fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Neytendur

Páskaeggjasmökkun DV: Þetta eru bestu páskaeggin

Egg með sérstöðu sköruðu fram úr – Of mikil einsleitni í páskeggjaflórunni – Lakkrísinn misvinsæll

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. apríl 2017 09:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Of mikil einsleitni er í íslensku páskaeggjaflórunni og það dugar ekki alltaf að henda bara vinsælu sælgæti út í súkkulaðið og setja á markað í nýjum umbúðum. Þetta er niðurstaða fimm manna dómnefndar DV sem bragðaði á 22 páskaeggjum frá þremur íslenskum framleiðendum í árlegri páskaeggjasmökkun DV. Þetta endurspeglast líka í niðurstöðum dómnefndar þar sem egg sem hafa ákveðna sérstöðu eða brydda upp á tilteknum nýjungum urðu hlutskörpust. Aldrei þessu vant var það egg úr hvítu súkkulaði sem hafði nokkra yfirburði og vann á endanum sannfærandi sigur. Lindu Lindor hvíta súkkulaðieggið frá Góu er ljúffengt, vel heppnað og brýtur upp hina einsleitu flóru lakkrísblönduðu súkkulaðieggjanna að mati dómnefndar. Svona koma páskaeggin út í ár.

Blint bragðpróf

DV setti saman fimm manna dómnefnd sem beið það verðuga og krefjandi verkefni að smakka og dæma 22 tegundir af páskaeggjum frá Nóa Síríus, Góu og Freyju. Framleiðendum var boðið að taka þátt og lögðu þeir til eggin í smökkunina. Um blint bragðpróf var að ræða og vissu dómarar því ekki hvaða egg, frá hvaða framleiðanda þeir voru að smakka á. Eggin voru borin fram á númeruðum diskum en röð eggjanna var af handahófi og hélt blaðamaður vandlega utan um skrásetningu hvers eggs. Með eggjunum var boðið upp á ískalda mjólk, sem flestir dómarar voru sammála um að væri ómissandi liður í páskaeggjaáti, gos og páskaöl.

Frá vinstri: Haukur, Eva Laufey, Bylgja, Kristján og Björn. Öll með tölu kröfuharðir súkkulaði- og sælgætisgrísir sem gáfu engan afslátt.
Dómnefndin Frá vinstri: Haukur, Eva Laufey, Bylgja, Kristján og Björn. Öll með tölu kröfuharðir súkkulaði- og sælgætisgrísir sem gáfu engan afslátt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mikil ábyrgð

Dómnefndina í ár skipuðu þau Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, dagskrárgerðarkona og súkkulaðifíkill að eigin sögn, Björn Þorfinnsson, blaðamaður DV og sjálftitlaður nammigrís, Haukur Dór Bragason, athafnamaður og séntilmenni, Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri ÍNN og sælkeri, og Bylgja Babýlons, uppistandari og sérlegur andstæðingur lakkríss – eins og lesa má á umsögn hennar um eggin.
Dómnefndinni var gerð grein fyrir því fyrirfram að dómaratigninni fylgdi mikil ábyrgð enda væri hún nú sest við stýrið á neysluhegðunarskútu Íslendinga fyrir páskana.

Haukur, Eva Laufey og Bylgja kryfja súkkulaðieggin til mergjar í hverjum bita.
Djúpar pælingar Haukur, Eva Laufey og Bylgja kryfja súkkulaðieggin til mergjar í hverjum bita.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

DV aðstoðar óákveðna

Þótt margir Íslendingar séu vanafastir og haldi tryggð við „sitt egg“ ár eftir ár þá hefur framboð páskaeggja aukist gríðarlega á umliðnum árum. Samhliða því hefur því vafalaust fjölgað í hópi þeirra sem eru óákveðnir. DV er ávallt í liði með neytendum og lagði það því á dómara að taka á sig það álag sem fylgir því að sitja og borða súkkulaði í þágu almennings í landinu. Blaðamaður mælir með að framleiðendur leiti til áðurnefndra dómara fyrir næstu páska, þar sem þeir höfðu margar áhugaverðar og spennandi hugmyndir að páskaeggjum sem vafalaust myndu slá í gegn. DV færir dómnefndinni bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf, enda þótt það hljómi vel þá er meira en að segja það að borða svona mikið súkkulaði í einni lotu. Það geta dómarar, sem stóðu á blístri, vitnað um.
Gleðilega páska og gefum dómnefndinni orðið.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

1. – Lindu Lindor hvítt súkkulaðiegg (Góa)

