Hostelvæðing grasrótarinnar

Er ferðamannaiðnaðurinn að gera út af við grasrótina?

Nýlega bárust fréttir af hugmyndum lóðaeiganda um að breyta húsaþyrpingunni sem nú hýsir Húrra, Gamla Gaukinn og þrjá aðra skemmti- og tónleikastaði í starfsemi sem tengdist ferðamönnum. Um svipað leyti bárust fréttir af því að eigendur hótels hefðu kvartað yfir hávaða frá nýuppgerðum tónleikastað í Gamla Bíói, við Ingólfsstræti. Á samfélagsmiðlum bölvuðu listamenn túristum og skapandi fólk var byrjað að teikna upp átakalínur: grasrótin gegn ferðamannaiðnaðinum.

Þó að ekki sé ljóst að nokkuð verði úr ómótuðum hugmyndum í kolli lóðareigandans eða hvernig hávaðadeilurnar verði leystar virtust fréttirnar staðfesta þá tilfinningu margra að of hraður vöxtur í ferðamannaiðnaði myndi óhjákvæmilega leiða til átaka við þá menningu sem fyrir er í borginni. Myndi gullgrafaraæði í ferðamannaiðnaði um leið grafa undan lífvænlegu umhverfi reykvísku grasrótarinnar í tónlist – grasrót sem hefur getið af sér heimsfræga listamenn sem hafa hjálpað iðnaðinum við að laða ferðamenn til landsins.

En hver er þessi grasrót? Er henni raunverulega ógnað af ferðamannaiðnaðinum, eða hefur hann þvert á móti aukin tækifæri í för með sér – eða kannski hvort tveggja? DV ræddi við nokkra aðila sem þekkja vel til senunnar og fékk álit þeirra á ástandinu.

Nýsköpun og tilraunamennska í grasrótinni

Þegar talað er um grasrót í listalífi er átt við sjálfsprottin samfélög og óformleg tengslanet skapandi einstaklinga með ákveðna listræna tjáningu sem miðpunkt.

Slíkar senur verða til fyrir utan opinberar stofnanir og hefðbundin fyrirtæki, á jaðrinum og í glufunum, þar sem fyrirfinnst meira frelsi til óheftrar tilraunamennsku bæði í list og lífsháttum. Sögulega hafa þær yfirleitt verið staðbundnar en fyrir tilstilli internetsins eru þær nú í ríkara mæli bundnar við stafræna vefi frekar en landfræðilega staði.

Það er yfirleitt í slíkum senum sem áhugaverðustu nýjungarnar í menningunni fæðast og mesta nýsköpunin á sér yfirleitt stað. Grasrótin er ekki bundin við ákveðna einstaklinga, staði eða hópa, og þegar listamenn úr senunni öðlast vinsældir fjarlægast þeir hana yfirleitt smám saman og nýir koma í þeirra stað.

Undanfarna áratugi hefur Ísland getið af sér óvenjulega marga vinsæla popptónlistarmenn á heimsvísu miðað við hina alræmdu höfðatölu. Ein af fjölmörgum kenningum um ástæður þess er virkni og umhverfi íslensku tónlistarsenunnar, sem margir hafa nú áhyggjur af.

Gróska í subbulegu skítapleisi

Arnar Eggert Thoroddsen vinnur um þessar mundir að doktorsverkefni í popptónlistarfræðum um íslenskt tónlistarsamfélag og aðstæður til tónlistarsköpunar í landinu. Það liggur því beinast við að spyrja hann hvaða aðstæður hafi verið til staðar sem hafa gert íslensku grasrótina svo lífvænlega undanfarna áratugi?

„Þorpsástandið“ hér er jákvætt að því leytinu til að boðleiðir eru stuttar og greiðar, almennar reddingar á síðustu stundu, til dæmis aðgangur að fjölmiðlum, og það auðveldar fólki að koma hlutum í verk á stuttum tíma.

