fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Matur

Pattra er alæta og trúir að allt sé gott í hófi – Þetta borðar hún á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 12. september 2020 13:00

Pattra Sriyanonge. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pattra Sriyanonge notar örsjaldan uppskriftir og elskar að prófa sig áfram í eldhúsinu. Hún borðar allt sem hugurinn girnist sem er vægast sagt fjölbreytilegt. Hvað ætli hún borði á venjulegum degi?

Pattra Sriyanonge býr í Izmir, Tyrklandi, ásamt eiginmanni sínum, Theódóri Elmari Bjarnasyni, og syni þeirra, Atlasi Aroni.

„Lífið þessa stundina er mjög óhefðbundið miðað við það sem við erum vön á Íslandi. Eiginmaðurinn minn er atvinnumaður í fótbolta og vinnustundirnar hans geta verið ansi langar þar sem hann þarf að keyra í tvær klukkustundir á dag til þess að komast til og frá vinnu. Ég er því um þessar mundir heimavinnandi húsmóðir og er mikið ein með strákinn okkar sem náði sirka þremur mánuðum á tyrkneskum leikskóla áður en öllu var skellt í lás vegna COVID,“ segir Pattra.

„Dagarnir okkar geta verið afar margslungnir en við erum svo heppin að búa akkúrat núna á mjög skemmtilegum slóðum og því nóg að hafa fyrir stafni ásamt því að sinna öllu heimilisstarfi og eldamennsku.“

Alæta

Síðan Pattra man eftir sér hefur hún borðað allt sem hugurinn girnist. „Sem er vægast sagt fjölbreytilegt. Ég er algjör alæta og trúi því að allt sé gott í hófi,“ segir hún.

„Ég er undir asískum áhrifum sökum uppruna míns og þó að eldamennska mín sé býsna fjölbreytileg þá á ég það til að sækja í asísk hráefni. Ég er mjög hrifin af bragðsterkum og framandi mat.“

Elskar að elda

Pöttru leiðist ekki að elda og hún hefur sérstaka tilfinningu þegar kemur að því að blanda saman kryddum.

„Eldhúsið er tvímælalaust sá staður sem ég eyði hvað mestum tíma á, á heimilinu. Ég elska að elda og hef virkilega gaman af því að prófa mig áfram í eldhúsinu. Nota örsjaldan uppskriftir en ef það kemur fyrir þá breyti ég og smakka til eftir mínu höfði. Hef heyrt að ég sé með góða tilfinningu fyrir kryddblöndu sem gerir mig að ágætis áhugakokki,“ segir hún.

Uppáhalds máltíð

„Brönsinn eða dögurður hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi, svo víðtækur og djúsí. Á meðan COVID-ástandið hér í Tyrklandi stóð sem hæst og við vorum í hálfgerðu stofufangelsi í tólf vikur þá bakaði ég næstum því daglega. Ég hef ekki verið mikið fyrir bakstur í gegnum tíðina sökum uppskrifta-fóbíu en það var æðislegt dunda sér við þetta með 3 ára syni mínum. Við bökuðum allt á milli himins og jarðar til þess að láta tímann líða og brönsarnir voru extra veglegir hjá mér á þessum tíma sem útskýrir kannski kílóaukninguna á heimilinu,“ segir Pattra.

Pattra Sriyanonge. Mynd/Anton Brink

Matseðill Pöttru

Morgunmatur:

Ég er mikil eggjakona og fæ mér oft egg á morgnana í alls kyns formi. Omiletta er klassísk á mínu heimili, þá er öllu grænmetinu í ísskápnum skellt á pönnuna og jafnvel afgangs próteini frá kvöldinu áður.

Millimál nr. 1:

Þar sem ég borða oftast stóran morgunverð þá verð ég ekki svöng aftur þar til um hádegi. Þrátt fyrir það þá er ég algjör nartari og mjög líkleg til að grípa í hnetur eða ávexti.

Hádegismatur:

Á þessum tímapunkti erum ég og Atlas Aron, sonur minn, oftast ein í mat. Þá pæli ég mest í að koma einhverju næringarríku ofan í hann. Bakaður lax með spergilkáli, steikt hrísgrjón með laxi og grænmeti eða laxapasta er í uppáhaldi hjá okkur mæðginum. Ef við erum á ferðinni og stödd á veitingastað þá panta ég eitthvað í þessum dúr fyrir okkur bæði. Við eigum það sameiginlegt að elska fiskmeti.

Millimál nr. 2:

Rískaka með rjómaosti, gúrku, ólífuolíu, salti og chilliflögum. Fer reyndar eftir því hversu mikið ég borðaði í hádeginu. Ég borða ekki í svakalegu magni í einu en er sísvöng og narta mikið yfir daginn. Síðdegisbollinn er líka vinsæll og einn súkkulaðibiti eða einhvers konar gúmmelaði með.

Kvöldmatur:

Maðurinn minn mætir heim glorsoltinn eftir æfingu og þá elda ég gjarnan kvöldmat með asísku ívafi, til dæmis hans uppáhalds rétt; taílenskt salat með nautakjöti eða risarækjum og sterkri dressingu. Hendi svo í sjö mínútna hveitilausa blauta súkkulaðiköku ef ég er í stuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa