fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2019
Matur

Nýtt líf Heru – Breytti um matarvenjur en þarf enn á sykri að halda: „Ég hlaut ekki framheilaskaða þegar ég grenntist“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 8. febrúar 2019 14:00

Hera keppir í kvöld.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er alveg temmilega holl í lífsháttum og mataræði en svo missi ég allt gjörsamlega niðrum mig þess á milli og fer í sukkið. Það er alveg dásamlega ófullkomlega fullkomið,“ segir söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir. Hera stígur á sviðið í Háskólabíói næsta laugardag og flytur lagið Eitt andartak í fyrri undankeppni Söngvakeppninnar.

„Ég er svolítil næturdrottning“

Hera er mikill reynslubolti og var fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2010 með lagið Je Ne Sais Quoi. Hún segist alltaf undirbúa sig á sama hátt fyrir viðburði, hvort sem um er að ræða stórviðburði eins og Eurovision eða minni skemmtanir.

„Ég passa mikið upp á svefninn. Ég er svolítil næturdrottning. Ég hugsa mikið og græja og geri seint á kvöldin, sérstaklega þegar ég er í skemmtilegum verkefnum. Svefninn er númer eitt, tvö og tíu. Ef ég sef ekki, þá kemur það strax niður á röddinni. Maður verður rámur vegna þreytu og það er ekki gott að fara inn í daginn í því ástandi og eiga jafnvel eftir að syngja lagið oft og æfa það,“ segir hún og heldur áfram.

„Ég drekk eins mikið vatn og ég get. Svo er ég mjög einbeitt þegar kemur að vítamínskammtinum. Ég tek mikið af D- og C-vítamíni, B12 og Krill-olíu,“ segir Hera og sest við eldhúsborðið til að taka til vítamínskammtinn. „Ég reyni að passa að allar varnir líkamans séu vel nærðar og undirbúnar fyrir þetta. Þessi keppni er sérstaklega mikil orkusuga. Ekki bara keppniskvöldið, því áreitið er stöðugt. Til dæmis þegar maður er í Hagkaupum og fólk vill stoppa og spjalla við mann eða þegar maður þarf að opna sig í fjölmiðlum,“ segir hún og hlær. „Maður þarf að gera alls kyns hluti sem maður er ekki vanur að gera dagsdaglega og þetta eru allt hlutir sem taka orku. Það fyrsta sem lætur á sér kræla í slíkum aðstæðum er kvef, ef maður passar sig ekki.“

Hera var fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2010 og stóð sig með prýði.

Rosalega dýr kæfa með betra drasli í

Eins og margir vita hefur Hera unnið mikið í sér sjálfri síðustu misseri og geislar af heilbrigði í dag. Stór hluti af því eru breyttar matarvenjur söngdívunnar.

„Það sem kom mér í bobba á sínum tíma og gerði það að verkum að ég þyngdist og þyngdist og þyngdist var að ég borðaði nánast ekkert yfir daginn og settist síðan við át á kvöldin,“ segir Hera. „Nú reyni ég að hlusta á hvað líkaminn vill. Ég fókusa mikið á próteininntöku, til dæmis. Ég borða skyr og er mikill aðdáandi laktósafrírrar Hleðslu. Hún minnir á kókómjólk og mér líður eins og litlum krakka þegar ég drekk hana. Að auki er hún það sem ég gríp í bílnum þegar ég annars myndi fá mér eitthvert drasl. Stundum fæ ég mér líka gróft rúgbrauð með hnausþykku lagi af einhverri góðri kæfu. Það er mjög orkugefandi þegar maður er á hlaupum. Annars reyni ég að sneiða framhjá mikið unninni kjötvöru, en kæfan verður að vera með. Þá læt ég eftir mér rosalega dýra kæfu sem er með betra drasli í,“ segir hún og hlær dátt.

„Ég kvelst af þessu avókadó-óvirðingarlandi hér“

Hera er mikið fyrir ávexti og grænmeti, en það er einn ávöxtur sem hún er sérstaklega sólgin í.

„Hæ, ég heiti Hera og er avókadóisti,“ segir hún og brosir. „Ef það er avókadó í matnum verð ég vandræðalega spennt.“

Söngkonan er þar af leiðandi ekki laus við þau vonbrigði sem fylgja því að kaupa sér græna lárperugullið í matvöruverslunum til þess eins að opna það og sjá brúnt og slepjulegt avókadó blasa við.

„Ég missi stundum kúlið í grænmetisborðum í verslunum þjóðarinnar. Ég nefnilega lenti í því að búa í Síle þar sem avókadó er ræktað og framleitt. Þú opnar ekki avókadó þar nema það sé fullkomið. Það er bara þannig. Að koma síðan heim með þennan brjálæðislega háa standard á avókadó og sjá það sem er verið að bjóða okkur upp á; „It breaks my heart“ og ég missi kúlið æ ofan í æ. Ég byrja alveg að ranta yfir avókadó-úrvalinu og tek Indriða á þetta. Til að borða eitt avókadó kaupi ég átta stykki til að vera örugg. Svo fara sjö þeirra í þeyting þótt þau séu á grafarbakkanum – sem þau eru sorglega oft. Ég kvelst af þessu avókadó-óvirðingarlandi hér. Þetta getur ekki gengið svona,“ segir Hera og hlær.

Skammdegishuggun

Þótt Hera hugsi vel um hvað hún lætur ofan í sig viðurkennir hún fúslega sína veikleika þegar kemur að mataræði.

„Ég hlaut ekki framheilaskaða þegar ég grenntist. Ég þarf enn þá á vissu magni af sykri og kolvetni að halda. Ég komst að því þegar ég fór að stúdera mataræði að ég þarf víst góðan slurk af kolvetnum yfir daginn, bara svo heilinn geti unnið. Það gladdi mitt litla hjarta að ég gat enn þá borðað ristað brauð með smjöri og osti og heitt kakó með. Það er uppáhaldsmaturinn minn í öllum heiminum. Það er eins konar skammdegishuggun. Og núna langar mig í svona fyrst ég tala svona mikið um það,“ segir hún og brosir kankvís.

Ítarlegra viðtal við Heru er að finna í helgarblaði DV.

Helgarblað DV er komið út.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Matur
Fyrir 2 dögum

Algeng mistök í eldhúsinu – Þú hefur örugglega gert nokkur af þeim

Algeng mistök í eldhúsinu – Þú hefur örugglega gert nokkur af þeim
Matur
Fyrir 3 dögum

Hægeldað páskalamb sem svíkur engan – Sjáið uppskriftina

Hægeldað páskalamb sem svíkur engan – Sjáið uppskriftina
Matur
Fyrir 6 dögum

Hversu mikið af veitingum þarf fyrir veisluna?

Hversu mikið af veitingum þarf fyrir veisluna?
Matur
Fyrir 6 dögum

5 sekúndna ketó ís – Það eina sem þarf eru 2 hráefni

5 sekúndna ketó ís – Það eina sem þarf eru 2 hráefni
Matur
Fyrir 1 viku

Átta hugtök sem næringarfræðingar þola ekki að heyra

Átta hugtök sem næringarfræðingar þola ekki að heyra
Matur
Fyrir 1 viku

Hún gerði afdrifarík mistök í þynnkunni: „Það er hættulegt að borða hollt“

Hún gerði afdrifarík mistök í þynnkunni: „Það er hættulegt að borða hollt“