Þetta kemur fram í nýrri skýrslu. Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins er haft eftir Sebastian H. Mernild, prófessor í loftslagsbreytingum, jöklafræðingi og forstjóra Nansencenteret í Bergen í Noregi, að enn einu sinni komi skýrt fram hversu mikilvægt sé að bregðast við núna. Kosturinn við þessa skýrslu sé að í henni sé aðgerðaráætlun sett fram.
Í skýrslunni kemur fram að auka þurfi hlutfall endurnýjanlegrar vistvænnar orku um að minnsta kosti tvö prósent á ári til að hægt verið að draga úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Þetta verður að hefjast fyrir 2035. Ef hlutfallið fer strax upp í fimm prósent kaupum við okkur tíu ár til viðbótar. Þessir útreikningar eru byggðir á upplýsingum úr ýmsum loftslagsreiknilíkönum. Vísindamennirnir segja að niðurstöðurnar rannsóknarinnar séu 67 prósent líklegar til að ganga eftir.
Ef halda á hækkun meðalhita undir 1,5 gráðum 2100 þarf að ganga enn rösklegar til verks. Þá þarf að auka hlutfall grænnar vistvænnar orku um að minnsta kosti fimm prósent á ári og sú aukning þarf að hefjast fyrir 2027.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vísindamenn vekja athygli á þessu máli en nú vonast þeir til að með því að setja fram ákveðin viðmið geti þeir vakið stjórnmálamenn til vitundar um að nú þurfi að bregðast við. Þetta segir Henk Dijkstra, prófessor við Utrecht háskólann í Hollandi, í fréttatilkynningu.