fbpx
Þriðjudagur 04.ágúst 2020
Matur

Ég fór á ketómataræðið í 14 daga og þetta er það sem gerðist

DV Matur
Sunnudaginn 25. ágúst 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Góðæri síðustu ára hefur ekki farið framhjá mér. Á meðan krónan styrktist þá strekktist jafnframt á buxnastrengnum. Nú eru efnahagshorfurnar orðnar öllu verri en buxnastrengurinn þrjóskast þó við. Ég hef sent velmegunarvömbinni riftunarbréf og lagt fram útburðarbeiðni, en samt þrjóskast hún enn við. Þá eru góð ráð dýr, því góðærið er búið og betra að nýta gömlu buxurnar áfram en að fjárfesta í öðrum stærri.

Ketómataræðið svonefnda hefur notið mikilla vinsælda undanfarið á Íslandi. Hér er um að ræða álíka æði og þegar Atkinskúrinn tröllreið hér öllu fyrir árþúsundamótin. Á ketó eru kolvetni slæm en fita góð. Fita gegn fitu, áhugaverð nálgun. Það sem ungur nemur, gamall temur, og ákvað ég að best væri að leita á náðir reynslubolta í mataræðinu. Ég fann íslenska ketóhópa á Facebook og fann þar kolvetnasnautt en kærleiksríkt samfélag. Mæli ég þá sérstaklega vel með hópnum Keto Iceland sem hefur reynst mér ómetanlegur í þessari mataræðistilraun minni.

Fyrsti dagurinn gekk vel framan af. Ég var samt svöng og barðist af hörku við nammipúkann. Eftir saðsaman hádegismat leið mér þó mun betur, fannst ég jafnvel strax orðin reynd og sjóuð, hafandi jú, komist í gegnum hálfan sólarhring án svo mikið sem gúmmíbangsa. Svo fékk ég í magann. Eftir óþægilegan átakafund við salernið steig  ég vongóð á vigtina. Engin breyting. „Drasl matarræði,“ hugsaði ég og arkaði svo inn í eldhús staðráðin í að fá mér samloku. En á síðustu stundu snerist mér hugur. Skynsemin náði aftur yfirhöndinni. „Þolinmæði þrautir vinnur allar,“ sönglaði ég á meðan ég lokaði mjúkt samlokubrauðið aftur inni í brauðkassanum. Brauðkassinn lokaðist með lágværum og ljúfum smelli og mér vöknaði lítillega um augun.

Næstu daga fékk ég almennilega að kynnast því sem kallað er ketóflensa. Ég var slöpp, hálfutan við mig og með hausverk. „Hvers vegna gerir fólk sér þetta? Hvers vegna geri ég mér þetta?“ var algeng spurning í huga mér. En áfram skyldi þó haldið með smjörið. Bókstaflega. Smjör varð minn nýi besti vinur. Allt steikt upp úr smjöri. Ég hélt mér við efnið með því að tilkynna öllum og ömmum þeirra að ég væri á ketó. Það veitti visst aðhald og kom í veg fyrir alvarleg hliðarspor.

Eftir viku á ketó afréð ég að stíga loksins á vigtina. Þrjú kílógrömm farin og það sem meira var, brjóstin mín flæddu ekki lengur upp úr brjóstahaldaranum mínum eins og köttur sem vill ómöglega láta halda á sér, og svo hafði slaknað á buxnastrengnum. Þessar niðurstöður voru uppörvandi. En það sem mér þótti samt merkilegra var að ég var hætt að vera sami smjattpattinn og áður. Ég fann eiginlega aldrei fyrir hungri lengur. Ég borðaði hádegismat og kvöldmat, fastaði þess á milli.

Það er ákveðið frelsi sem fylgir því að vera ekki stöðugt að hugsa um mat. Ekki misskilja mig þó, ég hugsa samt alveg eitthvað um mat, en ekki af sama hömlulausa hungrinu og áður, heldur fremur sem lið í hefðbundnu heimilishaldi. Ég prófaði að gera ketóútgáfur af pítsu, kókosbollum, búðingi, vöfflum og beyglum. Ég komst líka að því að kúrbít er hægt að breyta í fínasta spaghettí! Já, spaghettí, svona er heimurinn í dag, grænmeti getur orðið spaghettí. Nálægt vinnustað mínum eru fjölmargir veitingastaðir sem bjóða upp á ketómat, en það getur verið dýrt að fara daglega út að borða í hádeginu. Ég þurfti því að skipuleggja matinn og taka með mér nesti. Eða ég hefði þurft þess. Ég er ekki ein af þeim sem blessuð var með skipulagsnáðargáfu í vöggu. Ég lifi lífinu eftir því sem ég kalla skipulegt kaos, sem er fínt orð yfir algera óreiðu. Að muna eftir nesti virtist vera áskorunin sem sigraði mig, og eyddi ég slíkum fjárhæðum í ketóskyndibita að ég kæri mig ekki um að rifja það upp. Allt kom þó með heita vatninu og á viku tvö á ketó tókst mér í þrígang að muna eftir nesti. Geri aðrir betur. Vika tvö leið svo hratt að skyndilega hafði ég lokið 14 dögum á ketó. Þá steig ég aftur á vigtina. Tvö kíló í viðbót höfðu gufað upp og ég komin í þá ókunnuglegu stöðu að þurfa minna sjálfa mig á að borða, því ekki fór mikið fyrir hungrinu. Svo hver er niðurstaðan eftir tveggja vikna ketókúr?

