hæli í Kanada og ferðir þeirra snúast um líf og dauða.

Insúlín án lyfseðils

Rúmlega sjö milljónir Bandaríkjamanna þjást af sykursýki og þurfa að nota insúlín. Frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur verðið hækkað um 1.200 prósent að sögn hagsmunasamtaka sykursjúkra. Þetta hefur valdið því að margir sykursjúkir skammta sér þetta lífsnauðsynlega lyf. Áður var ólöglegt fyrir Bandaríkjamenn að kaupa insúlín erlendis en bandaríska lyfjaeftirlitið, FDA, breytti nýlega reglum sínum og heimilaði Bandaríkjamönnum að koma með þriggja mánaða skammt af lífsnauðsynlegum lyfjum til landsins. Þetta hleypti miklu lífi í ferðir fólks til Kanada gagngert til að kaupa lyf. Þar er hægt að kaupa insúlín án þess að framvísa lyfseðli. Yfirvöld í Vermont, Flórída og Colorado eru nú að kanna möguleikana á að hefja innflutning á insúlíni frá Kanada. Ekki liggur enn fyrir hvort það sé hægt út frá lagalegu sjónarmiði.

Ótrúlegur verðmunur

Verð á insúlíni er orðið svo hátt í Bandaríkjunum að fjórði hver Bandaríkjamaður, sem þjáist af sykursýki, er byrjaður að skammta sér insúlín. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar. Ótrúlegur verðmunur er á insúlíni í þessum tveimur nágrannaríkjum. Í Kanada er verðið aðeins um tíundi hluti þess sem það er í Bandaríkjunum. Það er því mikill fjárhagslegur ávinningur fyrir sykursjúka að kaupa insúlín í Kanada. En það að sykursjúkir fari saman í lest yfir landamærin til að kaupa sér insúlín er ekki aðeins til að kaupa lyfið. Þeir gera þetta einnig til að vekja athygli á verði lyfsins, og fleiri lyfja, í Bandaríkjunum og til að sýna að eitthvað mikið er að verðmynduninni í Bandaríkjunum. Sparnaður einstaklings getur numið allt að 3.000 dollurum við að kaupa þriggja mánaða skammt af insúlíni í Kanada frekar en í Bandaríkjunum.

Alvarlegt mál Dæmi eru um að fólk með sykursýki skammti sér lyf til að spara. Mynd: Getty Images

Tvö störf dugðu ekki fyrir lyfjum

Dæmi eru um Bandaríkjamenn sem hafa látist af þeirri ástæðu einni að þeir höfðu ekki efni á að kaupa sér insúlín. Nýlega lést 21 árs karlmaður vegna þessa. Hann var í tveimur störfum til að hafa í sig og á en það dugði ekki til og hann hafði ekki efni á að kaupa þetta lífsnauðsynlega lyf. Bæði demókratar og repúblikanar hafa árum saman heitið því að verð á lyfseðilsskyldum lyfjum skuli lækka. Donald Trump sagði í kosningabaráttu sinni 2016 að hann myndi „semja brjálæðislega“ við stóru lyfjafyrirtækin til að þetta markmið næðist. En þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnmálamanna hefur þróunin verið á hinn veginn og verðið hefur hækkað. Á fyrri helmingi ársins hækkaði lyfjaverð fjórum sinnum meira en verðbólgan. Frá 2012 til 2016 tvöfaldaðist verð á insúlíni.

Í leiðara New York Times frá því í byrjun júlí sagði að þessi þróun sýndi veikleika bandaríska heilbrigðiskerfisins. Bandaríkjamenn greiði meira fyrir lyf en íbúar nokkurs annars lands í heiminum. Það séu svo margir sjúklingar sem skammta sér lyf eða sleppa því að taka nauðsynleg lyf að sögur um fólk sem deyr vegna skorts á nauðsynlegum lyfjum eru orðnar hversdagslegar.

Aðgerðir hafa ekki dugað til

Umræðan um þetta hefur komið smávegis hreyfingu á málin en þó ekki mjög mikilli. Þingið hefur staðið fyrir opnum fundum um málið. Eitt sjúkratryggingafélag hefur sett þak á hlut sjúklinga í greiðslu fyrir insúlín en aðalvandamálið virðist vera hvernig lyfjaverð er ákveðið á markaðnum. Lyfjafyrirtækin semja við hvert og eitt sjúkratryggingafélag um verð. Þetta veldur því að til er ógegnsætt lag milliliða sem þrýsta verðinu upp. Auk þess heldur einkaleyfisvernd keppinautum frá markaðnum. Þá hefur sú þróun orðið á undanförnum áratugum að sjúkratryggingafyrirtækin þrýsti stærri hluta lyfjareikningsins yfir á viðskiptavini sína til að bæta eigin rekstrarafkomu. Í Kanada semur ríkið hins vegar beint við lyfjafyrirtækin um verð og tryggir það miklu lægra verð.

Árangur Trump lítill

Ríkisstjórn Trump hefur tekið nokkur skref til að auka vernd neytenda. Tillögum hennar hefur verið slegið upp á Twitter og í sjónvarpi en árangurinn er hins vegar ekki mikill og ekki mikið til að stæra sig af. Ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fólst í að lyfjafyrirtækin ættu að skýra frá heildsöluverði lyfjanna í sjónvarpsauglýsingum þegar þau auglýstu lyf sín. Dómari bannaði þetta í júlí því reglur á borð við þessar heyra undir þingið en ekki forsetaembættið. Önnur aðgerð ríkisstjórnarinnar var að tryggja sjúklingum afslátt í gegnum Medicare, sem er opinbert sjúkratryggingakerfi fyrir aldraða, en hún var fljótt dregin til baka eftir að ljóst var að kostnaður ríkisins vegna þessa hefði orðið 177 milljarðar dollara á tíu ára tímabili. Trump lýsti því síðan yfir nýlega að hann hygðist gefa út forsetatilskipun um mismunun til að tryggja að lyfjaverð í Bandaríkjunum verði alltaf það lægsta í heimi.

Ekkert til að hrópa húrra yfir Donald Trump þarf að grípa til einhverra aðgerða til að sporna gegn þróun á lyfjamarkaði. Mynd: Getty Images
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Rigningin hefur haft sitt að segja

Rigningin hefur haft sitt að segja
Pressan
Fyrir 2 dögum

Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína hefur mikil áhrif

Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína hefur mikil áhrif
Pressan
Fyrir 3 dögum

Maria lést í umferðarslysi – Faðir hennar kom fyrstur á vettvang sem sjúkraflutningamaður

Maria lést í umferðarslysi – Faðir hennar kom fyrstur á vettvang sem sjúkraflutningamaður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Drepin af hundum sínum

Drepin af hundum sínum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fékk skelfilegar fréttir þegar hann vaknaði eftir slysið – Ekki keyra undir áhrifum

Fékk skelfilegar fréttir þegar hann vaknaði eftir slysið – Ekki keyra undir áhrifum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Gengur illa að leigja nýjar íbúðir út – Bjóða ókeypis leigu fyrstu þrjá mánuðina

Gengur illa að leigja nýjar íbúðir út – Bjóða ókeypis leigu fyrstu þrjá mánuðina