fbpx
Mánudagur 01.júní 2020
Matur

Læknir Sunnu ráðlagði henni að prófa nýtt mataræði: „Ég er búin að missa 5,5 kg og 40 cm á tíu dögum“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 10. júlí 2019 09:16

Sunna Björk Heiðudóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sunna Björk söngkona hélt hún myndi aldrei geta fylgt LKL mataræði en eftir að hafa fylgt því í tíu daga ætlar hún sér að fylgja því til frambúðar. LKL stendur fyrir lágkolvetna lífsstíll.

Sunna Björk hefur lengi glímt við króníska verki og bólgur. Hún fylgdi læknisráði að prófa LKL og sér alls ekki eftir því í dag. Ekki aðeins líður henni betur líkamlega þá hefur hún misst 40 sm í ummál og 5,5 kg.

„Ég hafði íhugað það lengi að fara á LKL en ég treysti mér ekki til þess,“ segir Sunna Björk.

„Ég á við mikinn stoðkerfisvanda að stríða og er því með króníska verki og bólgur. Ég er einnig með vanvirkan skjaldkirtil.  Læknirinn minn skipaði mér að prufa LKL mataræðið og sjá hvaða áhrif það hefði á heilsuna. Ég sló til og sé ekki eftir því.“

Lygilega auðvelt

Aðspurð hvernig henni hafi gengið að byrja á mataræðinu segir Sunna Björk:

„Þetta var bara allt lygilega auðvelt. Ég setti mér markmið að finna 7-10 máltíðir sem mér þætti góðar. Það hjálpaði mikið og ég missti ekki móðinn í svengdinni. Síðan fór ég að bara að brjóta upp þennan vanalega hring um matvörubúðina og skoða alls konar vörur sem ég hafði aldrei pælt í áður. Ég byrjaði að lesa aftan á hitt og þetta og uppgötvaði ýmislegt nýtt og framandi en einnig gott.“

Eftir um þrjá daga var Sunna Björk komin á gott ról og langaði ekki í kolvetni.

„Þetta er miklu auðveldara en ég hélt. En auðvitað kemur stundum smá þrot yfir mann, sem varir mjög stutt. Það besta er að þetta krefst ekki mikillar fyrirhafnar. Ég er ekki týpan sem bakar sitt eigið brauð eða býr til sitt eigið nammi. Ég kaupi bara allt út í búð.“

Rosalegur árangur

Sunna Björk segir að árangur hennar á mataræðinu sé búinn að vera ótrúlegur.

„Fyrir utan það að verkir, bólgur og bjúgur hafi minnkað til muna þá er ég búin að missa 5,5 kg og 40 sm á tíu dögum,“ segir Sunna Björk.

„Verkirnir jukust aðeins í byrjun því mikið skrið komst á stoðkerfið, en síðan fóru þeir minnkandi. Ég er léttari andlega. Ég sef betur og finn hvað ég get miklu meira.“

Sunna Björk segir að hún myndi aldrei trúa þessu nema að hafa upplifað þetta sjálf. „Ég fór út í þetta ævintýri í tilraunaskyni og ekki með mikla von. Ég hugsaði að það væri bara ekki fræðilegur að mataræði skipti svona svakalega miklu máli. En ég hafði svo sannarlega rangt fyrir mér.“

Tvær máltíðir á dag

En hvað borðar Sunna, og hvenær?

„Ég borða tvisvar á dag til að halda insúlíninu í jafnvægi,“ segir Sunna Björk og vísar í tímabundna föstun (e. intermittent fasting).

„Fastan er holl. Læknirinn minn mælti með henni. Líkaminn nær að hreinsa sig og ná jafnvægi. Það er einnig ekki gott að vera alltaf að skjóta insúlíninu upp.“

Sunna Björk nefnir dæmi um máltíðir sem hún borðar reglulega.

„Í hádegismat borða ég til dæmis salat með kjúklingi, LKL brauð með alls konar áleggi, skyr, egg og harðfisk með smjöri.

Í kvöldmat er yfirleitt kjöt, sósa og grænmeti eins og blómkál og brokkolí. Ég bý til blómkálsgratín og það kemur algjörlega í staðinn fyrir kartöflur.“

En hver er munurinn á LKL og ketó?

„Veistu ég hef ekki kynnt mér ketó neitt af viti en mér skilst að það sé meiri harka í því. Þú þarft að borða miklu meira af fitu og pæla meira í öllum hlutföllum orkugjafanna til að halda þér í „ketósis“ ástandi,“ segir Sunna Björk.

LKL lífsstíll gengur í stuttu máli út á að borða lítið af kolvetnum en ketó snýst um að borða hátt hlutfall af fitu, eitthvað af próteini og lítið sem ekkert af kolvetnum.

Langtímalausn

Sunna Björk segir að LKL mataræðið sé komið til að vera í hennar lífi. „Ég get ekki hugsað mér að fara aftur í kolvetnin. Ég hef líka miklu að tapa og elska að lifa með mun minni verki og bólgur,“ segir Sunna Björk.

„En ég fæ mér örugglega hangikjöt og jafning um jólin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 1 viku

KETÓ kjötbollur með kúrbítspasta sem trylla elskhugann

KETÓ kjötbollur með kúrbítspasta sem trylla elskhugann
Matur
Fyrir 2 vikum

Jillian Michaels gefur ráð til að vinna gegn hungri og matarlyst

Jillian Michaels gefur ráð til að vinna gegn hungri og matarlyst
Matur
30.04.2020

Ofureinfalt ketókex

Ofureinfalt ketókex
Matur
26.04.2020

Klassísk marengsterta klikkar aldrei

Klassísk marengsterta klikkar aldrei