„Ísland græðir fyrst og fremst á fámenninu. „Þorpsástandið“ hér er jákvætt að því leytinu til að boðleiðir eru stuttar og greiðar, almennar reddingar á síðustu stundu, til dæmis aðgangur að fjölmiðlum, og það auðveldar fólki að koma hlutum í verk á stuttum tíma. Þegar fólk sér árangur fljótt er það hvetjandi upp á fleiri verkefni. Fólk verður vart við þetta í nærumhverfinu og hermir eftir. Það útskýrir þessar tiltölulega stóru og virku senur miðað við fólksfjölda. Það er erfiðara að segja til um þjóðarkarakter, hvort eitthvað sé í vatninu og svo framvegis. Það virðist þó vera jákvætt hópefli hér sem skilar árangri. En svo eru neikvæðar hliðar á þessu líka: lítið samfélag getur verið kæfandi, einsleitt og heftandi líka,“ segir Arnar Eggert.

Í grein sem birtist í fræðitímaritið Cultural Sociology í mars á þessu ári kemst dr. Nick Prior, kennari við félags- og stjórnmálafræðiskor Edinborgarháskóla, að svipaðri niðurstöðu. Hún álítur að smæð Reykjavíkur skapi landfræðilegar kjöraðstæður fyrir líflega tónlistarsenu. Hún segir að miðbærinn ýti undir náin tengsl ólíkra listamanna og landfræðilega stuttar boðleiðir skapi virka og frjóa grasrótarsenu.

Bob Cluness, tónleikahaldari og tónlistargagnrýnandi á Reykjavík Grapevine, telur að minnsta kosti tvær nátengdar ástæður fyrir því að Reykjavík hafi náð að halda úti frjórri grasrótarsenu svo lengi. Annars vegar segir hann að Reykjavík hafi verið „ef við orðum hlutina umbúðalaust, frekar subbulegt skítapleis.“ Hann telur að úthverfavæðing á áttunda áratugnum hafi gefið listatýpum nóg pláss í miðborginni, vegna tiltölulega lágs leigu- og íbúðaverðs. „Ef maður skoðar sögu annarra grasrótarsena annars staðar í heiminum sér maður að þetta er þeim yfirleitt sameiginlegt. Ódýr staður til að búa, leika og skapa er yfirleitt ein af grunnstoðunum.“ Hins vegar nefnir hann þá staðreynd að fáir utan landsins hafi verið meðvitaðir um hvað væri í gangi í menningarlífi landsins. „Það átti sér ekki stað nein skipuleg eða strategísk kynning á íslenskri tónlist og menningu erlendis plönuð ofan frá.“ Hann segir að á undanförnum árum hafi þetta breyst með Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslandsstofu og meðvituðum tilraunum yfirvalda til að kynna þjóðina erlendis.

Þörf fyrir minni óformlegan vettvang

Á undanförnum árum hefur tónlistarhúsið Harpa verið vítamínsprauta í ýmsa anga íslensks tónlistarlífs, Sinfóníuhljómsveitin og Íslenska óperan hafa dafnað í Eldborg og reglulega er uppselt á ýmsa heiðurs- og „tribute“-tónleika. Allir viðmælendur DV eru þó sammála um að grasrótarsena geti aldrei þrifist innan slíkrar stofnunar, bæði vegna þess kostnaðar sem fylgir tónleikahaldi í húsinu og einfaldlega vegna þess að slíkar senur þurfi á óformlegri og frjálslegri vettvangi að halda.

Grasrótin þrífst oftar en ekki á litlum og óformlegum vettvangi, sem er opinn fyrir óvæntum uppákomum án utanaðkomandi skipulags, gefur pláss fyrir sköpunarkraftinn utan sem flestra regluramma – og kannski umfram allt á stöðum sem byggja ekki á arðsemiskröfu fyrir hverja tónleika.

