fbpx
Laugardagur 13.ágúst 2022
Matur

Kristinn er maðurinn á bak við Soð – Þetta borðar hann á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 10. apríl 2021 09:00

Kristinn Guðmundsson. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndlistarmaðurinn Kristinn Guðmundsson hefur verið að slá í gegn í eldhúsi matreiðsluþáttarins Soð um árabil. Hann er tilgerðarlaus og einfaldur í eldhúsinu, hann þarf ekki nýjustu græjurnar, aðeins góðan hníf.

Það er óhætt að segja að dagar Kristins séu fjölbreyttir. Hann er myndlistarmaður, einn höfunda og flytjenda sviðslistahópsins Marmarabörn og sér um matreiðsluþáttinn Soð á RÚV. Svo enginn dagur er eins, það fer einfaldlega eftir því hvaða verkefnum hann er að sinna. Hann reynir þó að byrja alla daga snemma og á göngutúr til að brjóta upp daginn, þar sem hann vinnur mestmegnis heima, hvort sem það er COVID eða ekki.

Mataræðið

„Ég er alltaf tilbúinn í að smakka. Það skiptir engu máli hvernig það lyktar eða lítur út. En við á heimilinu erum fiskætur (e. pesceterian), aðallega grænmetisætur sex daga vikunnar og fáum okkur kjöt á sunnudögum. Annars er þetta mestmegnis grænmeti, rosa mikið ávextir og brauð. Það er mjög gott bakarí nálægt mér og við förum þangað mjög reglulega að kaupa brauð,“ segir Kristinn og bætir við hvað það sé frískandi að gefa sér tíma til að standa í röðinni í sólskininu, horfa yfir síkið og fara heim með gott brauð. Hann segir að það sé allt of algengt þessa dagana að fólk gefi sér ekki tíma í svona lagað en það sé nauðsynlegt.

Verður heitt í hamsi

Þegar kemur að því að nefna eldhúsáhald sem honum þykir nauðsynlegt í hvert eldhús, nefnir Kristinn góðan hníf.

„Góður hnífur sem er góður fyrir þig er mitt uppáhaldstól. Það gerir allt lífið miklu betra. Hann þarf ekki að vera dýr, hann þarf að vera góður. Eiga einn lítinn og einn kokkahníf. Það er nóg, það þarf ekkert meira. Ég sker meira að segja brauðið mitt með kokkahnífnum mínum. Ég þarf ekkert að eiga fjörutíu hnífa,“ segir hann.

Það er Kristni mikið hitamál að nefna áhöld sem eru gjörsamlega gagnslaus að hans mati.

„Ég verð reiður og ég er ekki að djóka, ég er mjög „stabíll“ náungi en verð mjög reiður þegar ég sé svona kjaftæðiseldhúsáhöld, eins og til dæmis plasthólk til að sjóða egg, ég sá það á netinu um daginn. Og avókadóhníf og allt svona. Ég verð alveg brjálaður þegar ég sé svona kjaftæði,“ segir hann, en viðurkennir að sig langi í eina græju, hrísgrjónapott.

Kristinn Guðmundsson. Aðsend mynd.

Gerðu pítsaofn úr jörðinni

Aðspurður hvort hann eigi sér uppáhaldsmáltíð segist Kristinn horfa til upplifunarinnar frekar en þess sem er á disknum. Hvar hann er og með hverjum skiptir meira máli en hvað er í matinn. Hann rifjar upp skemmtilega matarminningu þegar hann var í útilegu á Ítalíu með kærustu sinni og vinafólki.

„Við vorum á tjaldsvæði og það byrjaði að rigna. Vinur minn er skúlptúrgerðarmaður og vinnur mikið með leir. Við föttuðum að jörðin varð bara að leir þegar það rigndi. Við bjuggum til pítsaofn úr leirnum og elduðum pítsur og lasagna í honum. Það er held ég mín uppáhaldsminning af mat. Þó þessar pítsur hafi kannski verið smá hráar á einum stað og brenndar á öðrum, þá gerði allt þetta vesen í kringum máltíðina hana svo miklu betri. Ég held að vesen sé svolítið einkunnarorð mitt í eldhúsinu. Því við njótum svo mikilla forréttinda, við þurfum ekkert að leita að mat. Förum bara út í búð eða pöntum mat heim, en þessi gamla tilfinning að hafa virkilega unnið fyrir matnum er ekki. Maður er orðinn rosalega svangur því maður byggði sér helvítis pítsaofn til að borða, svo fær maður loksins pítsuna og hún er þá svo ótrúlega góð. Það er uppáhaldsmaturinn minn.“

Matseðill Kristins

Morgunmatur

Vatnsglas með hálfri kreistri sítrónu og espresso.

Hádegismatur

Brauðsneið með einhverjum ostum og salat stundum, ef vel stendur á. Ég dýrka marmite og set það oft á ristað brauð með smjöri.

Millimál

Ávextir

Kvöldmatur

Hvað sem er, fer eftir hvað ég hef mikinn tíma. Á virkum dögum er það yfirleitt grænmetisréttur. Við þykjumst fara til Asíu og Ítalíu og svo er það belgíska matseldin, mikið af kartöflum.

Það er hægt að nálgast fullt af þáttum af Soð og uppskriftum á Soð.is. Þú getur einnig fylgst með ævintýrum Kristins á Instagram @kristinnsod og á YouTube-síðunni Soð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
Fyrir 4 vikum

Frönsk möndlukaka í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka á vel við

Frönsk möndlukaka í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka á vel við
Matur
12.07.2022

Þjóðþekktir matgæðingar grilluðu kótelettur

Þjóðþekktir matgæðingar grilluðu kótelettur
Matur
06.06.2022

Elísabet drottning drekkur glas af Bollinger kampavíni á hverju kvöldi

Elísabet drottning drekkur glas af Bollinger kampavíni á hverju kvöldi
Matur
05.06.2022

Vantar þig töfralausn við þrifin á óhreinni pönnu og eldavél?

Vantar þig töfralausn við þrifin á óhreinni pönnu og eldavél?