Jonathan Leman, hjá Expo (samtaka sem berjast gegn rasisma) segir að nýnasistarnir hafi nú fundið leið til að vekja athygli á sér. Mótmæli í miðborg höfuðborgarinnar dragi að sjálfsögðu fréttamenn að sér og það auki athyglina sem nýnasistarnir fá. Aftonbladet hefur þetta eftir honum.
Heléne Lööw, sem rannsakar hreyfingar nýnasista og þjóðernissinna, segir að NMR hafi látið mikið að sér kveða undanfarið. Nú séu samtökin sýnilegri og að þau séu farin að laða til sín fólk úr þjóðfélagshópum sem hafi ekki aðhyllst stefnu þeirra fram að þessu. Þar nefnir hún til sögunnar konur og eldra fólk.
Sænska öryggislögreglan Säpo hefur einnig veitt auknum umsvifum NMR athygli en segir að þess megi vænta á kosningaári en þingkosningar verða í Svíþjóð þann 9. september.
Nú standa yfir réttarhöld í Svíþjóð yfir liðsmanni NMR sem er ákærður fyrir að hafa ætlað að myrða tvo blaðamenn. Hér er hægt að lesa umfjöllun DV um það mál.