Það má segja að þau hafi átt það skilið að vinna í lottóinu, hjónin Patricia og Frank Raffa sem búsett eru í Norður-Karólínu.
Patricia og Frank höfðu komið sér vel fyrir á Jómfrúreyjum þar sem þau áttu fallegt heimili. Hús þeirra gjöreyðilagðist í fyrrahaust þegar fellibylurinn Irma reið yfir.
Fellibylurinn, sem var fimmta stigs þegar hann reið yfir eyjarnar, skildi eftir sig mikla eyðileggingu en alls létust 134 í óveðrinu.
Eftir áfallið brugðu hjónin á það ráð að flytja til Norður-Karólínu þar sem dóttir þeirra er búsett. Á dögunum keyptu þau sér lottómiða fyrir rúmar hundrað krónur í verslun í Arden.
Patricia og Frank ráku upp stór augu þegar í ljós kom að þau höfðu unnið þann stóra, 325 þúsund dali, eða tæpar 35 milljónir króna.
Frank segir við bandaríska fjölmiðla að peningarnir komi sér vel og þeir muni fara í að kaupa nýtt heimili fyrir þau hjónin.