En nú hafa hrapparnir fundið nýja leið til að reyna að svíkja fé út úr fólki. Þetta segir í aðvörun sem lögreglan á Mið- og Vestur-Jótlandi birti nýlega á Twitter. Kona hafði samband við lögregluna eftir að hafa lent í þessari nýju aðferð.
Konan var að nota tölvuna sína til að leita að mataruppskriftum á netinu. Skyndilega heyrðist mjög hátt hljóð í tölvunni. Neðst á skjánum birtist síðan blár kassi sem konan var hvött til að ýta á ef hún vildi slökkva á þessu háværa hljóði. Það gerði konan og þá birtist númer á skjánum sem hún átti að hringja í til að leysa vandamálið með aðstoð starfsmanna Microsoft. Í samtalinu við „starfsmann“ Microsoft veitti hún honum aðgang að tölvu sinni og skýrði frá persónulegum upplýsingum á borð við greiðslukortaupplýsingar. Að samtalinu loknu sótti ákveðinn efi að konunni og hún setti sig í samband við lögregluna sem ráðlagði henni að loka öllum greiðslukortum sínum samstundis.
Það er því vissara að taka því rólega ef mikill hávaði fer að berast frá tölvunni þinni. Það gæti verið að tölvuþrjótar séu að reyna að fá þig til að láta persónulegar upplýsingar af hendi.