Eva Laufey: „Stenst allar mínar væntingar varðandi hvítt súkkulaði. Ljúffengt.“
Björn: „Ferskt og brýtur upp súkkulaðiveisluna. Það vantar ekki meira súkkulaði í kroppinn.“
Haukur: „Ferskt og gott. Vel heppnað hvítt súkkulaði, minnir svolítið á Kinder-egg.“
Kristján: „Lindor er bara nostalgískt og nærir sálina.“
Bylgja: „Hvítt súkkulaði bregst aldrei. Mig langar að biðla opinberlega til sælgætisframleiðenda um að vera ekki að setja lakkrís í það. Plís.“

Meðaleinkunn: 8


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

2.– Nói Síríus Karamellupáskaegg

með íslensku sjávarsalti

Eva Laufey: „Ó, elsku súkkulaði og salt. Príma!!“
Björn: „Karamelluoverkill. Byrjaði vel en endaði illa.“
Haukur: „Pínu klassi yfir þessu eggi, myndi borða það í slopp með píanótónlist í bakgrunni.“
Kristján: „Spariegg til að snæða við sjávarsíðuna.“
Bylgja: „Karamellu-saltbragðs-fullkomnun og bara mjög fín stemming í gangi allan hringinn.“

Meðaleinkunn: 7,1


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

3.– Góa Appolo með piparfylltum lakkrís

Eva Laufey: „Já! Þetta er egg sem sameinar það sem Íslendingum þykir best. Lakkrís, súkkulaði og pipar.“
Björn: „Piparfyllt. Veröldin er aðeins bjartari.“
Haukur: „Eitthvað nýtt. Piparinn gerir mikið fyrir þetta. Súkkulaðið frekar „basic“ en heildarbragðið öðruvísi en hinna.“
Kristján: „Pipartískan poppar partíið í munninum, en þetta er spari.“
Bylgja: „Lakkrísinn dregur þetta niður, en piparinn dregur þetta upp í einn.“

Meðaleinkunn: 7


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

4.–5. Nói Síríus Páskaegg með konfekti

Eva Laufey: „Súkkulaði með dass af mintu. Ég er heimtufrek á fullkomið jafnvægi og væri til í meira mintubragð.“
Björn: „Ég veit ekki hvaða bragð þetta er en ég held að mér finnist það gott. Kannski aðeins of sætt.“
Haukur: „Flippegg fyrir fullorðna. Minta sem gefur gott aukabragð án þess að vera yfirgnæfandi.“
Kristján: „Ekki að virka, þótt ég sé piparmintufan.“
Bylgja: „Mjög fínt og skemmtilegt piparmintu eða eitthvert eftirbragð sem ég veit samt ekki hvort er gott eða vont. Ágætt bara, held ég.“

Meðaleinkunn: 6,8


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

4.–5. Freyja Rísegg með saltkaramellubragði

Eva Laufey: „Þú getur ekki beðið eftir næsta bita!“
Björn: „Crunchy-salt, jömmí! Þetta er að gera sig.“
Haukur: „Flott fyrir þá sem eru hrifnir af salti og gömlu morgunkorni í súkkulaði.“
Kristján: „Þetta borðar maður með ódýru rauðvíni í einrúmi.“
Bylgja: „Gott bragð en of stutt. Alveg eins og mega næs gæi sem ég hitti einu sinni á Spáni.“

Meðaleinkunn: 6,8


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

6. – Góa Appolo með fylltum lakkrís

Eva Laufey: „Ekkert spes að gerast og súkkulaðið ekki sérlega gott.“
Björn: „Gervibragð og fylltur lakkrís. Ég er seldur.“
Haukur: „Fylltar reimar = góðar. Sama súkkulaðið alltaf –æi kommon!“
Kristján: „Hér er vaðandi klassískur Appolo-fílingur sem speisar þetta upp.“
Bylgja: „Alger ævintýraferð fyrir bragðlaukana þar sem þeir verða í fyrstu óttaslegnir vegna lakkrísbragðs, en síðan ógeðslega glaðir þegar þeir fatta að þetta eru fylltar reimar.“

Meðaleinkunn: 6,3


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

7. – Freyja Rísegg með rískúlum

Eva Laufey: „Það vantar eitthvað meira í þetta egg.“
Björn: „Þetta er mjög fínt.“
Haukur: „Handboltarokk páskaeggjanna. Alfarið laust við metnað og frumleika.“
Kristján: „Ég myndi splæsa svona á börnin. Hressandi og heimilislegt.“
Bylgja: „Fínt súkkulaði en óspennandi rís-kurl sem lofar fullnægingu í byrjun en panikkar og getur ekki staðið við gefin loforð og tekur leigubíl heim snemma.“

