Í kjölfar andláts hjónanna ákvað breska ferðaskrifstofan Thomas Cook að flytja alla 301 viðskiptavini sína af hótelinu til öryggis. Í umfjöllun Sky um málið er haft eftir dóttur hjónanna, Kelly Ormerod, að hún hafi fundið þau bæði mikið veik í herberginu. Dóttir hennar fór með afa sínum og ömmu í herbergið kvöldið áður eftir að þau höfðu snætt saman. Stúlkan sagði að þau hafi fundið einhverja lykt í herberginu sem átti ekki að vera.
„Þau úðuðu smávegis ilmvatni til að reyna að losna við lyktina.“
Sagði Ormerod.
Þegar foreldrar hennar mættu ekki í morgunmat næsta dag fór Ormerod til að athuga með þau.
„Um leið og ég opnaði dyrnar sá ég að faðir minn var mjög veikur en hann var að staulast aftur í rúmið.“
Hann sagði henni að honum liði „mjög, mjög illa“. Móðir hennar lá í rúminu. Læknar voru fengnir á hótelið. Þeir hófust strax handa við endurlífgun á föður hennar en hún bar ekki árangur. Móðir hennar var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést skömmu síðar.
Ormerod sagði að hún telji ekki að hægt sé að kenna einhverjum einstökum um lát foreldra sinnar.
„Ég held að þegar þau fóru aftur í herbergið sitt þetta kvöld hafi eitthvað verið í herberginu sem varð þeim að bana – hvort þau önduðu einhverju eitruðu að sér veit ég ekki. Ég get bara haft mína skoðun á hvað gerðist en eitthvað, sem varð foreldrum mínum að bana, gerðist í þessu herbergi.“
Sérfræðingar á vegum Thomas Cook ferðaskrifstofunnar tóku sýni af mat og drykk á hótelinu og rannsökuðu aðstæður þar. Sýni hafa verið send til greiningar og er niðurstaðna að vænta í næstu viku.