Það er ómögulegt halda nákvæmar tölur yfir tónleikastaði sem þjóna grasrótinni, því þeir birtast í raun hvar sem mögulegt er að koma fyrir trommusetti og mögnurum (eða tölvu og tveimur hátölurum). En virkustu tónleikastaðir grasrótarinnar um þessar mundir eru líklega Gamli Gaukurinn, Húrra, Bar 11, Dillon, KEX Hostel, Loft Hostel, Mengi, Café Rosenberg og Gamla bíó.

Enginn viðmælenda DV vill staðhæfa nokkuð um raunverulega fækkun tónleikastaða í miðborginni – en tónleikastaðalandslagið hefur alltaf verið óstöðugt. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, bendir á að tónleikastaðir í Reykjavik hafi oft átt stuttan líftíma og iðulega þurft að víkja fyrir arðbærari fjárfestingum. Hann segir hins vegar að skipuleggjendur Airwaves finni fyrir því að erfiðara sé að finna smærri tónleikastaði fyrir hátíðina nú en áður.

Hann kallar eftir því að borgaryfirvöld sýni meiri ákefð og taki skýrari pólitíska afstöðu um að halda lífi í miðbænum. Hann segir að rétt eins og sparkvellir séu nauðsynlegir fyrir krakka sem stundi íþróttir þurfi að vera fjölbreyttur vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk til að æfa sig og þroskast. Hann nefnir til dæmis að í Danmörku séu sérstakir tónleikastaðasjóðir sem geri það að verkum að tónleikastaðir víða um landið geti boðið minni hljómsveitum að spila án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að tapa peningum.

Harpa og hótelaklasi munu ekki halda uppi frjórri og kraftmikilli grasrótarsenu.
Stóra planið Harpa og hótelaklasi munu ekki halda uppi frjórri og kraftmikilli grasrótarsenu.
Mynd: Reykjavíkurborg

Húrra fyrir útlendingum

Miðbærinn var grautfúll staður þangað til fyrir nokkrum árum. Það var ekkert um að vera og enginn nennti að vera þar.

Neikvæð umræða um ferðamannaiðnaðinn, eins og sú sem hefur átt sér stað um ferðamenn á Íslandi í sumar, á alltaf á hættu að þróast yfir í útlendingaandúð. Flestir viðmælendur DV vilja leggja áherslur á þær góðu afleiðingar sem aukinn straumur útlendinga til landsins hafi. Ferðamenn geri Reykjavík kleift að halda út fjölbreyttari viðburðum og skemmtanalífi.

„Nú er mjög neikvæð umræða í gangi um túrista. En þessi bylgja túrista hefur í raun breytt bænum í eitthvað. Miðbærinn var grautfúll staður þangað til fyrir nokkrum árum. Það var ekkert um að vera og enginn nennti að vera þar. Ég sakna þess ekki neitt. Nú eru kaffihúsin og veitingastaðirnir í blóma, grasrótin er líka í blóma því það er fjöldi fólks í bænum,“ segir Grímur.

Njörður Sigurjónsson, lektor í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst, vill heldur ekki einblína á slæmar afleiðingar ferðamannaiðnaðarins. „Túrisminn er það sem gerir landið byggilegt í augnablikinu. Ekki bara peningalega heldur andlega, menningarlega. Við þurfum svo sárlega á öðru fólki að halda, til að fylla göturnar og kaffihúsin og búðirnar,“ segir hann.

„Það er voða mikil nostalgía í kringum þessa umræðu, allt var svo frábært einu sinni og ef eitthvað breytist fer allt til helvítis, en svo einhvern veginn reddast hlutirnir og nýjar kynslóðir finna sinn eigin Glaumbæ og Sirkus. Við finnum annað húsnæði ef þarf, betra og skemmtilegra, og gerum eitthvað ennþá áhugaverðara en það sem er búið að gera. Eða þau, krakkarnir sem hafa eitthvað að segja – svona lið eins og ég getur bara verið heima hjá sér. En ef það á að setja einhvern ramma utan um þetta, plan eða reglugerð, þá legg ég til að við byrjum á að banna trúbadorinn sem spilar á English og öllum hinum stöðunum. Þetta er komið gott hjá honum,“ segir Njörður.