Meðaleinkunn: 6,2


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

8. – Góa Hraun

Eva Laufey: „Súkkulaðibragðið mætti vera meira og betra.“
Björn: „Þarna erum við að tala saman. Rísinn er fínt mótvægi við sætuna.“
Haukur: „Þetta er ekki að gera neitt fyrir mig.“
Kristján: „Heilmikill rísandi í þessu en sætubragðið of frekt.“
Bylgja: „Nógu „crunchy“ til að vera áhugavert en samt líka bara dálítið venjulegt.“

Meðaleinkunn: 6,1


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

9. – Freyja Eðluegg

Eva Laufey: „Ég er ekki nógu hrifin af þessu eggi. Bragðið ekki sérstakt.“
Björn: „Örlítið gervibragð. Það er ekki endilega neikvætt.“
Haukur: „Ekkert nýtt undir sólinni. Heiðarlegt egg.“
Kristján: „Mjög „safe“ egg. Engin læti, bara öryggi.“
Bylgja: „Mjög fínt bara.“

Meðaleinkunn: 5,9


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

10. – Nói Síríus með Nóa Kroppi

Eva Laufey: „Nóa Kropp er í uppáhaldi og þess vegna er þetta egg æði.“
Björn: „Nóa Kroppurinn! Þetta er samt aðeins of sætt. Það vantar ekki meira súkkulaði á Kroppinn.“
Haukur: „Nóa Kropp er vont. Páskaegg með Nóa Kroppi er hins vegar … líka vont.
Kristján: „Mjólkursúkkulaði með stóru emmi. Vantar choko.“
Bylgja: „Bara fínt + Nóa Kropp. Engir stælar eða leiðindi. Bara chill.“

Meðaleinkunn: 5,8


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

11.– Nói Síríus

Eva Laufey: „Einfalt bragð, skilur ekki mikið eftir.“
Björn: „Kallar fram bernskuminningar. Þetta hlýtur að vera King Nói, nema ævi mín sé hulin móðu.“
Haukur: „Eftirbragð sem skilur mann eftir svikinn og einmana.“
Kristján: „Bragðast pínu ódýrt en eftirbragðið gefur pínu „sweet emotion“.“
Bylgja: „Allt það sem páskaegg á að vera: Súkkulaðibragð. Solid.“

Meðaleinkunn: 5,6


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

12.–13. Nói Síríus Grettisegg

Eva Laufey: „Krakkaegg myndi ég segja (fullorðið fólk mun líka kaupa þetta).“
Björn: „Fyrir börnin – of sætt fyrir mig.“
Haukur: „Ekki fyrir fullorðna. Bannað yfir 18.“
Kristján: „Ljómandi fínt krakkaegg. Smart að hafa Smarties.“
Bylgja: „Fínt súkkulaði. Smartísinn tekur þetta á gott level.“

Meðaleinkunn: 5,2


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

12.–13. Nói Síríus 45% dökkt súkkulaði

Eva Laufey: „Kannski of sætt fyrir dökkt dúkkulaði en mjög fínt engu að síður.“
Björn: „ Sætt suðusúkkulaði. Skítsæmilegt.“
Haukur: „Geta íslenskir sælgætisframleiðendur í alvöru ekki gert áhugavert dökkt súkkulaði?“
Kristján: Sætt, sykrað og dökkt. Passar ekki en virkar í eggi.“
Bylgja: „Virkar örugglega með mjög dökkum bjór. En ekki með kóki, mjólk eða lofti.“

Meðaleinkunn: 5,2


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

14.– Góa

Eva Laufey: „Einfalt, bragðgott og klassískt.“
Björn: „Solid mjólkursúkkulaðiegg. Nokkuð fínt.“
Haukur: „Rosalega lítið súkkulaðibragð að þessu súkkulaði.“
Kristján: „Mjög áberandi súkkulaðileysi. Hvar er kakóbaunabragðið?“
Bylgja: „Svo venjulegt að mig langaði ekki einu sinni í mjólk.“

Meðaleinkunn: 4,8


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

15.– Freyja sterkt Djúpuegg

Eva Laufey: „Pipareftirbragðið yfirgnæfir súkkulaðibragðið. Er ekki nógu hrifin af þessu eggi.“
Björn: „Þarna missir piparinn smá marks. Eftirbragðið reddar.“
Haukur: „Ekki nógu góð afgreiðsla á piparhæpinu.“
Kristján: „Piparlakkrísinn er frekur hér. Ræðst á súkkulaðið og myrðir það.“
Bylgja: „Lakkrís er bara ekki góður og um leið og restin af þjóðinni uppgötvar það getum við farið að hafa áhrif á alþjóðavettvangi.“

