Þýska lögreglan segir að maðurinn hafi verið á heimleið þegar hann var stöðvaður af þremur þýskumælandi mönnum sem létu svívirðingum dynja yfir hann vegna uppruna hans. Hann var síðan sleginn í andlitið af tveimur mannanna og sá þriðji lamdi hann síðan með járnkeðju í axlirnar og rifbeinin. Mennirnir héldu síðan áfram að sparka í manninn eftir að hann hafði fallið til jarðar.
Maðurinn er nefbrotinn og með marga áverka í andliti og á efri hluta líkamans. Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins en enginn hefur verið handtekinn.
Mótmæli og ofbeldisverk hafa sett svip sinn á Þýskaland í vikunni í tengslum við mótmæli hægriöfgamanna í borginni Chemnitz í austurhluta landsins. Þar söfnuðust um 800 hægriöfgamenn saman á sunnudagskvöldið til mótmæla og sögðust ætla að „veiða“ útlendinga. Upptökur frá borginni sýna að ráðist var á marga innflytjendur og þeir beittir ofbeldi og haft í hótunum við þá.
Á mánudaginn kom til átaka á milli um 5.000 hægriöfgamanna og 1.000 til 2.000 vinstriöfgamanna. 20 særðust í átökunum, þar af 2 lögreglumenn.
Mótmælin og ofbeldisaldan hófst í kjölfar morðs í Chemnitz aðfaranótt laugardags en þá var Þjóðverji stunginn til bana. Lögreglan hefur handtekið Sýrlending og Íraka sem eru grunaðir um morðið.
Reiknað er með að mótmælum verði framhaldið í Chemnitz í dag.