Í nýlegri umfjöllun Jótlandspóstsins um hrotur var rætt við Poul Jennum, yfirlækni á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn, um nokkur atriði varðandi hrotur.
Hann sagði meðal annars að rétt væri að þeir sem hrjóta njóti minni svefngæða en þeir sem eru lausir við hrotur. Þegar fólk hrýtur þarf líkaminn að nota meiri krafta í að halda öndunarvegunum opnum og þetta truflar svefninn.
Hrotur eru arfgengar að hans sögn. Líkurnar á að fólk hrjóti eru 2-3 sinnum meiri ef foreldrar þess hrjóta.
Hann sagði að rétt væri að fólk geti dáið af því að hrjóta. Venjulegar hrotur án öndunarstoppa séu ekki hættulegar. Hann sagði að hrotur gætu verið vísbending um kæfisvefn og ef fólk glími við mikinn kæfisvefn geti það valdið hjarta- og æðasjúkdómum, blóðtappa í heila og dauða.
Eldra fólk hrýtur meira en yngra fólk að sögn Jennum og karlar hrjóta meira en konur. Einnig eru hrotur algengari hjá þeim sem eru í yfirþyngd en öðrum.