Jón Mýrdal, eigandi Húrra, tekur undir að ferðamannaiðnaðurinn og menningin séu ekki andstæður, þvert á móti geti Húrra, í krafti erlendra gesta, greitt djasstónlistarmönnum fyrir að koma fram á vikulegum fríum tónleikum. Hann segir að á milli tvö og þrjú hundruð manns komi vikulega á tónleikana og um 60 prósent þeirra séu erlend.

KEX-Hostel hefur verið gríðarlega öflugt í tónleikahaldi á undanförnum árum.
Hostelvæðing tónleikanna KEX-Hostel hefur verið gríðarlega öflugt í tónleikahaldi á undanförnum árum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fjármagn og einsleitni

Þannig skellur raunveruleiki nýfrjálshyggjukapítalismans loksins á íslensku tónlistarfólki á hátt sem það virkilega skilur.

Viðmælendur DV virðast þó sammála um að hætturnar séu fyrir hendi. Sumir kalla eftir takmörkunum á fjölda gistirýma í miðborginni en aðrir telja að vandann sé mun djúpstæðari. Fjárfestar og fjarfestingafyrirtæki sem vilja skila sem mestum hagnaði, en upplifa sig ekki ábyrg gagnvart nærumhverfinu, munu ávallt reyna að hámarka gróða af hverjum fermetra sem þeir eignast og í dag virðist arðbærasta fjárfestingin til skamms tíma vera hótelbygging.

„Ástæðan fyrir því að fólk er svo slegið núna er að það er ekki bara einn tónleikastaður (eins og þegar NASA eða Faktorý fór) sem gæti horfið heldur fimm mismunandi staðir. Að missa svo marga tónleikastaði í einu yrði mikið högg fyrir íslensku tónlistarsenuna, bæði til skamms og miðlungslangs tíma. Þannig skellur raunveruleiki nýfrjálshyggjukapítalismans loksins á íslensku tónlistarfólki á hátt sem það virkilega skilur,“ segir Bob.

„Kapítalið á í ástarhaturssambandi við einsleitnina þannig að á meðan alltaf er eðlilegast að reisa frekar hótel eða lundabúðir getur auðvitað ekki allt verið þannig. Bæir deyja ef þeir eru ekkert annað en túristaiðnaðurinn. Þetta veit kapítalið líka þannig að það vill hafa flippaða tónleikastaði og bari í bland. Áskorunin hlýtur að láta þetta tvennt vinna saman og þannig að menningin verði ekki tilbúningur eða uppfærsla á sjálfri sér (eins og grímuball í Feneyjum eða pönk í Camden) heldur eitthvað sem fólk þarf að gera og vill segja,“ segir Njörður.

Kannski er óhjákvæmilegt að ferðamannaiðnaðurinn hafi aðrar og lúmskari afleiðingar á íslenska tónlistarsenu en að eyða tónleikarýmum borgarinnar bókstaflega út af kortinu – að móta sköpunina og fagurfræðina.

Fjárfestar og fjárfestingarfyrirtæki sem vilja skila sem mestum hagnaði, en upplifa sig ekki ábyrg gagnvart nærumhverfinu, munu ávallt reyna að hámarka gróða af hverjum fermetra sem þeir eignast og í dag virðist arðbærasta fjárfestingin vera hótelbygging.
Arðbærasta fjárfestingin Fjárfestar og fjárfestingarfyrirtæki sem vilja skila sem mestum hagnaði, en upplifa sig ekki ábyrg gagnvart nærumhverfinu, munu ávallt reyna að hámarka gróða af hverjum fermetra sem þeir eignast og í dag virðist arðbærasta fjárfestingin vera hótelbygging.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hostelvæðing grasrótarinnar

