Lögreglan í Denver rannsakar dauða níu ára drengs, James Myles, sem sjálfsvíg eftir að pilturinn fannst látinn. James byrjaði í fjórða bekk við Joe Shoemaker-skólann í Denver á mánudag í síðustu viku.
James er sagður hafa verið lagður í hrottalegt einelti sem varð til þess að hann svipti sig lífi á fimmtudag. Móðir piltsins, Leia Pierce, segir við KDVR að James hafi komið út úr skápnum í sumar. Hann sagði móður sinni að hann væri samkynhneigður og segir Leia að hún hafi sýnt syni sínum stuðning og kærleik í kjölfarið.
Þá segir Leia að James hafi verið staðráðinn í að segja skólafélögum sínum að hann væri samkynhneigður því hann væri stoltur af sjálfum sér. Leia segir að hún hafi rætt þetta við son sinn og sagt honum að hún elskaði hann enn, hann hafi augljóslega verið kvíðinn þegar hann sagði henni frá kynhneigð sinni og óttast viðbrögðin frá henni.
Fyrsta daginn er hann sagður hafa komið með gervineglur í skólann. Það virðist hafa farið fyrir brjóstið á ungum skólafélögum hans sem eru sagðir hafa hvatt hann til að svipta sig lífi.
Í frétt Washington Post kemur fram að skólayfirvöld í Denver séu að rannsaka málið.
„Þetta tók bara fjóra daga. Ég er sorgmædd yfir því að hann hafi ekki komið og talað við mig,“ segir Leia sem frétti ekki af því fyrr en eftir dauða sonar síns að skólafélagar hans hafi hvatt hann til að svipta sig lífi.