Braut loftsteinsins Bennu liggur framhjá jörðinni sjötta hvert ár þegar hann er á hringferð sinni um sólina. Vísindamenn telja hugsanlegt að hann lendi í árekstri við jörðina á tímabilinu frá 2175 til 2199. Hann er ekki svo stór að árekstur mundi eyða öllu lífi á jörðinni en það mun ekki fara framhjá neinum ef til þess kemur.
Þann 17. ágúst tók geimfarið fyrstu myndina af loftsteininum. Hann er þó ekki mjög greinilegur á henni enda var geimfarið í 2,3 milljóna kílómetra fjarlægð þegar myndin var tekin. Ferðalag geimfarsins í heildina er öllu lengra eða um 1,8 milljarðar kílómetra.
Geimfarið á að gera meira en taka myndir. Áætlað er að það lendi á Bennu 3. desember næstkomandi. Þá verða tekin sýni úr loftsteininum og verða þau flutt til jarðarinnar til rannsóknar. Einnig mun geimfarið mæla stærð Bennu, hreyfingar hans og hitastig.
Bennu samanstendur af óvenjulega miklu kolefni og því er hægt að fræðast mikið um hvernig hann og sólkerfið urðu til. Geimfarið er væntanlegt aftur til jarðar 2023.