fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Matur

Þetta borðar Ragga Nagli á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 23. janúar 2021 12:00

Ragga Nagli. Mynd/Helgi Ómars

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragga Nagli er þekkt fyrir að tala um heilsu á mannamáli. Hún byrjar daginn á æfingu klukkan sex og starfar sem sálfræðingur. Hvað ætli hún borði á venjulegum degi?

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, er klínískur heilsusálfræðingur, pistlahöfundur, einkaþjálfari og þáttarstjórnandi hlaðvarpsins Heilsuvarp. Hún æfir CrossFit, þungar lyftingar, hlaup, spretti og sund. Ragnhildur er virk á samfélagsmiðlum og skrifar gjarnan um heilsu á mannamáli. Ragnhildur er búsett í Kaupmannahöfn en fyrir tíma COVID var hún dugleg að koma til Íslands og halda fyrirlestra um heilsu.

Venjulegur dagur hjá Ragnhildi byrjar um klukkan 5.30- 6.00 og þá tekur hún æfingu. „Ræktin er lokuð núna hér í Danmörku vegna COVID svo æfingar eru teknar í geymslunni en ég keypti svo mikinn tækjabúnað í lokuninni í vor að ég gæti næstum opnað eigin líkamsræktarstöð,“ segir hún.

„Eftir æfingu kemur hamingjuaugnablikið mitt í grautnum mínum og ég gef mér alltaf góðan tíma til að njóta og koma líkamanum úr streitunni frá æfingunni yfir í rólegt ástand. Svo dúndra ég farða í smettið og hendi mér í fagmannlegar spjarir og hjóla eða geng í vinnuna.“

Ragnhildur er sálfræðingur með eigin stofu í Kaupmannahöfn og það hefur aldrei verið eins mikið að gera hjá henni og í COVID. „Ég er gjörsamlega yfirbókuð af skjólstæðingum, bæði á stofunni og á netinu,“ segir hún.

Ragga Nagli. Mynd/Snorri Steinn

Mataræði sem hentar henni

Ragnhildur fer ekki eftir einhverju ákveðnu mataræði. „Ég fylgi mínu mataræði sem hentar mér og mínum líkama og minni æfingarútínu. Ég borða mat sem ég elska og mat sem elskar mig. Ég passa að gefa mér alltaf tíma við meginmáltíðirnar og borða hægt og rólega, er í mikilli ró og næði,“ segir hún.

„Ég reyni að hafa máltíðirnar vel samsettar af prótíni, kolvetnum og fitu til að fá örugglega öll næringarefni og hef mataræðið fjölbreytt og skemmtilegt. Ég er rosa lítið fyrir boð og bönn. Eini maturinn sem ég borða ekki er það sem mér finnst horbjóður á bragðið, eins og kóríander sem er arfi Satans. Ég er allt of mikil kjötæta og finnst ekki vera máltíð nema dauð skepna prýði diskinn en mig langar samt mikið að draga úr þeirri neyslu en hef ekki stigið skrefið ennþá. En vegan lífsstíllinn og hugmyndafræðin heillar mig mjög mikið. Ég er eiginlega „wannabe“ vegan.“

Hvar er gott að byrja?

Aðspurð hvort hún hafi einhver ráð fyrir þau sem hafa sett sér markmið um heilbrigðara líferni árið 2021 segir Ragnhildur að sé gott að byrja mjög smátt.

„Byrja á eins litlum og yfirstíganlegum venjum og þau geta. Því þú verður að upplifa sigra og styrkja sjálfstraustið í verkefninu til að fá hvatann til að halda áfram. Það er mun meira valdeflandi að styrkja venjuna í sessi með því að fara í tíu mínútur í ræktina tvisvar í viku og bæta við tímann og dagana heldur en að setja sér óraunhæf markmið um að fara í sextíu mínútur fimm sinnum í viku ef þú hefur hreyft þig núll sinnum í marga mánuði,“ segir hún.

Góður kokkur og dúndur grillari

Ragnhildur er mikið í eldhúsinu og lýsir sér sem „matarperra par excellence“. Þeim hjónunum þykir gaman að bjóða fólki í mat og kveðst Ragnhildur vera ótrúlega góður kokkur og dúndur grillari.

„En maðurinn minn er mörgum klössum fyrir ofan mig enda er pabbi hans kokkur svo hann er með þetta í erfðamenginu. Hann hefur kennt mér nánast allt í eldamennskunni og ég er smám saman að taka fram úr honum finnst mér. Ég er allavega rosa flink að gera grænmeti að algjöru gourmet-meðlæti. Ég nenni ekki soðnu blómkáli eins og ég var látin borða í gamla daga. Það er hægt að leika sér svo endalaust í þeirri deild,“ segir hún.

Matseðill Röggu Nagla

Morgunmatur

Hafragrauturinn minn góði með heitum kanileplum, löðrandi hnetusmjöri og horuðu súkkulaðisósunni minni sem er orðin heimsfræg. Prótíngjafinn er yfirleitt egg, annað hvort harðsoðin eða sem ommiletta.

Hádegismatur

Yfirleitt afgangar frá kvöldinu áður sem ég borða á stofunni minni milli skjólstæðinga.

Millimál

Ég er algjör sökker fyrir Nicks sykurlausu stykkjunum. Hnetugaurinn og karamellustykkið eru algjörlega mín uppáhalds. Svo eru Tom Oliver stykkin úr Veganbúðinni guðsgjöf til mannkyns, sérstaklega hituð í örbylgjuofni í 20 sekúndur og ég maula þetta yfirleitt fyrir framan tölvuna milli skjólstæðinga. Enda er lyklaborðið hjá mér örugglega með fleiri sýkla en peningaseðill.

Kvöldmatur

Ég fylgi sömu prinsippum í prótíni, kolvetnum og fitu og vel það sem ég er í stuði fyrir þann daginn. Kjúklingur, kalkúnn, lax, nautakjöt, svínakjöt, innmatur eins og svínahjörtu eða kálfalifur. Kolvetnagjafarnir sem ég elska eru: Kartöflur, sætar kartöflur, hýðisgrjón, kínóa, kúskús. Fitugjafarnir eru vanalega hummus, avókadó, fetaostur, eða fræ út á salat. Haugur af salati og alls konar grænmeti. Uppáhalds er sinnepshjúpað blómkál eða grillað brokkólí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa