Umræðurnar hófust annars á rólegum nótum og fyrst var rætt um menntamál, vinnumarkaðinn og biðlista í heilbrigðiskerfinu. En þegar umræðan um innflytjendamál og aðlögun innflytjenda hófst hvessti heldur betur.
Löfven sagði að sú ringulreið sem ríki í innflytjendamálum sé á ábyrgð Svíþjóðardemókratanna og Jimmie Åkeson.
„Ykkur dreymir um að ef þetta fólk væri ekki hér þá væri allt í góðu lagi. En þið takið þau úrræði frá sveitarfélögunum sem eiga að koma fólkinu í vinnu. Þú ert að plata Jimmie Åkeson.“
Sagði Löfven.
Það stóð ekki á svari frá Jimmie Åkeson:
„Við lögðum stefnuskrá okkar fram í dag en samkvæmt henni eflum við sveitarfélögin og velferðarkerfið miklu meira en jafnaðarmenn vilja gera. Hættu að ljúga. Þið hafi logið mánuðum saman.“
Annie Lööf, formaður Miðflokksins, réðst á Svíþjóðardemókratana fyrir að vilja stöðva móttöku kvótaflóttamanna og fyrir að vilja loka landinu alveg fyrir hælisleitendum. Hún sagði að Jimmie Åkeson útilokaði sjálfan sig frá þessari umræðu því flokkur hans væri ekki með neina stefnu í málaflokknum.
Ulf Kristersson, formaður Moderaterna og forsætisráðherraefni borgaralegu flokkanna, teygði sig til Löfven í umræðunni um útlendingamálin og sagði að málaflokkurinn lamaði sænsk stjórnmál. Hann hvatti til samvinnu og benti á að enginn flokkur myndi fá stefnu sína óbreytta í gegn að kosningum loknum.
Samkvæmt skoðanakönnunum mun jafnaðarmenn fá mest fylgi í kosningunum 9. september eða 25,5 prósent. Þar á eftir fylgja Svíþjóðardemókratarnir með um 19 prósent fylgi.