fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Matur

Jói G er ekki lengur þræll sykurs: „Þetta er ekki eins flókið og fólk heldur“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 11. janúar 2019 12:30

Jói finnur mikinn mun á sér, bæði andlega og líkamlega.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hélt að tveir vinir mínir hefðu gengið í sértrúarsöfnuð þegar ég heyrði þá tala um ketó. Hélt að hann væri andlegur leiðtogi þeirra, þeir voru svo uppnumdir og ákafir,“ segir leikarinn geðþekki Jóhann G. Jóhansson, sem í daglegu tali er einfaldlega kallaður Jói G. Tæpt ár er síðan Jói byrjaði að borða eftir ketó-mataræðinu, en það voru einmitt fyrrnefndir vinir hans sem sannfærðu hann loks.

„Þeir eru báðir í mikilli hreyfingu. Annar í þríþraut og hinn í súpermaraþonum, hleypur sjötíu kílómetra á fjöllum. Eftir að þeir útskýrðu hvað þetta væri og ég hafði hlegið svolítið að þeim skoðaði ég þetta og komst að því að þetta myndi mögulega henta mér vel,“ segir Jói. „Þann 7. febrúar árið 2018 byrjaði ég svo. Fyrst hægt og svo alveg. Ég var í tökum í Norður-Finnlandi og daginn sem ég fékk ketó-þokuna svokölluðu átti ég langa einræðu. Þetta reddaðist allt en ég var ekki alveg með sjálfum mér þennan dag,“ segir Jói og hlær, en þessi þoka sem hann talaði um er alþekkt og vanalegt að fólk fái ketó-flensu eftir nokkra daga á mataræðinu.

Hér er Jói á frumsýningu sjónvarpsþáttanna Ivalo, sem heitir á ensku Arctic Circle, með Clemens Schick.

Betri fyrirmynd fyrir synina

Eins og áður segir byrjaði Jói hægt að fikra sig áfram á ketó-mataræðinu.

„Fyrsta skrefið er að kynna sér hvað ketó er og hvort það henti þér. Spyrja lækna ef þú ert að kljást við sjúkdóma. Ég byrjaði þetta kvöld með því að sleppa kartöflunni og borða steikina, salatið og bearnaise-sósuna,“ segir hann. „Ég fann mun á mér nánast strax. Líkamlega fór óstjórnleg löngun í nammi fljótlega og blóðsykurfall úr sögunni. Eins verður hungurtilfinning ekki eins sterk. Andlega fylgir vellíðan yfir því að vera að borða hollt.“

Ostar, lágkolvetna hnetusmjör, steik og blómkálspítsa er meðal þess sem er í uppáhaldi hjá Jóa á þessu mataræði. Hann byrjar vanalega daginn á beikoni og eggjaköku með osti og fær sér síðan ketóvæna súpu eða salat í hádegismat.

„Kvöldmatur er síðan það sem fjölskyldan er að fá sér. Ég sleppi bara kolvetnum og bæti við grænmeti, lárperu og sósu sem er í lagi,“ segir hann, en fjölskyldan hefur stutt hann vel í þessu ferli.

Jóa hefur sjaldan liðið betur.

„Eldri strákurinn minn fór á ketó í vor í nokkrar vikur og líkaði mjög vel. Hann er með flogaveiki og mælt er með ketó fyrir þá sem eru með flogaveiki. Fjölskyldan er að öðru leyti ekki með, en það er meira grænmeti á borðum, meira hreint fæði og minna af nammi í húsinu. Þannig að áhrifin eru góð og ég er betri fyrirmynd fyrir unglingalandsliðsdrengina mína,“ segir leikarinn og brosir.

Vissi að hann myndi falla aftur í sykurpyttinn

Það getur reynst sumum erfitt að breyta mataræði sínu á þennan hátt en Jói segist aldrei hafa fundið fyrir uppgjöf eða leiða á mataræðinu.

