fbpx
Mánudagur 20.maí 2019
Matur

Misjafnt hreinlæti á pítsustöðum Domino’s: Mýs í Skeifunni – Hættulegur halli á Dalbraut

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 3. mars 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hóf nýverið birtingu á niðurstöðum úr reglubundnu eftirliti á veitingastöðum borgarinnar og eru upplýsingarnar öllum aðgengilegar. Veitingastaðir geta fengið einkunn frá 1 til 5, en algengast er að staðir nái þremur í einkunn.

Þegar vinsæla pítsastaðnum Domino’s er flett upp kemur í ljós að einkunnir eru mjög mismunandi eftir stöðum. Af þeim sjö skýrslum sem liggja fyrir á vef Heilbrigðiseftirlitsins fá þrír Domino’s staðir tvo í einkunn, þar sem aðkallandi úrbóta er þörf, en fjórir staðir fá þrjá í einkunn, þar sem frávik eru ekki metin alvarleg. DV kíkti á það sem betur mætti fara á þessum sjö stöðum og þá kom ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Domino’s Hraunbæ 121
Einkunn: 3
Dagsetning úttektar: 29.01.2019

Þrífa þarf betur í gólfkverkum, undir goskælum og veggi fyrir ofan uppþvottavél. Setja þarf upp skilti vegna ofnæmis- og óþolsvanda og taka til í kaffistofu.

Domino’s Dalbraut 3
Einkunn: 3
Dagsetning úttektar: 16.01.2019

Í bakrými á staðnum er skáhalli sem talinn er „stórhættulegur fyrir starfsmenn í bleytu.“ Er tekið fram að myndir af aðstæðum hafi verið sendar til Vinnueftirlitsins og að um sé að ræða ítrekun frá síðasta eftirliti. Þrifum er ábótavant í starfsmannaðstöðu og eru til dæmis hurðarkarmar á salernum mjög kámugir. Þá er gagnrýnt að hreinsiefni hafi fundist í hillu þurrlagers og að laga þurfi óvarið loftljós á lagernum.

Domino’s Ánanaustum 15
Einkunn: 2
Dagsetning úttektar: 16.01.2019

„Í eftirliti kom í ljós að verið var að vinna matvæli á borði og vaski við hlið uppþvottavélar sem er ekki góð meðhöndlun matvæla,“ stendur í skýrslunni um bakrými staðarins. Einnig er bent á að þrífa þurfi betur handlaug í eldhúsi og að starfsleyfi heilbrigðiseftirlits vanti.

Domino’s Hjarðarhaga 45
Einkunn: 3
Dagsetning úttektar: 25.01.2019

Setja þarf upp starfsleyfi á áberandi stað, sópa í kjallara og skrifstofu, setja upp skilti fyrir ofnæmis- og óþolsvalda í afgreiðslu, setja lok á gastrókæli og fylla holur í gólfi.

Domino’s Gnoðarvogi 44
Einkunn: 3
Dagsetning úttektar: 21.01.2019

Helstu frávikin eru á starfsmannasalerni og í ræstikompu þar sem þarf að þrífa betur að innan sem utan. Einnig þarf að þrífa hurð í móttöku.

Domino’s Spönginni 11
Einkunn: 2
Dagsetning úttektar: 29.01.2019

„Kaffistofan er notuð sem lager. Kaffistofan er ætluð starfsmönnum en ekki til lageraðstöðu. Starfsmaður borðaði hádegismat á skrifstofu verslunarstjóra þegar á eftirliti stóð en ekki kaffistofu. Þessu þarf að breyta,“ stendur í skýrslunni og bætt við að um sé að ræða ítrekun frá 2014, 2015, 2016 og 2017. Einnig eru gerðar margar athugasemdir við lager, til dæmis þessi: „Töluvert af kælivörum (t.d. osti) sem stóðu óhreyfðar á gólfi lagers á meðan eftirliti stóð. Allar kælivörur skulu strax settar í kæli við vörumóttöku til að rýra ekki gæði þeirra.“

Domino’s Skeifunni 17
Einkunn: 2
Dagsetning úttektar: 15.01.2019

Domino’s í Skeifunni er eini Domino’s-staðurinn sem fær alvarlegt frávik í sinni skýrslu, en við lestur skýrslunnar kemur í ljós að mýs hafi fundist á kaffistofu starfsmanna í nóvember í fyrra. „Er þetta í annað skiptið sem vart verður við nagdýr í húsnæðinu en áður gerðist það í lok árið 2017,“ stendur í skýrslunni og bætt við að heilbrigðiseftirlitinu hafi í hvorugt skiptið verið gert viðvart um nagdýrin, eins og reglur kveða á um. Er tekið fram að músagildrum hafi verið komið upp á staðnum. Aðrar ábendingar eru um þrif í bakrými, svo sem á starfsmannasalerni, veggjum og gólfi.

Útskýringar á einkunn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:

5 Kröfur uppfylltar
4 Kröfur uppfylltar – einhverjar ábendingar
3 Frávik/ábendingar – ekki metnar alvarlegar
2 Frávik/ábendingar – aðkallandi úrbóta þörf
1 Starfsemi takmörkuð/stöðvuð að hluta
0 Starfsemi stöðvuð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 6 dögum

Leyndarmálið á bak við það að halda fullkomið Eurovision-partí

Leyndarmálið á bak við það að halda fullkomið Eurovision-partí
Matur
Fyrir 6 dögum

Heygafflar á loft – Blaðamaður New York Times í bobba: „Hvernig er hægt að svara þessu guðlasti?“

Heygafflar á loft – Blaðamaður New York Times í bobba: „Hvernig er hægt að svara þessu guðlasti?“
Matur
Fyrir 1 viku

Dásamlegur rækjuréttur sem sparar tíma en eykur gleði

Dásamlegur rækjuréttur sem sparar tíma en eykur gleði
Matur
Fyrir 1 viku

Fór á veitingastað í Reykjavík og var ekki skemmt: „Ég sagði þjóninum að þetta hefði stútað kvöldinu“ – Síðan kom grínið

Fór á veitingastað í Reykjavík og var ekki skemmt: „Ég sagði þjóninum að þetta hefði stútað kvöldinu“ – Síðan kom grínið