Á undanförnum árum hefur það færst í aukana að gistiheimili bjóði upp á lífleg tónleikarými: KEX Hostel, Loft Hostel og nú síðast Hlemmur Square hafa öll verið öflug í viðburðaskipulagningu og tónleikahaldi. En hvaða áhrif hefur það þegar senan er í auknum mæli bundin af þörfum ferðamanna, hefur það áhrif á hvaða tónlist fær að heyrast og enn frekar hvernig listamenn nálgast listsköpun sína?

„Það er gott að það sé líf og það séu staðir sem taki við af þeim sem loki, en þetta má aldrei vera eina svarið við þörfinni. Allir þessir staðir eru bara í bisness. Þó að Loft Hostel haldi tónleika þegar hentar, kvarta þeir líka yfir hávaða í Gamla bíói – það er ekki bara 101 Hótel,“ segir Grímur.

Arnar Eggert segist ekki hafa miklar áhyggjur af óæskilegum afleiðingum hosteltónleika: „Það er jú hætta á að menn freistist til að leyfa erlendum tónlistaráhugamönnum að heyra það sem þeir telja að þeir vilji heyra. Henda í eitt og eitt Sigur Rósar-riff til að gleðja álfaáhugamennina. Ég hef hins vegar ekki orðið var við þetta, en það er hætta á þessu, teorískt séð.“

Made in Iceland

En meðvitund hljómsveita um erlendu áhorfendurna á gistiheimilunum er kannski bara smækkuð mynd af nýtilkominni meðvitund íslenskra tónlistarmanna um augnaráð umheimsins. Á undanförnum árum, og sérstaklega í kjölfar hrunsins, hefur átt sér stað bylting í kynningu á Íslandi og íslenskri menningu.

Ólíkt því þegar Reykjavík var „grautfúll staður“ og „subbulegt skítapleis“ er möguleikinn á frægð og frama erlendis raunverulegur fyrir íslenskar hljómsveitir í dag. Enn fremur vegna ímyndar landsins er sú staðreynd að þær séu íslenskar talið þeim til framdráttar – það er því hvati fyrir þær til að gera það augljóst að þær séu héðan. Það gæti því verið freistandi að gangast upp í þeirri ímynd sem hefur verið sköpuð af landinu.

Þegar útlendir aðilar, áhugamenn um tónlist, fræðimenn og almenningur hamast á því að íslensk tónlist sé undir áhrifum af náttúrunni fara sumir á endanum að trúa því.

„Ég held að það sé eðlilegt að menn geti freistast til að þjónkast því sem búist er við: eins og skoskar sveitir sem draga upp kiltin sín, sekkjapípurnar og ýkja jafnvel hreiminn af því að það selur frekar en hitt. Mér vitandi hefur þetta ekki verið mælt út og ég get ekki nefnt einhverja augljósa „álfar og hraun“ hljómsveit í fljótu bragði. En þegar útlendir aðilar, áhugamenn um tónlist, fræðimenn og almenningur hamast á því að íslensk tónlist sé undir áhrifum af náttúrunni fara sumir á endanum að trúa því. Þetta er hálfgerð stimplunarkenning. Ef einhver segir þér að þú sért þetta eða hitt nógu oft ferðu að trúa því,“ segir Arnar Eggert.

„Það hefur í raun tekist svo vel til við að kynna landið að ef landið er nefnt á nafn kallar það strax upp sterka hugmynd eða narratífu í hugum fólks. Of Monsters and Men hefur til dæmis ekki verið að gangast sjálf upp í því að vera „íslensk“ á sama hátt og Björk og Sykurmolarnir gerðu á sínum tíma, en málið er að þau þurfa þess ekki – það er nú þegar stór ríkisrekin markaðsvél sem gerir það fyrir þau,“ segir Bob.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.