BBC skýrir frá þessu. Við rannsókn fannst ekkert að bílnum og það eina sem stakk í stúf var að í farangursrými hans var loftlaus jógabolti.
Réttarhöld í málinu hófust þann 22. ágúst. Prófessorinn, sem er svæfingarlæknir og kennari við kínverska háskólann í borginni, er sagður hafa myrt mæðgurnar á yfirvegaðan og úthugsaðan hátt. Saksóknari segir að hann hafi komið boltanum, fullum af koltvísýringi, fyrir í farangursrýminu til að myrða eiginkonu sína. Hann vildi ryðja henni úr vegi því hann átti í ástarsambandi við stúdent í háskólanum og vildi skilja við eiginkonu sína en hún tók það ekki í mál.
Saksóknari telur að prófessorinn hafi ekki ætlað að bana dóttur sinni en hún átti að vera í skóla þegar mæðgurnar voru myrtar.
South China Morning Post segir að prófessorinn sé talinn hafa orðið sér úti um koltvísýringinn með því að búa til falskt rannsóknarverkefni. Hann sagði samstarfsmönnum sínum að hann væri að vinna að rannsókn á hversu hreinn koltvísýringurinn væri og hvaða áhrif hann hefði á kanínur. Samstarfsmenn hans sáu hann fylla tvo jógabolta með koltvísýringi.
Hann sagði lögreglunni hins vegar að hann hefði farið með jógaboltana heim til að drepa rottur í húsinu. Húshjálpin sagði lögreglunni hins vegar að það hefðu aldrei verið rottur í húsinu.
Prófessorinn neitar sök.