 1. Ég hef misst 5 kg
 2. Ég er hætt að fá brjóstsviða
 3. Ég er hressari og framtakssamari
 4. Ég fæ sjaldnar höfuðverk
 5. Ég sef betur

Allt í allt myndi ég kalla þetta ánægjulega lífsreynslu. Ég get þó ekki séð fyrir mér að vera á ketó lífið á enda, en ég mun halda þessu áfram komandi mánuði, leyfa velmegunarvömbinni að rýrna og buxnastrengnum að slaka á.  Kveðja, Ketókisinn.

Byrjendaráð frá byrjanda

 • Salta matinn aðeins meira til að hjálpa ketóflensunni að ganga yfir.
 • Drekka nóg af vatni, því annars er hætt við ofþornun með tilheyrandi óþægindum.
 • Borða fjölbreytt
 • Hafa í huga að þó svo kolvetnin séu að mestu úr sögunni þá þarf að gæta þess að inntaka kalóría fari ekki úr öllum böndum.
 • Allt er gott í hófi, líka á ketó.
 • Ekki örvænta þótt lengri salernistúrum fækki. Þetta tekur bara aðeins lengri úrvinnslutíma en skilar sér á endanum.

Hagnýtir molar:

Margir staðir bjóða nú upp á skyndibita. Einn þeirra er Black box pizza. Ég gæddi mér á einni slíkri á þriðja degi ketó, en fékk svo vægt áfall þegar ketóhópurinn minn góði greindi frá því að pítsan væri ekki ketó, þrátt fyrir að heita ketó pítsubotn á seðli. Þetta þykir mér ansi villandi fyrir neytendur. Hins vegar er pítsan ákaflega bragðgóð.

Ketóhamborgarabrauðin frá Hamborgarafabrikkunni eru ekki heldur ketó. Sjokkerandi ég veit. En það er bara fínasta máltíð að gera sér veglegan hamborgara, mínus brauðið. Saknaði brauðsins ákaflega lítið.

Íslenski framleiðandinn Good Good framleiðir sykurlausar vörur sem henta í flestum tilvikum á ketómataræðinu. Til að mynda hafa sulturnar þeirra vakið mikla lukku út fyrir landsteinana og náðu á árinu toppsæti á vinsældalista Amazon.

 

Uppskrift: Fathead pítsubotninn frægi

Fathead pítsubotninn nýtur mikilla vinsælda meðal ketóliða. Margir hafa sína eigin útfærslu en ég ákvað að endingu að styðjast við uppskrift frá dietdoctor.com.

175 g rifinn ostur
2 msk. rjómaostur
100 g möndlumjöl
1 tsk. hvítvínsedik
1 egg
½ tsk. salt

Aðferð:

Ostar bræddir saman í örbylgjuofni eða potti þar til nokkuð sléttur klumpur myndast. Síðan er gott að bleyta hendurnar með olíu og hnoða restinni af hráefnunum saman við ostaklumpinn. Deigið á að vera frekar blautt, en sé það of þurrt er hægt að bæta við eggi. Að ending er klumpnum hent á ofnblötu með bökunarpappír, bökunarpappír einnig settur yfir svo hægt sé að fletja deigið út án þess að það klístrist fast við kökukeflið. Síðan er botninn forbakaður í ofni, í svona 10–15 mínútur við 200 gráðu hita. Þá er botninn tekinn út, þínu uppáhaldsáleggi hent ofan á og svo aftur inn í ofn, þar til osturinn hefur bráðnað (ca. 10–15 mín).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Matur
30.06.2020

Bjóðið fráskildum vinum ykkar í mat

Bjóðið fráskildum vinum ykkar í mat
Matur
27.06.2020

Bestu brönsstaðir borgarinnar – Þessir þykja skara fram úr

Bestu brönsstaðir borgarinnar – Þessir þykja skara fram úr
Matur
23.06.2020

Þetta er næst versta pítsaáleggið á eftir ananas segir Guðni Th.

Þetta er næst versta pítsaáleggið á eftir ananas segir Guðni Th.
Matur
22.06.2020

Eitt furðulegasta tilboðið á Íslandi – 50% afsláttur ef þú uppfyllir eitt skilyrði

Eitt furðulegasta tilboðið á Íslandi – 50% afsláttur ef þú uppfyllir eitt skilyrði
Matur
08.06.2020

Svona leit McDonalds út á níunda og tíunda áratugnum

Svona leit McDonalds út á níunda og tíunda áratugnum
Matur
07.06.2020

Þetta borðar Edda Hermanns á venjulegum degi

Þetta borðar Edda Hermanns á venjulegum degi
Matur
02.06.2020

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði
Matur
01.06.2020

Fimm ráð sem gera þig að betri grillara

Fimm ráð sem gera þig að betri grillara