Málið er nú í undirbúningsferli en reiknað er með að sala á orkudrykkjum verði bönnuð til barna undir 16 ára eða 18 ára aldri. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort verður ofan á. Bannið verður hluti af baráttu ríkisstjórnarinnar gegn offitu meðal barna.
Það er ekki aðeins sykurinn í orkudrykkjunum sem veldur áhyggjum heldur einnig hið mikla koffínmagn. Þetta veldur ákveðnum heilsufarsvandamálum hjá börnum og ungmennum. Má þar nefna svefnleysi, magaverki, höfuðverki og ofvirkni af völdum koffíns. Í einni 250 millilítra dós af orkudrykk getur verið jafn mikið koffín og í þremur dósum af hefðbundnum kóladrykk.
Vitað er að tvö af hverjum þremur börnum á aldrinum 10 til 17 ára drekka orkudrykki og það gerir fjórðungur barna á aldrinum 6 til 9 ára. Það ýtir undir neysluna að sumar tegundir eru seldar á sem svarar til 50 íslenskra króna.
Sky skýrir frá þessu.