Meðaleinkunn: 4,7


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

16.– Góa Appolo með lakkrís

Eva Laufey: „Ágætis lakkrísbragð.“
Björn: „Þetta er bara ágætt, örugglega Appolo.“
Haukur: „Óspennandi súkkulaðilakkrískombó.“
Kristján: „Hér er stemming en það vantar mýkt.“
Bylgja: „Þarf alltaf að vera lakkrís? Hvað er að þessu þjóðfélagi? Hafa kapitalísk öfl ekkert betra að gera en að troða lakkrís í smettið á óbreyttum borgurum?“

Meðaleinkunn: 4,5


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

17.–18. Freyja Draumaegg

Eva Laufey: „Ég elska súkkulaði og lakkrís, en það hefði mátt bæta við meiri lakkrís.“
Björn: „Þarna má greina úrvalslakkrís sem bætir allt.“
Haukur: „Sama gamla súkkulaðið með örlitlum lakkrís – vonbrigði.“
Kristján: „Lakkrískurlið of hart og skapar ekki rétta stemmingu.“
Bylgja: „Fær núll. Bara vegna þess að mér finnst lakkrís vondur og er allt í einu í þeirri stöðu að hafa áhrif á neyslu fólks.“

Meðaleinkunn: 4,4


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

17.–18. Freyja Ævintýraegg

með ævintýrakúlum

Eva Laufey: „Ég gæti alveg maulað á þessu. Súkkulaði og súkkulaðiperlur. Góð blanda!“
Björn: „Þetta er dísætt. Fínt en ég gæti ekki borðað fleiri bita.“
Haukur: „Kommon, það er bara ekki hægt að blanda hverju sem er í páskaegg.“
Kristján: „Ljómandi hressandi en of væmið fyrir hádegi.“
Bylgja: „Of mikið að reyna að vera hip og kúl. Svona eins og þegar fólk reynir að grilla lúðu.“

Meðaleinkunn: 4,4


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

19.– Freyja dökkt sælkerasúkkulaði

Eva Laufey: „Fullkomið með ískaldri mjólk.“
Björn: „Þarna erum við komin í aðeins hollari útgáfu. Mistök.“
Haukur: „Suðusúkkulaðiegg? WTF!“
Kristján: „Þetta er ágætis bökunarpáskaegg, en ekki nothæft í annað.“
Bylgja: „Bara svona dökkusúkkulaðiegg. Ef þér finnst dökkt súkkulaði gott þá bara finnst þér það gott og þá finnst þér þetta örugglega gott, en mér finnst það ekki.“

Meðaleinkunn: 3,7


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

20. – Nói Síríus Lakkríspáskaegg

Eva Laufey: „Ágætis egg, of lítið lakkrísbragð og skilur ekkert eftir.“
Björn: „Þessi lakkrís er ekkert sérstakur.“
Haukur: „„Hei, gerum egg með lakkrís en höfum hann rosalega vondan!“ – „Já, góð hugmynd, Hannes!““
Kristján: „Skot í myrkri, langt framhjá.“
Bylgja: „Súkkulaðið er gott. Virkilega sorglegt að einhver hafi hent lakkrís í það.“

Meðaleinkunn: 3,5


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

21. – Nóa Síríus Lakkrís karamelluperlur

Eva Laufey: „Ekki nógu bragðgott egg. Ég myndi jú klára það en kaupi það ekki aftur.“
Björn: „Fylltur lakkrís. Ég veit ekkert lengur.“
Haukur: „Bragðdauft aukaefni. Mjeh.“
Kristján: „Ekki gott stöff.“
Bylgja: „Bévítans lakkrís!“

Meðaleinkunn: 3,4


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

22.– Freyja Sælkeraegg án viðbætts sykurs

Eva Laufey: „Þetta er ekki egg að mínum smekk. Það vantar eitthvað!“
Björn: „Ég er ekki með ofnæmi fyrir neinu og því hef ég aðra valkosti.“
Haukur: „Þetta getur ekki verið fyrir fólk sem má borða súkkulaði – það finnst mjög greinilega.“
Kristján: „Ágætis tilraun til dekkingar en meltist hægt og þyrstir mann.“
Bylgja: „Örugglega eitthvað fyrir ofnæmisfólk. Ef ekki þá hatar framleiðandinn okkur öll og vill að við kveljumst.“

Meðaleinkunn: 2,9


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
06.05.2019

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“