Michael Kretschmer, forsætisráðherra Sachsen, var í borginni í gær og ræddi við íbúa. Um 500 manns komust að á fundinum en enn fleiri söfnuðust saman utan við fundarsalinn til að mótmæla Kretschmer. Þýskir fjölmiðlar segja að mikil spenna hafi verið í loftinu.
Á fundinum sjálfum fékk Kretschmer að vita að nú væri mælirinn fullur. Kona ein kvartaði undan að geta ekki gengið um götur borgarinnar án þess að vera áreitt af ungum karlkyns hælisleitendum. Karlmaður sagði að börn hans gætu ekki lengur sótt leikvöllinn sín vegna fólks, sem væri ekki þýskt, sem héldi þar til. Annar karlmaður sagði að útlendingar stunduðu augljós fíkniefnaviðskipti í borginni.
„Þið hafið látið tvo menningarheima rekast á og snúið baki við okkur.“ Segir Welt að einn fundargesturinn hafi sagt og hafi síðan farið hörðum orðum um þann mikla straum flóttamanna sem þýsk stjórnvöld hafa tekið við frá 2015.
Það hefur kynt undir reiði fólks að þýskir fjölmiðlar, Welt og Nürnberger Nachrichten, skýrðu frá því í vikunni að annar hælisleitendanna, sem eru grunaðir um fyrrgreint morð, átti eiginlega ekki að vera í Þýskalandi því hann hafði áður sótt um hæli í Búlgaríu. Samkvæmt Dyflinarákvæðinu hefði því átt að senda hann til Búlgaríu 2016 en þýsk yfirvöld aðhöfðust ekkert. Tíminn, sem var til endursendingar til Búlgaríu, rann út og Írakinn er enn í Þýskalandi. Bild segir að maðurinn hafi hlotið fjölmarga dóma í Þýskalandi.
Hægriöfgamenn hafa nýtt málið til mótmæla og til árása á útlendinga. Má þar nefna hrottalega árás á ungan innflytjanda í borginni Wismar í fyrrinót eins og DV skýrði frá.
Þjóðverjum er mjög brugðið vegna ástandsins og stjórnmálamenn hafa keppst um að fordæma ofbeldið, bæði morðið og ofbeldið gegn útlendingum.