Expressen skýrir frá þessu í dag en blaðamenn blaðsins hafa farið ítarlega í saumana á öllum frambjóðendum til þings og sveitarstjórna í samvinnu við tímaritið Expo sem einbeitir sér að fréttaflutningi af samtökum hægriöfgamanna og gyðingahatara.
Miðlarnir könnuðu hvort frambjóðendurnir hefðu tekið virkan þátt í starfsemi nýnasista og komust að því að sjö frambjóðendur Svíþjóðardemókratanna hafa gert það. Sumir þeirra hafa þó ekki verið virkir í starfsemi nýnasista í 20 ár. Allir þessir frambjóðendur lýsa sig nú andvíga stefnu nýnasista. Sumir þeirra upplýstu flokkinn ekki um þessa fortíð sína þegar þeir buðu fram krafta sína en segja að hún skipti engu máli varðandi framboð þeirra.
Jimmie Åkesson formaður flokksins sló því föstu í vor að flokkurinn, sem er þjóðernissinnaður íhaldsflokkur sem er gagnrýnin á ESB og innflytjendastefnuna, geri skýran greinarmun á nasisma og þjóðernishyggju. Hann sagði að nasismi væri andlýðræðislegur, sósíalískur, rasískur og byggður á heimsvalda hugmyndafræði sem eigi ekkert erindi í lýðræðissamfélagi.
Expressen hefur eftir honum að hann þekki ekki til allra þeirra mála sem blaðið fjallar um í dag. Hann sagði jafnframt að fólk ætti geta þróað skoðanir sínar og stefnu eftir því sem tíminn líður. Það að einhver hafi gert eitthvað heimskulegt áður fyrr í lífinu þýði ekki sjálfkrafa að viðkomandi geti ekki tekið þátt í stjórnmálum síðar.