DV skýrði nýlega frá að fangaverði hefði verið vikið frá störfum eftir að í ljós kom að hún virðist eiga í ástarsambandi við Madsen.
Það virðist ekki hafa mikil áhrif á konurnar að Madsen var dæmdur fyrir hrottalegt morð á Kim Wall og að hafa misþyrmt líki hennar og hlutað það í sundur áður en hann sökkti kafbáti sínum. BT segist hafa heimildir fyrir að fjórar konur hið minnsta hafi heimsótt hann í fangelsið að undanförnu. Blaðið segir að flestar konurnar hafi ekki þekkt Madsen áður en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi.
Fangelsismálayfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið og það vildi verjandi Madsen heldur ekki.
Madsen á rétt á að fá heimsókn í eina klukkustund á viku og er hann einn með gesti sínum á meðan.
Madsen var nýlega fluttur úr Storstrøm fangelsinu í Herstedvester fangelsið í Albertslund en það er fangelsi ætlað þeim sem þurfa aðstoð geðlækna og hafa verið dæmdir til langrar fangelsisvistar eða ótímabundinnar. í fangelsinu eru flestir af harðsvíruðust afbrotamönnum landsins en 150 fangar eru í fangelsinu. Margir þeirra glíma við andleg veikindi. Einn þeirra sem sitja í fangelsinu er Peter Lundin sem hefur setið þar síðan 2001 en hann var dæmdur fyrir að hafa myrt sambýliskonu sína og tvö börn hennar. Áður hafði hann setið í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að hafa myrt móður sína. Eins og Peter Madsen hefur Peter Lundin notið kvenhylli eftir að hann var dæmdur í fangelsi og hann hefur kvænst tvisvar á meðan hann hefur setið í fangelsi. Hann er þó fráskilinn núna.