Ættingjar Adam byrjuðu fljótlega að koma heim til hans til að votta samúð sína og syrgja hann. Skyndilega greip Stanley Janus, bróðir Adam, um brjóst sér og hneig niður og lést. „Það kom froða út úr munni hans. Augun voru á hvolfi.“ Sagði Joseph.
Í annað skipti þennan dag kom sjúkrabíll að heimili Adam. Hann var rétt kominn þegar Theresa Janus, eiginkona Stanley, hneig niður og lést.
Yfirvöld settu húsið í einangrun og hjúkrunarkona bæjarins var látin rannsaka það. Hún fann aðeins eitt sem hún tengdi við þau látnu. Dollu af verkjalyfinu Tylenol. Í ruslinu fann hún kvittun fyrir kaupum á lyfinu en það hafði verið keypt fyrr um morguninn. Hún var strax sannfærð um að eitthvað væri að verkjalyfinu.
Rannsókn leiddi í ljós að blásýru hafði verið bætt í lyfið. Blásýra lokar á getu líkamans til að nota súrefni og veldur bráðum dauða. Það getur verið banvænt að innbyrða örlítið magn af eitrinu.
Málið varð þekkt sem Tylenol-morðin að því er segir í umfjöllun CNN.
Almenningur var strax varaður við að nota lyfið og Johnson & Johnson, framleiðandi þess, innkallaði 31 milljón pakkningar af lyfinu. Fyrirtækið hét 100.000 dollurum í verðlaun fyrir upplýsingar um hver gæti hafa sett blásýru í lyfið. Innihald 1,5 milljónar pakkninga var rannsakað og fundust þrír pakkar með blásýru blönduðu verkjalyfi í. Í heildina hafði blásýru því verið bætt í 10 pakkningar. Málið er enn óleyst og ekkert sem bendir til að það muni nokkru sinni leystast. Auk fjölskyldumeðlimanna þriggja sem fyrr er getið létust fjórir til viðbótar, þar á meðal 12 ára stúlka.
Málið hafði mikil áhrif á lyfjaiðnaðinn því bandaríska lyfjaeftirlitið gaf í kjölfarið út fyrstu reglur sínar um hvernig lyfjaumbúðir ættu að vera úr garði gerðar til að ekki væri hægt að eiga við lyfin eftir að þeim hafði verið pakkað. Þetta lagði grunninn að lyfjaumbúðum eins og við þekkjum þær í dag.