Óhætt er að segja að lögregluyfirvöld í Arizona í Bandaríkjunum hafi rekið upp stór augu þegar húsleit var gerð í húsi einu sem eitt sinn hýsti útibú kjúklingakeðjunnar KFC.
Húsið sem um ræðir er í borginni Yuma en í eldhúsi staðarins mátti finna inngang að tæplega tvö hundruð metra jarðgöngum sem notuð voru til að smygla fíkniefnum frá Mexíkó til Bandaríkjanna, heróíni, metamfetamíni, kókaíni og fentanýl til dæmis.
Jarðgöngin náðu alla leið undir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó og enduðu þau undir rúmi í húsi í San Luis Colorado í Mexíkó.
Göngin uppgötvuðust eftir að lögregla stöðvaði bifreið manns að nafni Ivan Lopez þann 13. ágúst síðastliðinn. Í bifreiðinni fundust tugir kílóa af fíkniefnum sem metin eru á hundruð milljóna. Við rannsókn málsins kom í ljós að Lopez þessi hafði keypt húsið sem eitt sinn hýsti KFC-veitingastaðinn. Það gerði hann í apríl síðastliðnum og greiddi 390 þúsund dali fyrir.
Lögregla framkvæmdi húsleit í kjölfarið til að kanna hvort þar mætti finna fíkniefni og það var þá sem göngin fundust. „Það hefur tekið þá langan tíma að útbúa göngin og framkvæmdirnar hafa verið mjög dýrar,“ segir yfirmaður rannsóknarinnar í samtali við bandaríska fjölmiðla.