fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Hélt aðeins of lengi augnsambandi við rollu í hríðum

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 23. maí 2020 14:30

Bergrún Íris Sævarsdóttir. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir ver dögum sínum í að skrifa og teikna, ýmist á vinnustofunni sinni eða við borðstofuborðið með útsýni yfir hafið. Hún æfir nokkrum sinnum í viku í Hress sem hún lýsir sem heimilislegri heilsurækt, troðfullri af skemmtilegu og hressu fólki.

„Fimm og tíu ára synir mínir halda mér í góðri rútínu svo ég er oftast sest við teikniborðið klukkan 8:15, en þó ekki fyrr en ég hef fengið mér morgunmat. Síðdegin einkennast af útiveru, legó og lestri. Þegar við eiginmaðurinn útbúum kvöldmatinn fá drengirnir yfirleitt skjátíma, nema um barnvæna matreiðslu sé að ræða, þá hjálpa þeir til í eldhúsinu. Sá eldri hefur tekið á sig fleiri verkefni í mikilli samveru síðustu vikur. Nú tekur hann til dæmis alltaf úr uppþvottavélinni og eldar hafragrautinn á morgnana. Við höldum fast í kvöldsöguhefðina á okkar heimili og eftir bað er lesið úr góðri bók. Við hjónin skiptumst á að fara í útigöngutúra og hjólaferðir á kvöldin á meðan líkamsræktarstöðvarnar eru lokaðar. Eftir að börnin fara í rúmið er oft freistandi að vinna aðeins meira, enda vinnan mín svo skemmtileg og oft fæ ég verkefnin á heilann og þá er erfitt að leggja þau frá sér. Svo er bara Netflix og tjill, kúr og kósí með eiginmanninum, áður en ég leggst á koddann, sem er yfirleitt frekar snemma enda er ég skelfilega kvöldsvæf,“ segir Bergrún Íris.

Borðar ekki kjöt

„Ég hætti að borða kjöt fyrir ári síðan, í kjölfarið á svaka pylsuveislu og fjörugum sauðburði. Ein rollan var með hríðir og ég hélt augnsambandi við hana aðeins of lengi. Það gerði útslagið og ég lofaði rollugreyinu með dramatískri innöndun að borða börnin hennar aldrei aftur,“ segir Bergrún Íris.

„Líklega finnst mörgum þessi saga frekar fyndin og kjánaleg, en ég hafði lengi ætlað að hætta að borða kjöt en vantaði einhvern veginn herslumuninn. Við þetta langa augnsamband við dýrið missti ég hreinlega lystina og hef ekki fundið fyrir kjötsöknuði síðan. Eftir það er ég grænmetis- og fiskæta. Ég elska chia-fræ, kínóa, rauðar og brúnar linsur, flest grænmeti og hef síðustu ár orðið háð tómötum og kaffi.“

Töfrar fram eitthvað úr engu

Bergrúnu Írisi líður mjög vel í eldhúsinu og hún hefur gaman af eldamennsku. „Mér finnst sérstaklega gaman að elda svona „allt í einum potti“ máltíðir, bökur og grænmetisrétti þar sem úir og grúir af ýmsu. Þá er oft tilvalið að nýta afgangana og ég held að það sé mín sérgrein,
að töfra eitthvað fram úr engu. Eiginmaðurinn er mikill bakari og okkur þykir báðum ofsalega gott að borða góðan mat.“

Uppáhaldsmatur Bergrúnar Írisar er grillaður lax. „Og kúrbítur í ýmsum réttum er með því besta sem ég veit,“ segir hún.

Bergrún Íris og fjölskylda hafa bakað nær daglega í hinni miklu samveru síðustu mánaða. MYND/VALLI

Matseðill Bergrúnar Írisar

Morgunmatur:

Hafragrautur eða grísk jógúrt með chia-fræjum.

Millimál nr. 1:

Kaffi er nauðsyn, eða að minnsta kosti nóg koffín. Ég er mjög hrifin af Collab-drykkjunum og mætti ég taka eitthvað með mér á eyðieyjuna eru miklar líkur á að Collab yrði fyrir valinu.

Hádegismatur:

Ég elska að rölta frá vinnustofunni minni á Íshúsinu yfir á Von og fá mér fiskréttinn þeirra í hádeginu. Maturinn er dásamlegur, verðið sanngjarnt og umhverfið æðislegt.

Millimál nr. 2:

Ég er algjör naslari og skáparótari. Millimál getur verið allt frá hnetum og döðlum til súkkulaðis og ostapopps eftir því hvar ég er stödd í tíðahringnum.

Kvöldmatur:

Ef maðurinn minn eldar kjöt fyrir sig og strákana skipti ég því út fyrir eitthvað gott, til dæmis spínatbuff frá Roots. Þeir hafa líka sæst við alls kyns grænmetisrétti, enda geta börn lært að elska hvaða mat sem er, ef hann er nógu oft í boði og ef þau fá að hjálpa til við eldamennskuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa