Danskir dagar hófust formlega í verslunum Hagkaups í dag fimmtudag og standa yfir til 14. maí. Hátíðinni var sem kunnugt er frestað um óákveðinn tíma í janúar 2022. Var það gert í kjölfar þess að Danir töpuðu fyrir Frökkum á EM karla í handknattleik, en úrslitin urðu til þess að íslenska landsliðið missti af sæti í undanúrslitum mótsins. Vakti frestunin töluverð og hörð viðbrögð í Danmörku.
En nú er það mat Hagkaups að tími sé til kominn að halda Danska daga aftur með pompi og prakt eins og segir í fréttatilkynningu. Hátíðin er enda fyrir löngu orðnir stór hluti af starfsemi Hagkaups og þeirra er jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu. Þar er dönskum gæðavörum gert hátt undir höfði og ýmsar vörur fluttar inn sérstaklega fyrir Danska daga. Danskir dagar standa yfir dagana 4.–14 maí. Eins og venja er verður boðið upp á úrval af gómsætum gæðavörum frá Danmörku á meðan hátíðinni stendur: ekta danskt smørrebrød, pølser, svínarif, steikur, salöt, osta og spægipylsur, alls konar danskt sælgæti og margt fleira, að ógleymdu danska sætabrauðinu sem verður allt bakað á staðnum.