Eins og fram kemur á vef Fréttablaðsins hafa úrslit keppninnar verði kunngerð á fésbókarsíðu hópsins af stofnanda hópsins Erlu Hlynsdóttir en alls voru sendar inn myndir af 23 brauðtertum í keppnina og var fjölbreytnin og frumleikinn alls ráðandi.

Aðspurð segir Erla Hlynsdóttir, stofnandi hópsins, að dæmt hafa verið frá útliti brauðtertunnar en þátttakendur sendu inn mynd af sínu meistaraverki inn í sérstakt albúm í fésbókarhópnum síðustu tvö daga og í framhaldinu gátu meðlimir hópsins kosið um hvaða brauðterta næði best að fanga eldgosaþemað. Keppninni lauk í hádeginu í dag.

„Við höfum talið lyndistákn við hverja einustu brauðtertu í albúminu góða þar sem fólk setti inn mynd/ir til að taka þátt í keppninni, þar sem eitt lyndistákn jafngildir einu stigi þó hver hafi bara getað kosið hverja tertu einu sinni,“ segir Erla Hlyns sem er alsæl með þátttökuna í ár og stefnir að nýrri keppni að ári liðnu.

Hér má sjá sigurvegara keppninnar í ár þar sem þemað var eldgos. Matarvefur Dv.is óskar sigurvegurunum þremur innilega til hamingju.

  1. sæti: Hraunflóðið sem Anna Margrét Magnúsdóttir gerði.
  2. sæti: Ræfillinn í Geldingadölum sem Sara Vilbergsdóttir gerði.
  3. sæti Hrauntungusystur/Geldingadalir sem Linda-Marie Blom og Guðbjörg Finnsdóttir gerðu.

Þó að fyrst og fremst hafi þetta verið til gamans gert þá eru verðlaun. Þau eru ekki af ekki af verri endanum en veglegustu verðlaunin eru fyrir þá brauðtertu sem endaði í fyrsta sæti.

Ásbjörn Ólafsson ehf. gefur fallega stálbakka fyrir brauðtertur, Ís-spor áletra bakkana á sinn einstaka hátt, Landnámsegg gefa egg frá frjálsum landnámshænum í Hrísey, Pro Gastro gefur japanskan brauðhníf og japanskan grænmetishníf, Náttúrulega gaman gefur Litabombur sem innihalda ýmsa ofurfæðu og henta vel til að lita mat á heilnæman hátt, Granólabarinn gefur handgert granóla án viðbætts sykurs og hönnuðurinn Tanja Huld Leví gefur viskustykki úr vörulínunni „Brauðtertan lifir.“

Hér má sjá innihaldslýsingarnar og skreytingarformin á sigursælu brauðtertunum í ár sem skarta ægilegum eldgosum sem eiga sér enga líka.

Fyrsta sætið.

HRAUNFLÓÐIР– með laxasalati , pikk nikk og chilli hrískökum

Salatið og samsetning

2 dósir sýrður rjómi með lauk og graslauk

1 dós rjómaostur með graslauk

10 msk. majónes

10 stór egg, harðsoðin og smátt brytjuð

380 g reyktur lax eða silungur

smá aromat eftir smekk

1-2 smátt saxaðir vorlaukar

4 brauðtertubrauð (rúllutertubrauð)

5 brauðsneiðar

Reykti laxinn er tættur/maukaður í matvinnsluvél og blandað saman við hin hráefnin. Salatinu er smurt í þunnu lagi á brauðtertubrauðin. Alls 3 lög, 4 brauð. Svo bjó ég til brauð fjall með því að skera skorpuna af brauðsneiðunum og fletja þær aðeins út með kökukefli. Lagði brauðsneið innan í litla skál, síðan lag af salati, aðra sneið os.frv. þangað til skálin hefur verið fyllt. Henni er þá hvolft á hornið af tertunni og fjallið skreytt eins og tertan í heild sinni.

Skreyting – hráefnislistinn og aðferð

3 msk. majónes og skvetta af sítrónusafa hrært saman og smurt ofan á og utan á tertuna í þunnu lagi

150 g af reyktum laxi í þunnum sneiðum mynda hraunrennslið og gosið sjálft. Ég notaði grillpinna til að láta laxaeldtungurnar standa upp úr gígnum.

¼ úr mjög smátt skorinni rauðri papriku er dreift yfir hraunrennslið.

¼ úr mjög smátt skorinni appelsínugulri papriku er dreift yfir hraunrennslið.

½ poki gróf mulnum chili hrískökum (fást í Bónus) dreift yfir hraunrennslið og aðeins yfir hraunið sjálft.

4 bakkar fersk brómber mynda hraunið.

1 pottur lambhagasalat er rifið niður og sett á hliðarnar.

4 lúkur pikk nikk strá eru jarðvegurinn

Nokkur klettasalat kálblöð stungið niður sem gróður

3 piccalo tómatar sem blóm

Annað sætið.

Skonsuterta með þremur salötum, baunasalati, túnfisksalati og eggja- og laxasalati

Skreytingin: Svartur kavíar og rauður kavíar, raspaður appelsínubörkur og reyktur lax.

Þriðja sætið .

Hrauntungusystur /Geldingadalir

Innihald

Lag 1 – Stökksteikt beikon og egg ,rjómaostur m/karameliseruðum lauk og döðlur

Lag 2 – majónes og lag af þunnt skornum avókadó

lag 2: Chili majónes , pepperoni og eg.

Skreyting: Langsneiddar gúrkur penslaðar með svörtum matarlit, poppkorni og spírum spreyjaðar með svörtum matarlit , krullupasta litað með rauðum og appelsínugulum matarlit matarlím til að líma popp og spírur á fjallið . Að endingu, blys.