„Nei, eiginlega öfugt. Ég tímdi ekki að hætta eftir þrjá mánuði. Ég er svo mikill sykurfíkill, aðallega í súkkulaði og ís, að ég vissi að ég myndi falla aftur í þann pytt. En á ketó er ég ekki með þessa sterku löngun að ég snúi við heimilinu leitandi að gömlu páskaeggi eða borði nammi frá strákunum mínum,“ segir Jói og bætir við að hann svindli aldrei, þó hann hafi aðeins slakað á mataræðinu.

„Ég svindla ekki en fyrstu þrjá mánuðina fylgdi ég öllu 100 prósent. Ég tók 16/8 daga tvisvar í viku og taldi kolvetnin. Eftir þessa þrjá mánuði slakaði ég aðeins á því en fór ekki úr ketó,“ segir Jói, en með 16/8 vísar hann í að fasta 16 klukkutíma á dag og borða aðeins í átta tíma á sólarhring.

Ekki allt grænmeti leyfilegt

Leikarinn lumar á ýmsum ráðum fyrir þá sem vilja gerast ketó.

„Þetta er ekki eins flókið og fólk heldur. Aðalmálið er að sleppa kolvetnum, sykri og öllu sykruðu, þar með talið ávöxtum því þeir eru náttúrulegt nammi með háu sykurmagni, kartöflum, hrísgrjónum og svo framvegis. Í stað þess að brenna kolvetnum brennir maður fitu, því fita er stór hluti af fæðunni, eða 75 prósent, og svo prótein, 15 prósent og salat. Kolvetni eru fimm prósent. En það er ekki allt grænmeti leyfilegt. Þumalputtareglan er að það sem vex upp er í lagi. Það sem vex niður er það ekki. Það er nauðsynlegt að lesa sér til, jafnvel fara í prógramm til að koma sér af stað. Muna að drekka nóg vatn, það er algjörlega nauðsynlegt á meðan líkaminn er að skipta yfir, annars koma höfuðverkir og vanlíðan,“ segir Jói, sem hefur lært dýrmæta lexíu á þessari reynslu.

„Ég hef lært að ég get haft stjórn á mataræði og er ekki þræll sykurs,“ segir hann. En er ketó komið til að vera í hans lífi?

„Já, ég hugsa það, nema að annað komi í ljós. Það er ef þetta fer að hafa slæm áhrif á heilsuna mun ég að sjálfsögðu breyta til. En þetta hentar mér einstaklega vel.“

Jói í hlutverki sínu í Ivalo.

Flýgur um Evrópu til að leika

Í óketótengdum fréttum er annars nóg um að vera hjá leikaranum sem flýgur frá landi til lands að iðka sína listgrein.

„Þessa stundina eru finnsk/þýskir þættir sem ég leik stórt hlutverk að fá frábæra dóma í Finnlandi. Þeir fara brátt í sýningu í Þýskalandi og svo um víða veröld. Eins er verið að sýna Fortitude þar sem ég er með hlutverk. Ég er að fara að leika í annarri seríu af þáttum sem ég lék aðalhlutverk í í fyrra. Þeir heita Rig 45 og eru sænsk/bresk framleiðsla. Svo verð ég að leika aðalhlutverk í sjálfstæðri íslenskri mynd. Ungur ofurhugi að nafni Ólafur Einar Ólafarson er að leikstýra og framleiða. Ef allt gengur eftir verð ég svo í sumar í stóru hlutverki hjá Baldvini Z sem einn minn uppáhalds. Eins er ég með sýninguna Icelandic Sagas -The Greatest Hits í Hörpu í hverri viku. Er framleiðandi og handritshöfundur ásamt Ólafi Agli Egilssyni og Lilju Nótt Þórarinsdóttur. Hún er á ensku og hefur gengið í 3 ár. Það eru 3 pör sem skipta með sér sýningum og því kemst ég í annað þegar það býðst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa